Draumur Sigurgeirs!
14.5.2010 | 20:40
Ég er á fjórða degi á ferð minni um landið mitt, Ísland hið nákalda, hlýlega land, land lækjanna sem í endaleysu sinni renna niður fjöllin til sjávar. Við, 37 vinir, vöknuðum í morgun á Stöng sem er feðaþjónustubær við Mývatn. Þar reka eldri hjón ferðaþjónustu í gömlum bæ með viðbyggðu þjónusturými, matsal, setustofu og þ.h.. Gistiaðstaða var sæmileg, þröng og notaleg og viðmótið frábært og maturinn sömuleiðis. Við fengum í gærkvöldi lambalæri að hætti mömmu og ávaxtagraut með rjómablandi á eftir. Allt bragðaðist alveg ljómandi vel og þó að húsfreyjan þyrfti að skreppa út í fjárhús til að reyna að bjarga lambi fengu allir nægju sína og vel það. Ekki tókst að bjarga þeim lömbum sem voru í matinn að þessu sinni. Þetta er hópur af verðandi leiðsögumönnum sem ég ferðast með. Þeir Snorri Valsson og Karl Jóhannsson eru yfirkennarar en allir í hinum 40 manna hópi eru vel að sér fróðir og flinkir, fólk á öllum aldri af báðum kynjum, fólk með margskonar bakgrunn, sumir hafa verið leiðsögumenn áður, aðrir verkfræðingar, hugsuðir eða kennarar, einn kokkur er, einn fjörkálfur, Eskfirðingur finnst þar og svo er þarna ungt og efnilegt fólk með litla sögu.
Eftir indælan og hefðbundin morgunmat komum við á Fuglasafn Sigurgeirs. Þar má sjá ótal uppstoppaða fugla í mjög vel hugsaðri uppstillingu. Maður ýtir á takka við fuglsnafn og ljós kviknar hjá fugli. Safnið er satt að segja alveg frábært fyrir fávita jafnt sem fræðinga, mátulega stórt, vel uppraðað og viðmót fólksins ljúft. Byggingin yfir safnið er falleg og látlaus og er á Ytri Neslöndum. Þetta mun vera stærsta einkasafn í einkaeigu á Íslandi.
Sigurgeir þessi fórst við þriðja mann í sviplegu slysi á Mývatni árið 1999. Ef mér skjöplast ekki þá voru þeir að leggja símakapal á smábát í vondu veðri og hvolfdi undan þeim. Einn mannannna var Jón Kjartansson snillingur, símamaður vinur minn (og leiðrétti mig sá sem veit betur), hörmulegt slys. Sigurgeir Stefánsson hafði alla tíð safnað eggjum og tvítugt byrjaði hann að safna fuglum og láta stoppa þá upp og átti gríðarlega mikið safn þegar hann drukknaði 37 ára gamall. Hann átti sér þann draum að geta reist hús yfir safnið og ættingjar hans og vinir gerðu þann draum að veruleika eftir hans dag. Frábært framtak.
Frábært fuglasafn, uppsett af nostursemi og umhyggju. Skylduviðkomustaður ferðamanna sem ferðast um með höfuð og hjarta. Aðgangseyrir 800 krónur, 700 krónur fyrir hópa og 400 krónur fyrir börn og gamalmenni. Ekki missa af þessu og kaffið sem ég keypti mér á eftir var gott.
Og nú er ég ásamt hinum fríða flokki lagstur í kvöldkör á hlýlegu gistiheimili á Eskifirði og móttökurnar lofa góðu. Meira um það á morgun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.