Meiriháttar bær, Höfn í Hornafirði

Höfn í Hornafirði stendur á tanga milli Hornafjarðar og Skarðsfjarðar sem báðir eru innan eiðis eða sandrifs en sjávarföll streyma um þröngan ós, Hornafjarðarós.  Ósinn er varhugaverður sjófarendum en þegar inn er komið er gott skipalægi. Mannskæð slys hafa orðið í ósnum alvarlegast þegar mótórbáturinn Sigurfari fórst þar með átta ungum mönnum árið 1971.  Á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar fórst kennsluskip, skólaskip í ósnum.  Fimm ungir menn, grunnskólanemendur, komust af eins og fyrir kraftaverk en skipstjóri og stýrimaður fórust.  Færeyskur bátur fórst þar nokkuð síðar og með honum a.m.k. einn maður.  Sagt hefur verið að Hornafjörður ali af sér góða skipstjórnarmenn vegna óssins.  Hverjum sem er er ekki treyst til að sigla þar út og inn  í margs konar veðrum og straumfærð.Höfn er ungt kauptún.  Byggð hófst þar ekki fyrr en 1897 þegar Ottó Túliníus flutti verslun sína frá Papósi til Hornafjarðar.  Þau hús má enn sjá.  Í öðru þeirra, austast á Hafnarbrautinni, ofan við Höfnina, er fallegt veitingahús og á túninu fyrir ofan bæinn er það sem áður var sölubúð á Papósi, nú  Byggðasafn.  Síðan 1897  hefur Höfn verið miðstöð Suðausturlands bæði í viðskiptalegum og félagslegum efnum.  Höfn er nú miðstöð sveitarfélagsins Hornafjörður sem nær frá Eystra-horni út yfir miðjan Skeiðarársand.  Stórfyrirtækið Skinney –Þinganes ber uppi fiskvinnslu og útgerð staðarins. Á Höfn  er prestur og sýslumaður, heilsugæsla, gott hótel sem aldrei hefur skipt um kennitölu lengst af rekið af Árna Stefánssyni.  Þess utan fjórir aðrir matsölustaðir.  Á Höfn er grunnskóli og tveir leikskólar. Framhaldsskóli er á Höfn, Héraðsbókasafn og nýsköpunarmiðstöð, leikfélag þar sem Guðjón Sigvaldason er vinsæll leikstjóri. Þokkalegur innanlandsflugvöllur er í nágrenni Hafnar og þannig mætti lengi telja.Útsýni frá Höfn er viðbrugðið.  Stórbrotinn Vatnajökull blasir við, gnæfir yfir með útjöklum sínum Hoffellsjökli, Fláajökli, Heinabergsjökli og Skálafellsjökli.  Í austri Vestra-Horn (sem sumir kalla Eystra Horn) óopinbert einkennismerki  Hafnar (tilheyrir Lóninu), í vestri fjörðurinn yfirleitt spegilssléttur.    Það er svo sannarlega þess virði að aka niður á Höfn, fara t.d. upp að Hafnarkirkju  og njóta útsýnisins. HeimildurÞorsteinn Jóspsson, Steindór Steindórsson (1981) Landið þitt Ísland Örn og Örlygur Reykjavíkhttp://www.rikivatnajokuls.is/

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband