Kvísker í Öræfum
29.5.2010 | 16:07
Sveitin milli sanda er hún stundum kölluð sveitin sú sem heitir Öræfi og liggur á milli Breiðamerkursands og Skeiðarársands sunnan undir Öræfajökli við hafnlausa strönd.Þessi sveit hét áður Litla Hérað og lagðist næstum því í auðn við eldgos úr Öræfajökli 1362, það er stærsta gos sem orðið hefur í Evrópu sl. 2000 ár. Umtalsvert eldgos varð aftur 1727 en sú byggð sem þá hafði myndast skrimti og svo hefur verið til dagsins í dag þrátt fyrir einangrun og jökulhlaup.Bæirnir hafa hnappast saman. Eru ekki lengur út um allt heldur á sex blettum undir fjallsrótum þar sem reynslan hefur sýnt að byggð helst. Bæjartorfurnar eru Skaftafell, Svínafell, Hof, Fagurhólsmýri (með Hofsnesi), Hnappavellir og austasti bærinn er Kvísker. Ótalið er Freysnes, hótelbyggð milli Skaftafells og Svínafells, nýtt bæjarstæði í nútíð.Bæjarstæði Kvískerjabæjarins er vinalegt, bærinn stendur við brekkufót undir vinalegri hlíð, tignarleg fjöllin bakvið og Öræfajökull gnæfir yfir. Framundan og austur af Breiðamerkusandur, austan við bæinn rennur Hrútá sem hefur oft flæmst um sanda. Fjær er Fjallsá, stórfljót, jökulvatn.Lengi mun Kvísker hafa verið í byggð. Um næst síðustu aldamót settist þar að búi Björn Pálsson frá Svínafelli og kona hans Þrúður Aradóttir og áttu þau heima þar alla sína tíð.Börn þeirra urðu Flosi, Guðrún, Guðrún yngri, Ingimundur, Páll, Sigurður, Hálfdán og Helgi.Af þessum systkinum lifa nú aðeins Helgi og Hálfdán og búa á Kvískerjum. Þau systkinin þóttu og þykja einstök í sinni röð. Bræðurnir urðu flestir miklir sjálfmenntaðir fræðimenn, kunnir fyrir skarpa athygli, hagleik og hugkvæmni. Flosi lagði t.a.m. stund á jökla og náttúrufræði og erlend tungumál, Helgi er listasmiður og smíðaði m.a. skírnarfontinn í Hofskirkju. Hálfdán sá yngsti á fjölbreitt náttúrugripasafn og býr yfir frábærri þekkingu á jurta og dýralífi. Systurnar voru annálaðar hannyrðakonur, Ingimundur dó ungur.Páll hafði yndi af söng. Fagursti söngurinn sem hann heyrði var ómur af sálminum ,,Lofið vorn Drottinn hinn líknsama föður á himnum. Það var 7unda nóvember 1936. Sigurður bróðir hans hafði lent undir snjóflóði í Breiðamerkurfjalli, borist með því í 28 metra djúpa geil inn undir jökulinn, lá þar ósjálfbjarga. Leitarmenn höfðu nær gefist upp er Páll heyrði óminn en Sigurður stytti sér stundir og hélt sér á lífi og von sinni með því að syngja sálmabókina sem hann hefur eflaust kunnað utanbókar. Hann var grafinn upp alheill eftir 25 tíma legu í snjóflóðinu. Sigurður varð mikill sagnfræðingur og lést fyrir örfáum árum í hárri elli. HeimildÞorsteinn Jóhannsson(1998) Kvísker. Kvískerjabók, Sýslusafn Höfn Hornafirði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er gaman að lesa þessar færslur þínar Baldur. Þegar ég byrjaði að lesa þá datt mér straks í hug hringferð leiðsögumanna, og viti menn, eftir því sem ég las fleiri færslur komst ég að því svo mun vera. Ég fór sjálfur svona hringferð fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið í sumarbyrjun 2001, þá nýútskrifaður leiðsögumaður. Ég hafði unnið við leiðsögn ferðamanna frá 1996, í hlutastarfi, en kom því loksins í verk að pæla í gegnum námið veturinn 2000- 2001. Þó ég sé hættur leiðsögn núorðið og búandi í landi "frænda" vorra Dana, þykir mér alltaf jafn gaman að lesa ferðalýsingar frá Fróni. Hafðu þakkir fyrir skemmtileg skrif og gangi þér vel sem leiðsögumaður.
Kv. Steinmar
Steinmar Gunnarsson, 30.5.2010 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.