Á ferð um Ísland- dagur 1.
22.5.2010 | 12:18
Ferðadagbók. Ég bið menn að fletta yfir þetta. þetta fjallar ekki um hrunið eða neitt slíkt heldur um hringferð sem undirritaður skellti sér í til heilsubótar og sett hér inn til eilífrar varðveizlu.
1. Dagur.
Á undan hverri ferð er ferð. Sú ferð hjá mér hefur reyndar staðið í sextíu ár, en ég kýs að hefja aðdragandann í Þorlákshöfn sem er smábær við suðurströnd Íslands, þriðjudaginn 11. maí kl. 08:15 á tvö þúsundusta og tíunda ári tímatals vors.
Ég renni upp Skógarhlíðarbrekku og um veg sem kenndur er við Þrengsli, gegnum Svínahraun um Sandskeið og niður í sollinn til Reykjavíkur. Eitt stopp var á leiðinni: Í Litlu kaffistofunni bauðst mér kaffi og pönnuköka í boði hússins.
Á svokallaðri Umferðarmiðstöð beið mín hópur leiðsögunema ásamt kennurunum Snorra Valssyni og Karli Jóhannssyni. Ég hef sem sagt slegist í sex daga hringför um eldfjallaeyjuna með leiðsögunemum við skásta Háskóla landsins, Háskóla íslands, endurmenntunardeild hans.
Lagt var upp þaðan upp úr klukkan níu. Farið var vesturum og fyrsti áfangastaður var fyrirhugaður í Stykkishólmi.
Leiðsögumennirnir kenndu okkur ýmislegt gagnlegt til að byrja með svo að umhverfið fór svolítið fyrir ofan garð og neðan. Ég lærði að að huga þyrfti vel að klósettferðum ferðalanga. Telja þyrfti í bílinn eftir hvert stopp. Maður ætti að vera kurteis og almennilegur við farþega. Ekki tala of mikið. Vera bæði umhyggjusamur og fræðandi. Huga vel að þörfum farþega. Huga vel að því hvernig raðað væri í bílinn og hvernig rótera og hvort rótera skyldi farþegum. Í þessari ferð var valin sú leið að fólk færðist aftur um tvö sæti daglega sæti það hægra megin í rútunni þegar horft væri frameftir en framávið á vinstri vængnum. Þetta kerfi er nokkuð gott þegar tveir og tveir ferðast saman en verra þegar allir þekkja alla eða enginn neinn. Maður situr uppi með sama kexið alla ferðina. Hvernig tekst til getur ráðið úrslitum um andlega heilsu allt til æviloka.
Þá er ekki nóg í sex daga ferð að hoppa í annað hvert sæti. Þeir sem byrjuðu um miðjan bíl voru alltaf í fremri eða aftari hluta rútunnar eftir því hvort þeir byrjuðu vinstra eða hægra megin.
Undirritaður byrjaði fremst hægra megin og færðist aftar og aftar eftir því sem leið á ferðina og endaði einn og yfirgefinn aftast því að unga stúlkan sem hann hafi hlammað sér hjá í upphafi flúði á fjórða degi upp að hlið herramanns sem var á hraðri leið framávið. Þetta var hörmuleg endurspeglun á lífi hins misheppnaða manns.
Jæja. það var svo mikið við að vera að heilsa öllum að ég man ekkert eftir mér fyrr en við Dritvík á utanverðu Snæfellsnesi. Rámar mig þó í viðkomu í Borgarnesi, hamborgarasjoppu þar og tivísanir leiðsögukennara í Egils sögu. Í Dritvík stoppuðum við og lyfti ég hálfsterkum eins og allar stelpurnar í ferðinni. Grímur, strákurinn í ferðinni, klifraði upp á alla kletta.
Við höfðum reyndar stoppað í kaffihúsi sem er í skúr utan í kletti á Hellnum þar sem ég náði að vera fyrstur inn ásamt stelpu sem heitir Sara og við pöntuðum okkur Capúsínó en lentum á hægfara kaffivél og fengum okkar þegar allir hinir voru búnir að fá sitt. það var erfiður tími og mikil spæling en nokkur lexía um hina síðustu og fyrstu.
Við ókum svo um Hellisand, Ólafsvík og Grundarfjörð og sveitirnar þar á milli, um Berserkjahraun, söguslóðir Eyrbyggju. Snorri sagði okkur frá nafna sínum goða í Helgafelli og Guðrúnu Ósvífursdóttur áður en við áður en við komusmst í bæli okkar í Stykkishólmi en það er fallegur bær á enn fallegri stað sem lítið fer fyrir og væri löngu gleymdur ef væri ekki fyrir nunnur sem settust þar að en eru dánar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.