Þess vegna þurfa menn eins og Guðmundur Ólafsson að ræða um okurvexti.....

Vek athygli á viðtalinu við Guðmund Ólafsson hagfræðing í Silfri Egils sl. Sunnudag þar sem hann talar um okurvexti, krónuna sem viðskiptahindrun, okur í verslunum, hvernig verslunin hefur aukið álagningu sína, hvernig tollar og umsýslugjöld eru út úr öllu korti, ráðandi stöðu Haga/Baugs og vinnuþrælkun á Íslandi en vinnuvikan hefur lengst úr 44 í 53 klst. Guðmundur Ólafsson er skarpgreindur  og skemmtilelegur.  Viðtalið við hann er hægt að sjá inn á Silfri Egils á www.vísir.is   en jafnframt hefur Friðrik Þór Guðmundsson á sinni bloggsíðu greint viðtalið og ég studdist við þá greiningu hér fyrir ofan.

 

Þorsteinn Pálsson setur fram skemmtilega greiningu í Fréttablaðinu í dag sem byggir m.a. á því að Samfylkingin sé að taka yfir hlutverk Framsóknarflokksins sem miðjuflokkur í íslenskum stjórnmálum.  Það ríkti ekki stjórnfesta hér, skv. útleggingu Þorsteins, fyrr en á dögum Halldórs Ásgrímssonar. Fram að því að hann tekur við Framsókn var Framsókn alltaf á leið til vinstri í hægra samstarfi en á leið til hægri í vinstra samstarfi. Þess vegna varð engin stjórnfesta fyrr en Halldór tók við og með mínum orðum: Hélt til hægri í hægra samstarfi. Það sem henti Halldór hins vegar, og nú er ég enn hættur að vitna í Þorstein, er að Halldór sem utanríkisráðherra hreifst af samstarfi þjóða og samvinnu og vildi taka upp þráðinn þar sem Jón Baldvin missti hann eftir inngönguna í EES og knýja í alvöru dyra hjá Evrópusambandinu, en það hefði hiklaust verið heilladrýgst fyrir þjóðina. 

 

Þetta var hins vegar meira en íhaldsöflin í Framsókn og Sjálfstæðisflokki þoldu og Hornfirðingurinn vinur minn var sendur í útlegð.  Þess vegna þurfa menn eins og Guðmundur Ólafsson að ræða um okurvexti, okurálagningu, fákeppni, gegndarlausa vinnuviku og Guð veit hvað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Kæri Baldur!

Ég vil benda þér á, í fullri vinsemd,  að það gerir Guðmundur einmitt alla föstudagsmorgna á Útvarpi Sögu. Þangað kemur hann galvaskur í þátt hjá undirrituðum. Öll þessi atriði sem þú nefnir hafa verið rædd í þáttum okkar.

Bestu kveðjur! 

Sigurður G. Tómasson, 26.1.2007 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband