Ríkisstjórnin fari í iðrunargöngu!

Upplýsingarnar um hleranirnar vekja upp undrun og hroll.  Ég ólst þá upp í svona ríki líka.  Ég er reyndar svo djúpur að leggja aldrei dóm á annan tíma af sjónarhóli nýs tíma og mun því hvorki fordæma Bjarna heitinn Benediktsson eða þá sem voru lengst til vinstri í pólitík.  Hinir síðarnefndu voru gjarnan þeir sem voru með hjartað á réttum stað og vildu berjast gegn fátækt og óréttlæti.  Bjarni og félagar hans hafa sjálfsagt smitast af ótta bandarískra ráðamanna sem óttuðust heimsyfirráð kommúnista. En Sjálfstæðisflokkurinn var við völd og verður því að taka ábyrgð á því að misvirða lýðræðið – eða er það ekki? Eiga stjórnmálaflokkar ekki að taka ábyrgð á gerðum forystumanna sinna með einhverjum hætti? Eða ríkisstjórnir á fyrrum ríkisstjórnum?

Björn Bjarnason bendir á að það sé ekki til siðs að biðjast afsökunar á Íslandi, engin hefð fyrir því, segir hann. Það kann að vera rétt. En það er hefð fyrir öðru. Kirkjan hefur verið að koma á hefð fyrir iðrunargöngum.  Þjóðkirkjan fór í mikla iðrunargöngu á Þingvöllum um árið til yfirbótar vegna kvenna sem var drekkt þar á liðnum öldum. Þarna er hefð sem Björn kvartar yfir að skorti. Ég legg til að ríkisstjórnin fari í iðrunargöngu milli þeirra heimila í Reykjavík hverra vé voru vanvirt með hlerunum á tímabilinu 1949 til 1968. Biskupinn væri með í farabroddi biðjandi.  Þetta væri sami hópurinn og gengur milli dómkirkju og Alþingishúss á hverju hausti – einnig þar komin smá hefð á.

Afsökun er innantómt hjóm. Iðrun er það sem máli skiptir. Takk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað kemur biskupinn málinu við? Voru þetta kristilegar hleranir? Nema biskup noti ferðina og banki uppá hjá samkynhneigðum, trúlausum og öðrum sem hann níðir reglulega í predikunum og öðrum ræðum - það væri kannski ekki algalin hugmynd.

Jón Yngvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 09:46

2 identicon

Ég hef aldrei skilið þetta fyrirbæri "iðrunarganga" : Iðrunarganga var farin á kristintökuhátíðinni árið 2000 til að iðrast vondra verka krikjunnar í gegn um þúsund alda nið ( ég varð að vitana í Árna Johnsen  ) Ég skil þetta ekki, prestar fara í labbitúr, guð verður saka glaður og fyrirgefur kirkjunni voðaverk fortíðar.  Skrítinn guð, skrítin trúarbrögð, skrítin kirkja.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:21

3 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Aðeins að vísa til þess að þetta er þjóðkirkja!  Svo mótaði hún þessa hefð. Iðrun er einnig hákristið fyrirbæri.  Annað var það nú ekki.  kv. B

Baldur Kristjánsson, 28.5.2008 kl. 10:27

4 identicon

Hugtakið þjóðkirkja er í sjálfu sér andstætt frelsishugmyndum sósíalista, sem mér skilst að sr. BK telji sig vera. Trúarbrögð eru og eiga að vera einkamál fólks. Ef fólk vill bindast í félög til iðkunar trúarbragða á því að vera það frjálst. En ef ein trú er tekin út úr og gerð að ríkisreknu apparati, er fyrir það fyrsta búið að kasta fyrir róða trúfrelsishugtakinu með því að slíkt fyrirtækis er orðið ríkisrekið á kostnað allra skattborgara, hvaða trú sem þeir aðhyllast. Mér finnst það ekki slá í takt við þá fjölmenningarhyggju, sem sr. BK virðist aðhyllast - a.m.k. stundum - að gera til dæmis muslimsku flóttakonunum, sem væntanlegar eru til Akraness innan skamms og verða vonandi innan tíðar að fullgildum, íslenskum borgurum, sem borga skatta eins og við hin gerum, að greiða hluta skatta sinna í raun til að styrkja og starfrækja trúarbrögð, sem þær aðhyllast alls ekki.

Captain Nemo (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 11:47

5 identicon

Jahá... og hvort myndi iðrunarganga biskupsins þá byrja eða enda við hús Brynjólfs Bjarnasonar - annars tveggja Íslendinga á tuttugustu öld sem hlotið hafa dóm fyrir guðlast?

Ef listi hinna hleruðu er lesinn yfir sést að þar eru ansi margir sem vildu sem allra minnst hafa saman við Þjóðkirkjuna að sælda og hefðu talið sér lítinn sóma sýndan með bænahjali biskups í skrúða.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 12:06

6 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Catain Memo:  Þú þarft ekki að gefa þér að ég sé hlynntur Þjóðkirkju. Hef ekki fjallað um það efni nýlega.

Sigrún: Þeim sem ekki lesa á blöðum og flytja almennilega þeim verður alltaf á smámistök.  Það er flokkspólitík blinda að höggva eftir þessu!

Stefán: Hinir bestu menn missa humorinn þegar minnst er á kirkuna.  Leiðinlegt! kv.  B

Baldur Kristjánsson, 28.5.2008 kl. 12:21

7 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Afsakið. Svar mitt til Sigrúnar fór á vitlausan bás!

Baldur Kristjánsson, 28.5.2008 kl. 12:26

8 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Væri þá ekki ráð að íslenskir kommúnistar bæðust fyrst afsökunar á því að hafa reynt með öllum tiltækum ráðum að koma þjóðinni undir járnhæl einræðis og kommúnisma.

Ég er satt að segja hissa á því að íslenskir kommúnistar skuli gera eitthvað sem vekur athygli á framgöngu þeirra á dögum kalda stríðsins.

Finnur Hrafn Jónsson, 28.5.2008 kl. 14:55

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst þetta snúast um raunverulegt réttmæti hlerananna gegn tilteknum mönnum. Þær voru ekki rökstuddar, hvað það væri við þá sem væri svona hættilegt og ekki afgreiddar með neins konar yfirvegun. Þær voru bara afgreiddar sjálfvirkt. Það finnst mér ekki í lagi og nútímamenn geta alveg lagt dóm á að slíkt sé ekki í lagi. Menn eiga ekki að afsaka stjórnvöld sí og æ þegar þeir beita sér gegn einstaklingum sem eru mjög berskjaldaðir gagnvart stjórnvöldum. Af þessum einstaklingum stafaði enginn hætta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.5.2008 kl. 15:15

10 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Okkar kann núna að finnast hleranir lítt rökstuddar 50 árum seinna, eftir þó nokkra þróun í því hvað kallast mannréttindi.

Á þessum árum var það viðtekin skoðun að kommúnistar eða sósíalistar gætu verið hættulegir þjóðinni. 30. mars 1949 var gerð alvarleg tilraun til að hnekkja ákvörðun Alþingis með ofbeldi af óðum kommúnistaskríl eins og það var kallað þá.

Fyrir mér var þetta bara sagnfræði þangað til nýlega að ég hlustaði á fullorðin mann lýsa því fyrir mér þegar hann sem unglingur var viðloðandi starf sósíalista í Reykjavík á þessum árum. Hann sagði mér að morgni 30. mars hefði hann séð til manna sem voru að taka til riffla. Hann sagði að sér hefði ekki verði sagt beint hvað var í gangi en varð ljóst seinna um daginn hvert tilefnið var. Sem betur fór voru þeir ekki notaðir en frásögnin styður þær fullyrðingar að meira hafi verið í gangi heldur en einföld mótmæli fólks sem var ósammála niðurstöðu Alþingis.

Annað dæmi um tíðaranda þessara ára, sem ég kynntist sem unglingur var frásögn af því hvers vegna einn forystumanna sósíalista vildi ekki mæta í opinbera veislu hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Jú, ástæðan var sú að þegar sósíalistar væru búnir að ná völdum gæti komið í hans hlut að gefa aftökuskipun fyrir þessa sömu ráðamenn. Ekki get ég fullyrt um að rétt hafi verið eftir haft. Hitt veit ég að hún er dæmi um tíðarandann sem var á þessum tíma.

Mér finnst alveg fáránlegt að setja sig í dómarasæti núna 50 árum seinna án þess að taka tillit til þeirra aðstæðna sem voru á þeim tíma. Á sama hátt finnst mér að hafa megi í huga að kommúnistar síðustu aldar höfðu ekki allar þær upplýsingar sem við höfum núna um skelfilegar afleiðingar stefnunnar.

Finnur Hrafn Jónsson, 28.5.2008 kl. 18:01

11 identicon

Íslensk stjórnvöld hafa vafalítið verið að herma eftir stóra bróður með þessum hlerunum.  Það vekur samt furðu mína að símar hafi verið hleraðir í svona fámennu landi þar sem ómögulegt er að hverfa í fjöldann.

Bryndís Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 18:07

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Finnur Hrafn: Hver er eiginlega að setja sig í dómarsæti hér meira en þú? Það var jafn slæmt að leyfa órökstuddar hleranir án nokkurrar skoðunar eða gagnrýni dómara á dögum kalda stríðsins eins og það væri núna. Þær reglur réttarríkisins sem við  viljum hafa í heiðri voru á þeim tíma líka alveg viðurkenndar og fastar í sessi. Það dugar ekki með þetta mál, hleranir gegn nafngreindum einstaklingum ekki heilum her kommúnista sem vildi hrifsa til sín völdin, að grípa til afsakana í ljósi tíðarandans. Það er mikilvægt að menn átti sig á þessu hvar sem þeir standa í pólitík.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.5.2008 kl. 18:53

13 Smámynd: Bjarni Harðarson

góður eins og svo oft - jú og kommarnir verða líka að fara í iðrunargöngu og þá eðlilegast að þeir gangi alla leið austur á norðfjörð!

Bjarni Harðarson, 28.5.2008 kl. 22:43

14 Smámynd: Óskar Arnórsson

Voðalegur barnaskapur er þetta! heldur einhver að hleranir séu hættar núna árið 2008? Bæði í pólitík og á hvern sem er? Eini glæpurinn í dag er þegar kemst upp um hleranir og það er sjaldgæfara núna enn nokkru sinni áður að það komist upp..hélt að allt viti borið fólk vissi þetta..

Óskar Arnórsson, 29.5.2008 kl. 06:13

15 identicon

Finnst engum skrýtið að dómsmálaráðherra skuli hafna því að biðjast afsökunar og vísa mönnum á dómstólaleiðina - eru þessi mál ekki örugglega fyrnd og er Björn ekki bara að segja "Éttann sjálfur!"

Jóhannes (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 14:35

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjörlega rétt hjá þér Jóhannes..hann myndi bara orða það öðruvísi enn meiningin yrði sú sama..

Óskar Arnórsson, 29.5.2008 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband