Hali í Suðursveit
1.6.2010 | 20:27
Hali í Suðursveit er einn Breiðabólstaðarbæjanna. Hinir eru Gerði og Breiðabólstaður. Bæjartorfan er nokkuð vestarlega í Suðursveitinni undir stórbrotnu fjalli, Breiðabólstaðarfjalli. Á því eru þrír tindar Gerðistindur, Fosstorfutindur og Kvennaskálatindur. Magnaður klettar eru í fjallinu og lýsir rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson (1889-1974) sem alinn er upp á Hala í Suðursveit fjallinu í bók sinni, Í Suðursveit, og hvernig fé átti það til að verða innlyksa í því og hvernig því var bjargað. Þórbergur sem sagt fæddist á Hala og ólst þar upp einn þriggja bræðra. Hinir voru Steinþór og Steinn. Minnisvarði um bræðurna er fyrir ofan þjóðveginn. Steinþór varð landsþekktur er hann sagði bók sína Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, í útvarp árið 1970.Þórbergur er af mörgum talinn fremsti snillingur íslenskrar tungu og Halldór (Laxness) og Þórbergur voru gjarnan nefndir í sömu andrá. Frægasta bók hans er Bréf til Láru, fyrst gefin út 1924 og olli miklum jarðskjálftum bæði í bókmenntaheiminum íslenska og ekki síður í hinum pólitíska heimi landsins. Þá má nefna Íslenskan aðal (sem geymir m.a. framhjágönguna í Hrútafirði), Ofvitann og ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar og Sálminn um blómið sem er bókin um Sobbeggi afa og lillu Heggu.Mikið lón er framan við Breiðabólstaðartorfuna aðskilið hafinu með mjóu eiði en útifyrir var í bernsku Þórbergs gjarnan krökkt af frönskum skútum með hvít segl.Nú hefur Þórbergssafn verið opnað á Hala rekið af hjónunum Fjölni Torfasyni og Þorbjörgu Arnórsdóttur. Fjölnir er sonur Torfa Steinþórssonar sem var mikill bændahöfðingi í Suðursveit um sína tíð. Þórbergssafn geymir í máli og myndum og módelum lífssögu Þórbergs á Hala og í Reykjavík og gefur innsýn inn í líf Íslendinga í sveit og bæ á fyrri hluta 20. aldarinnar. Virkilega smekklegt safn og þar er einnig veitingasala. Heimildir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson Landið þitt Ísland. Örn og Örlygur 1981Tómas Einarsson og Helgi Magnússon Íslandshandbókin Örn og Örlygur 1989
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.