Framsókn- spá um úrslit!
19.1.2007 | 16:46
Ég bý á Suðurlandi og inn um gluggann minn berast ókjör af bæklingum og miðum frá frambjóðendum í prófkjöri Framsóknarmanna fyrir þingkosningarnar í vor. Í prófkjörinu berjast menn um það að komast í fyrstu sæti svokallaðs framboðslista en efstu menn á honum eru líklegir til þess að fá vinnu við það næstu fjögur árin að rétta upp hönd niðrá Alþingi á vegum ríkisstjórnarinnar og verja hana með mælsku sinni ef út í það fer fyrir fáviskulegum árásum stjórnarandstöðunnar. Ef illa fer í kosningum geta menn reyndar átt það á hættu að lenda í þessari stjórnarandstöðu.
Ég átti ekki von á öllum þessum bæklingum og símhringingum og fundarboðum. Það mætti halda að eftir einhverju væri að slægjast. Ef Davíð Oddsson hefur rétt fyrir sér þá eru fólk að keppast eftir því að fá yfir sig róg og illmælgi og verða þar að auki fátækt alla æfi. Nú þekki ég mitt heimafólk að veita að margt af þessu fólki er fátækt fyrir þannig að örlög þess verða því hraklegri. Nema það sé skýringin: það þekki ekkert betra.
Fólk splæsir í bækling eftir bækling og situr í skuldasúpu á eftir og það sem verst er kemst ekki á launaskrá hjá þjóðinni eins og að virðist stefnt. Úrslitin eru nefnilega mjög fyrirsjáanleg þeir sem sitja þar fyrir vilja vera þar áfram og verða það eflaust þó þeir hnakkrífist um það hvor eigi að vera á undan hinum.
Nú ætla ég að spá. Ég spái því að Hjálmar Árnason og Guðni Ágústsson verði býsna jafnir en Guðni hafi það. Það gæti þó orðið Guðna hættulegt að minni spámennirnir eiga þann eina möguleika að Guðni verði á eftir Hjálmari og rjúki burt í fússi og þar með losni sæti. En þetta átti ekki að vera greining heldur spá. Næstur á eftir þeim félögum kemur Bjarni bóksali sem er mælskastur frambjóðenda. Á hæla honum kemur Björn Bjarndal sem búinn er að klífa metorðastigann innan ungmennafélaganna og reynir nú við annan stiga þar sem meira er um falskar tröppur. Síðan koma tvær konur Eygló Harðardóttir sem bæklar mikið og Elsa Ingjaldsdóttir sem má eiga það að hún sendir lítið frá sér en ekki treysti ég mér til þess að spá um hvor verður ofar.
Gangi þessi spá eftir verða Framóknarmenn í jafnréttiserfiðleikum. Þar sem þeir eru orðnir því vanir að takast á við erfiðleika þá leysa þeir það einhvern veginn til dæmis með því að hafa bara fjóra karla í fjórum efstu sætunum.
Nú er bara að bíða og sjá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:23 | Facebook
Athugasemdir
Held að þetta c nokkuð nærri lagi hjá þér.
Hefði samt gaman af því að Bjarni næði 2. sætinu án forfalla forystukeppinautanna.
GK, 20.1.2007 kl. 00:15
Ég er með spá á minni síðu...ögrandi spá
Ég er nokkuð viss um að bóksalinn geðþekki lendir í 2.sæti
Sigþrúður Harðardóttir, 20.1.2007 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.