Á ferð um landið -6. dagur - gegnum öskuna.

Það tók Guð sex daga að skapa heiminn og það tekur okkur sex daga að ferðast umkring eitt hans mesta undur. Þetta með Guð er þó ekki satt.  Hann er enn að eins og við komumst að raun um þennan daginn sem er sunnudagur 16. maí og árið er 2010.  Upp úr sakleysilegum Eyjafjallajökli hafði um mánaðarskeið staðið strókurinn, hraun, eiturgufur og  aska.  Við byrjuðum á því að skoða gljúfrin fyrir ofan Hunkubakka, Fjarðárgljúfur, stoppuðum í Vík, fórum síðan í fjöruna undir Reynsifjalli og við ungu strákarnir fórum úr skónum og böðuðum fæturna í ylvolgri öldunni.  Fararstjórar töldu óvenju vel þegar komið var í rútuna. Enginn hafði týnst.  Helgi Jón, einn af snillingunum í náminu, fræðir okkur um krossana í berginu á Dyrhólaey. Við fórum síðan upp á sporðinn á Sólheimajökli.  Jörðin var grá af ösku sem huldi túnin og þyrlaðist upp undan bílunum svo ekki sá handa skil.  Slökkviliðsmenn sprautuðu vatni á þök í Mýrdalnum. Hvítur jökullinn var kolsvartur.  Gosdrunur í nálægum fjarska. Svartgrár mökkurinn upp af eldstöðvunum.  Gætnir settu upp öndunargrímur.  Þórður á Skógum tók okkur fagnandi í öskugráu umhverfi Skóga.  Við skoðuðum reiðtygi, bíla og dráttarvélar frá þeim tíma þegar ég var ungur.  Ég set safnið á Skógum í flokk með steinasafni Petru og fuglasafni Sigurgeirs.  Fáir gestir í safninu. Aðeins áhættufíklar komu í safnið dagana gegnum strókinn. Ferðamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð frekar en fýllinn.  Skógarfoss steyptist niður öskugrár.

Það er af nógu að taka á Njáluslóðum en allir kunna hana eins og lófann á sér.  Njála er mátulegt viðfangsefni og skemmtilegt.  Það var borðað á veitingarstað sem ber nafn Hlíðaenda.  Ég fékk mér hamborgara með miklum osti til minningar um Hallgerði langbrók og þræl hennar.

Hella er enginn farartálmi.  Við lítum niðrá vatnsmesta foss á Íslandi á leið yfir Þjórsá.  Ökum um Árnessýslu sem heitir eftir eyju í þjórsá.  Förum í gegnum Selfoss með sitt bókakaffi  yfir Hvítá gegnum Ölfusið meðfram Ingólfsfjalli.  Hvergerði er á hægri hönd, rútan erfiðar upp Kamba.  Vegurinn þar hefur verið mikið lagaður síðan Breskir hermenn steyptust þar niður í hrönnum í stríðinu.  Á Hellisheiði stíga hvítir strókar til himins og minna á deilur samtímans um nýtingu jarðorku.  Hvað á að virkja og í hvaða tilgangi?  Margar slíkar spurningar voru teknar  á ferðinni um landið, ferðinni sem nú er að ljúka.  Leiðsögumennirnir Snorri Valsson og Karl Jóhannsson mótuðu þetta vel.  Skipulögðu hóflega og gáfu það svigrúm sem þurfti til að öllum liði vel, meiddu engan með athugsemdum en drógu fram kosti, uppörvuðu. Hópurinn var hæfileikaríkur og margslunginn.

Við rennum niður Sandskeiðið inn í borg Guðjóns Samúelssonar.  Alls staðar kemur sá mæti maður við sögu.  Minni ferð er ekki lokið. Ég legg á heiðina. Leiðin liggur austur yfir fjall eftir sex daga stíð, hringstríð með kátum krökkum.  Merkilegri fyrirbæri en ég hafa hvílt sig eftir sex daga törn. Fyrir höndum er hvíldardagur, sjöundi dagurinn sem að þessu sinni er mánudagur.

Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband