Perla í annars misjafnri borg!
3.7.2010 | 11:42
Ég sé að Jónas Kristjánsson hefur verið að borða hjá Brynjari Eymundssyni í Höfninni í Reykjavík sem er nýtt veitingahús í vísi að nýju hugsanlega frábæru bryggjuhverfi í Reykjavík. Upp fyrir mér rifjaðist að ég var þar fyrir skömmu og reit um komu mína í Eystra-Horn en Brynjar er Hornfirðingur með stórum staf. Hér kemur pistillinn:
Nokkuð er umliðið en bragðið af Halableikjunni geymist enn í mínum fína heilaberki þó hún sé löngu farin af tungunni þar sem hún bráðnaði í sólskininu við smábátahöfnina í Reykjavík við eikarborð á annarri hæð í gömlum beitningaskúr sem nú geymir fallegan og stílhreinan matsölustað hjónanna snillingsins og Hornfirðingsins Brynjars Eymundssonar og konu hans Elsu Guðmundsdóttur. Ég er kominn þarna til að borða með spúsu mína Svöfu og son minn Rúnar sem fer strax að svipast um eftir frönskum kartöflum á matseðlinum.
Við höfnina
Þarna við Geirsgötuna í Reykjavík með Slippinn á aðra hönd og þar sem var fiskverkun Jóns Ásbjörnssonar á hina ofan í höfninni sem státar af trillum af öllum sortum og hvalskoðunarskipum, eitt, Andrea heitir það, er meira segja rekið af afkvæmi Unnsteins og Gerðu á Fiskhólnum, Írisi Dóru og manni hennar Hilmari Stefánssyni og annað af syni Sveins á Dýhóli, þarna er að spretta upp lítið en skírt afmarkað veitingahúsahverfi þar sem áður stóðu niðurnýdd langhús, beitningaskúrar sem voru að grotna niður og Brynjar og Elsa eru í hjarta hverfisins, dag og nótt í níu vikur voru þau að gera húsið upp og opna alhliða veitingastað 12 dögum áður en ég og mín fjölskylda mætum og tökum til matar okkar.
(Á borðinu lá myndaalbúm sem í voru myndir af vikunum níu. Fokheldum niðurnýddum skúr án rafmagns, breytt í þennan fallega og notalega stað. Elsa á heiðurinn af hönnuninni; rósótt veggfóður og panell, gamlir munir úr skúrnum, krosssaums veggteppi, gamlar ljósmyndir frá Reykjavík, fallegt leirtau og þægilegir stólar).
Fyrstur innfæddra
Frúin pantar sér ljúffengan fisk, rauðsprettu úr Faxaflóanum. Við skynjum bæði að þetta er alvöru, maturinn er svo fallega framreiddur að við tímum varla að byrja. Brynjar var fyrstur innfæddra úr Austur-Skaftafellssýslu til að nema kokkun og er viðurkenndur meistarakokkur, vann Norðurlandamót í greininni 1985 en eins og sönnum öldungi sæmir er hann aðallega í því að gefa bendingar núna og smakka, á vettvangi er annar Norðurlandameistari, nýr slíkur, ungur Steinn Óskar Sigurðsson, flateyringur, er í landsliðinu, greinilega maður sem veit hvað hann er að gera. Strákurinn pantar fiskibollur sem honum finnast ekkert sérstakar en við föllum alveg fyrir, ekta heimalagaðar mömmufiskibollur, strákurinn vill meira og norðurlandameistarinn snarar fram samloku með skinu og osti og frönskum sem eru mótaðar í stafi og krakkinn lærir að lesa á meðan hann spænir þetta í sig, alsæll.
Tengsl við upprunann
Niðri sé ég mynd af Eymundi heitnum Sigurðssyni hafsögumanni eða lóðs eins og hann var kallaður. Myndralegur, eftirminnilegur maður, pabbi Brynjars. Þarna er líka mynd af föður Elsu sem var bryti (bryti er sá sem er bæði kokkur og þjónn, vissuð þið það?) á Gullfossi áratugum saman, Guðmundur Þórðarson hét hann og líka kokkur á frægum hótelum eins og A-glamaritan d´Anglaterre í Köben sem Íslendingar áttu á ofboðsskeiðinu. Þau Elsa og Brynjar tengja staðinn með þessum hætti við uppruna sinn Hornafjörð og Reykjavík. Ég er þannig alveg viss um það að með Halableikjunni minni hafa verið kartöflur frá Seljavöllum og ísinn á eftir, en við pöntuðum okkur auðvitað eftirrétt, var besti ís í heimi sem sagt frá Brunnhóli í Mýrum. Hann var oná Fáskrúðsfjarðarköku sem var ágæt súkkulaðikaka en strákurinn vildi ekki borða saman köku og ís, fannst það ekkert flott og fékk bara ís. (þarna var líka makríll frá Ómari Franz og önd frá Reyni á Hlíðarbergi). Ég gleymi að spyrja Brynjar hvort hann bjóði ekki uppá lúru sem Lukka lagði honum í munn barni.
Klukkan er að verða tvö og það fer að færast líf í höfnina. Útlendur ferðamannahópur sem þarna hafði verið í borðhaldi er að stíga um borð í fallegan bátinn hennar Dóru og fyrir höndum er sjálfsagt tveggja, þriggja tíma sigling um sundin, þeir eru orðnir þrír aðilarnir sem gera út á þetta þarna, sigla mót Esjunni og reyna að sjá hoppandi hvali. Það er trillukarlafílingur hérna segir Brynjar okkur, flottar týpur svona eins og Jón Sveinsson og þessir kallar voru þegar ég var að alast upp. Þó þetta sé í Reykjavík þá er stemningin ekki svo ólík því sem er víða um land.
Til lukku með staðinn
Brynjar sem rak ásamt Elsu veitingaþjónustuna Veislan í ein 13 ár, Heitt og Kalt í 5 ár, starfaði á Gullna Hananum fyrir þann tíma er kominn í Höfn þó ekki sé hann mjög gamall. Höfnin er í Reykjavík við höfnina en dregur nafn sitt og menningu af höfninni á Höfn þar sem drengurinn ólst upp á sjávarkambinum hjá móður sem kenndi honum, og Óðni ef út í það er farið, listina að elda. Og hann var svo heppinn að finna sér konu sem líka er frá hafinu og saman hafa þau komið sér upp forvitnilegum veitingastað í hjarta gömlu hafnarinnar í Reykjavík.
Til lukku með staðinn Brynjar. Ég ætla að koma aftur.
Budduvænn staður
Staðurinn: Rúmar um 90 manns í sæti. Alhliða veitingastaður samt með greinilega áherslu á fiskrétti, opið frá 11:30 á morgnana til 10 á kvöldin, 11 um helgar. Matur frábær. Þjónusta góð. Verð: Meðlahóf sýndist mér sem sagt budduvænn staður. Heildareinkunn: Þetta gerist ekki betra. Ekta hafnarfílingur líkt og maður sé kominn í Bryggen í Bergen. Þetta litla hverfi gæti orðið perla í annars misjafnri borg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.