Á ferð um landið-3.dagur -Frá Öngulsstöðum að Stöng

Dumbungur upp úr Eyjafirði. Snorri Valsson flutti frábæran fyrirlestur um nautgriparækt og galloway kynið.  Útskýrði hvernig hægt var að koma því á með því að flytja bara inn naut en ekki kvígur.  Við fyrstu sæðisgjöf kemur hálfur galloway.  Á þá ungu kvígu er aðflutta nautinu hleypt og þá kemur ¾ galloway gripur.  Enn er aðflutta nautið notað og enn og enn  þar til hlutfallið er komið í 63/64 eftir sex kynslóðir kvígukálfa. Þá er gamla innflutta nautið fyrir löngu orðið pervert og því lógað.   Þá er öllum hleypt á alla.

Við erum komin yfir Víkurskarð þegar þessari fræðslu lýkur og maður fer að velta fyrir sér nafninu Fnjósk en við það er sá dalur sem gengur inn austan Vaðlaheiðar kenndur svo og áin. Ekki vekur kenningin Vaglir minni furðu en við þá kenningu er skógurinn kenndur. Þarna ólst upp held ég hinn frægi klerkur og ágæti maður Jón Ísleifsson.  Framhjá Stóru-Tjarnarskóla og Ljósavatni Þorgeirs goða er haldið og ekki numið staðar fyrr en við Goðafoss en í fossinn er sagt að Þorgeir hafi hent styttum sínum af Þór og öðrum goðum eftir að hann kom heim frá Þingvöllum þar sem hann hafði legið undir feldi og hugsað eins og frægt er orðið.  Þetta er flottur foss og víða hægt að fara alveg fram á klettabrúnir.  Þarna er nokkur aðstaða fyrir ferðamenn og komin svona ferðamannabúð eins og víða eru að spretta upp að Skandinavískri fyrirmynd þar sem seldar eru peysur, pils, leðurólar og plattar, horn og krúsir.  Þetta er framarlega í Bárðardal en inn Bárðadal fer meður inn í það óendanlega ef maður vill fara inn á Sprengisand og um hann suður á land. Eyðileg leið og erfið.

Á Ljósavatni sáum við himbrima sem er fugl.  Það er uppstigningadagur þegar við keyrum þarna um og við gefum sérstakan gaum að hinni nýreistu Þorgeirskirkju en þar er altaristaflan náttúran sjálf. Á Ysta Felli í Kinn ólst upp Jón A. Baldvinsson víglusbiskup á Hólum en meðhjálparinn ágæti í Víðimýrarkirkju sagði okkur frá Guðmunmdi góða sem var líka biskup á Hólum. Jón þessi er friðsamur maður og á ekki í útistöðum við höfðingja eins og henti Guðmund góða.  Tíðin er önnur.  Við keyrum út Reykjadal og Aðaldal um hið gríðarlega Láxárhraun sem kom niður farveg Láxár úr Lúdentsborgum. 

Á Húsavík skoðum við Hvalasafnið.  Húsavík er ferðamannabær en dauður bær um þetta leyti eins og allir bæir síðan inniklósett, tölvur, sími og bílar komu, ekki sála á ferli og hvert ætti svo sem að vera erindið.  Ferðamönnum finnst Húsavík fallegur bær.  Við félagarnir hrekjumst út úr rándýrum restaurant og fáum okkur pylsu í þrifalegri N-1 sjoppu.  Leiðinlegt hvernig þetta fyrirtæki Engeyjarættarinnar hefur fengið að drita sér um allt – með þetta forljóta merki - en þarna fer maður.

Það er ekið um Tjörnesið í súldarbrælu.  Árið 1984  var ég leiðsögumaður um Tjörnesið með hóp blindra í sumardvöl á Vestmannsvatni um Tjörnesið  í svipuðu skyggni.  Þá var jafnt á með öllum í rútunni komið.  Það létti lítillega til í Ásbyrgi og Snorri og Karl fóru með okkur alveg inn í botn þar sem er lítið vatn, Botnstjörn, undir tignarlegum klettaveggjum byrgisins sem gnæfa 110 metra upp í loftið.  Við hefðum ekki náð uppá brún þó við hefðum klifrað upp á axlirnar hvert á öðru enda bara um fjörtíu í hópnum og margir litlir. Það hefði þurft tæplega 70 til en 58 Baldrar hefðu nægt.

Það hafði staðið til að fara að Dettifossi í Jökulsá á Fjöllum en vegur var ekki talinn fær.  Því var farinn sama leið til baka.

Við skildum gellurnar eftir í Reykjahlíð en áður en haldið var í gistingu og góðan mat að Stöng í Mývatnssveit var gengið á Leirhnjúk, hressandi klukkutíma ganga í mátulegri færð.

Segir ekki meira af þessum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Undirritaður áskilur sér rétt til að eyða athugasemdum sem bæta engu við efnið eða fela í sér skítkast. Aðeins kurteislegar athugasemdir fá að standa.“

„Ógeðslegt hvernig þetta fyrirtæki Engeyjarættarinnar hefur fengið að drita sér um allt – með þetta forljóta merki - en þarna fer maður!.

Mega athugasemdir vera í sama anda og umfjöllun prests?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 16:44

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll!  Þetta er alveg rétt hjá þér Sigurjón minn og hef ég lagað setninguna. Þú hefur áður gert athugasemdir hjá mér og þér er það velkomið áfram en ef ég væri í þínum sporum myndi ég temja mér þýðari framsetningu þá eignast þú fleiri vini.  Og þú ert örugglega yfi það hafinn í raun að vera með stöðugar prestsklíningar.  Hvað gerir þú annars?? BKv.  Baldur

Baldur Kristjánsson, 24.5.2010 kl. 17:09

3 identicon

Þakka góð ráð Baldur og boð þitt um að stinga inn athugasemdum hjá þér þyki mér ástæða til og hafa mun ég, eins og í þetta sinn, þýðleikann í fyrirrúmi.Annars hefu tónn oftast minn tekið mið af því sem um er fjallað hverju sinni held ég. Kannski þyrftum við báðir að taka okkur ögn á og temja okkur það að hafa þýðleikann oftar í fyrirrúmi.

Eins og fram kemur á bloggsíðu minni er ég hönnuður.

b.kv.

Sigurjón

ps: Er annars þokkalega birgur af vinum.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 17:40

4 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Annars er Húsavík fallegur bær og þar hef ég alltaf kunnað vel við mig. BKv. b

Baldur Kristjánsson, 24.5.2010 kl. 17:50

5 identicon

Um það - og e.t.v. fleira en þú heldur, erum við sammála:)

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband