Á ferð um landið - 5. dagur - Frek og leiðinleg prestsfrú.

Þá held ég áfram í ferðinni en hvet engan til að lesa.  Aðeins sett hér inn til varðveizlu.

Þetta er eins og í hestaferð. Á fimmta degi er þetta farið að venjast.  Rasssærið sem gerði þriðja daginn óbærilegan og fjórða daginn slæman er orðið eðlilegur hluti af þjáningu daganna.  Við ökum um Eskifjörð og út á Mjóeyri og ég man það helst að það er talað um freka og leiðinlega prestsfrú og nízka sýslumannsfrú.  Svona eru  konur í menningunni!  Á Mjóeyri var karlinn Eiríkur nokkur geymdur áður en hann var tekinn af lífi eftir að hafa helétið samfanga sína.  Nær hefði verið að taka sýslumann af lífi fyrir vanræksluna.  Þetta var morgunfríður hópur sem hlustaði með athygli á hinar hryllilegu sögu.  Grímur var sem betur fer yngstur í rútunni. Börn hefðu orðið hrædd.

Við horfðum á bergganga í fjöllunum, innskot og hraunlög á leið okkar að göngunum milli Reyðafjarðar og Fáskrúðsfjarðar en þá förum við bóksaflega um berggöng og það er eins og að fara um tímagöng því að þegar við komum út mæta okkur frásögur um franska tímabilið í Fáskrúðsfirði. Frakkar veiddu þar útifyrir,  reistu spítala, eru grafnir þar og menningartengsl Fáskrúðsfirðinga og Frakka eru þó nokkur. Rútan hægir þó ekki á sér fyrr en komið er að steinasafni Petru á Stöðvarfirði en þar snarstoppar hún. Greinilega vön að stoppa þarna.  Þar er nóg að skoða.  Það eru börnin hennar Petru sem taka á móti okkur af lifandi umhyggju fyrir okkur hinum lifandi steinum og hinum dauðu steinum safnsins. Safnið er svo sannarlega upplifun og Petra hefur unnið lofsvert þrekvirki með því að safna nöfnum sínum saman en nafn hennar þýðir steinn, klettur eða bjarg eins og tungumálasnillingurinn Stan var fljótur að benda á.  Steinasafn Petru kemst í flokk með steinasafni Sigurgeirs yfir athyglisverðustu söfn á hringnum.

Austfirðir mynda ásamt Vestfjörðum elsta part landsins og berglögin halla inn að megineldstöðvum.  Við þreyjum Berufjörðinn með þolinmæði, skoðum slípaða steina  Sigurðar Guðmundssonar á bryggjunni á Djúpavogi.  Steinarnir bera nöfn fugla og eru lagaðir eftir lögun eggjanna.  Mér þótti þetta ekkert sérstakt en flestum finnst það.

Nú er haldið áfram og ekki rennt niður á höfuðstað Suð-Austurlands Höfn, fallegur staður Höfn á óviðjafnanlegu bæjarstæði.  Við stoppum vitaskuld í  Árnanesi þar sem þau hjónin Ásmundur Gíslason og Helga Erlendsdóttir, sem lést í vetur, hafa byggt upp ferðaþjónustu.  Árnanes stendur miðlægt í byggðinni í þríhyrning við Hóla þar sem Þorleifur í Hólum býr og Seljavelli þar sem bændahöfðinginn og alþingsimaðurinn Egill á Seljavöllum bjó.  Í Árnanesi höfðum við pantað súpu og kjömsum á henni dágóða stund í notalegri borðstofu.

Náttstaður okkar er Hunkubakkar á Síðu og engar gellur fara út á Klaustri.  Við höfum vitaskuld ekið ræmuna alla meðfram Vatnajökli.  Horft heim að Hoffelli, Svínafelli í Nesjum, Smyrlabjörgum, Skálafelli, bæjunum í Borgarhafnartorfunni og Breiðabólstaðartorfunni.  Námum staðar við Jökulsárlón en sigldum ekki. Héldum áfram yfir Fjallsá, minntumst á Kvískerjabræður, ókum hjá Hnappavöllum, Fagurhólsmýri, Hofsnesi þaðan sem Sigurður Bjarnason í Hofsnesi og Einar sonur hans taka fólk á heyvagni út í Ingólfshöfða.  Áfram var haldið fram hjá Hofi þar sem byggð hefur verið upp ferðaþjónusta og Svínafelli þar sem einnig er ferðaþjónusta og sundlaug og sérstakt hús klætt bárujárni upp í brekkunni og við fórum í Skaftafell og laufléttur hópurinn hljóp upp að Svartafossi og missti við það nokkur kíló.  Fólk sat í andaslitrunum við stuðlabergsmyndaðan fossinn og hugsaði til Guðjóns Samúelssonar sem einmitt kom frá Hunkubökkum sem varð gististaður okkar eftir hraðferð yfir svartan Skeiðarársandinn sem verður þó sífellt grænni.

Merkilegt hvað hægt er að komast á einum degi og þó áttu allir nóg eftir nema undirritaður sem sofnaði eins og barn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband