Hvað skynjar eitt barn??
14.1.2007 | 21:00
Ég hef hugleitt mikið hvort að siðferðilega réttlætanlegt sé að stöðva eða koma í veg fyrir vöxt barns sem er fjölfatlað. Mér finnst fréttamenn stundum skauta fram hjá punktinum sem mér finnst skipta máli. Í fréttum Stöðvar 2 var t.d. í kvöld klikkt út með því að flestir (fræðimenn) væru sammála um að ekki væri siðferðilega verjandi að hefta vöxt barns sem væri andlega fatlað!! Með þessum orðum fór fréttamaður í raun og veru með fréttina.
Ég held að engum detti í hug að réttlætanlegt sé að hindra vöxt barns þó það sé andlega skert. Álitamálið vaknar þá fyrst þegar spurt er hvort að réttlætanlegt sé að skerða vöxt fjölfatlaðs barns þegar fyrirséð er að líkaminn þoli ekki að barnið vaxi og barnið deyi því óhjákvæmilega á unglingsaldri. Það er valkosturinn sem foreldrar stúlkurnnar í Ameríku stóðu frammi fyrir(skilst mér). Í öllu falli er það eina raunverulega álitaefnið.
Það er þannig með mörg fjölfötluð börn t.d. spastísk börn sem geta lítt eða ekki hreyft sig að líffæri eitt eða fleiri gefa sig við tiltekinn vöxt. Það er því vitað að barn þolir ekki vöxtinn og deyr einhvern tímann áður en það verður fullvaxið. Með hverri nýrri tíð vex kvöl barnsins og í nútímanum er henni auðvitað haldið niðri með morfíni. Meðan barnið er ungt eða smátt er líf þess hins vegar oft tiltölulega kvalarlaust. Spurningin er því: Er réttlætannlegt að grípa inn í og hindra vöxt og gefa barninu þar með langt/lengra líf, líf sem oft er án mikilla verkja? Næsta spurning er: Er réttlætanlegt að gera það ekki fyrst að þekking og tækni er til staðar?
Málið er erfitt. Fyrst og fremst vegna þess að enginn getur í raun sagt um hvað barn, sem getur ekki tjáð sig eða hreyft sig, skynjar. Enginn getur þess vegna dæmt um það hvað líf þess er dýrmætt. Hvort það þekkir móður eða föður? Hvort að augnarráð, faðmlag eða snerting vekur vellíðan eða hvort allt þetta er merkingarlaust?
Einfaldast er að segja að náttúran eigi að hafa sinn gang. En hugsanlega má líka halda því fram að hvert tilfelli sé einstakt og þurfi sérstakrar athugunar við. Er víst að alltaf sé rangt að stöðva vaxtarhormón ef það getur lengt (verulega) líf barns sem hugsanlega skynjar nærveru og umhyggju ástríkra foreldra og systkina.
Ég er ekki tilbúinn til þess að kveða uppúr um það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.