Brattur Bjarni Harðarson og vegurinn yfir Kjöl

Bjarni (Harðarson) er brattur, en honum sést ekki fyrir.  Hann er að færa orðræðuna sextíu ár aftur í tímann enda er hann fortíðarfíkill að eigin sögn.  Hugmynd er velt upp um uppbyggðan veg yfir Kjöl, veg sem er byggður með það fyurir augum að þar verði sem mest umferð, flutningabíla, jeppa, fólksbíla allan ársins hring  og eðlilega staldra margir við.  Er það þetta sem við viljum? Hvað viljum við meira af vegum á hálendinu?  Viljum við þá veg yfir Sprengisand einnig? Tengiveg milli þeirra?  Tengiveg niðrí Borgarfjörð? Um þetta og fjöldamargt annað má spyrja og síðast en ekki síst  hvar er áætlunin? Hvar er grundvallarumræðan?  Hugsunin? Pælingin?  Viljum við yfirleitt uppbyggða vegi á hálendinu fyrir þungaumferð eða ekki.  Er til eitthvað sem heitir Öræfakyrrð eða ósnortið eða lítt snortið víðerni?  Ber þá að halda í það? Er það auðlind?

Spurningar annars eðlis vakna líka.  Erum við orðin vegabrjáluð? Er ekki nær að bæta vegina sem þegar eru í byggð? Gera þá öruggari og betri? Er ekki mesta byggðastefnan sú að leggja einmitt vegi í byggð?  Er þessi stytting sem talað er um óveruleg? Er ekki meira vit í að fara með bæjum en að fara þvert yfir hálendið?

Það eru óvart fjöldamargar spurningar sem vakna í þessari umræðu og þetta á ekki að vera nein kappræða þar sem sá sem gasprar hæst, talar lengst er óbilgjarnastur í málflutningi vinnur. Það er ekkert siðaðra manna háttur.  Þess vegna á umræðan ekki að vera undir þeim formerkjum að andmæli við þenna veg eða efasemdir “sé með því vitlausasta sem fram hefur komið í íslenskri umhverfisverndarumræðu” tala um “stam” samgönguráðherra og “raus” morgunblaðsins, “afturhald” og gott ef ekki að ýja að því að afturhaldið í 101, skáld og listamenn vilji bara framfarir hjá sér en vilji halda blessuðu landinu sem þjóðgarði.  Því er haldið að saklausum Sunnlendingum að þetta séu í raun ekki almennilegir Íslendingar sem búi þarna við Faxaflóann , þetta pakk líti á Sunlendinga sem hálfgerða frumbyggja, sem sagt alið er á minnimáttarkennd og sundurlyndi.

Rökin með vegi eru sum ágæt en það er samt varnagli þvers í kokinu á mér. Þetta er umræða sem ég vil taka.  Sú umræða á að vera á almennum nótum því að við þurfum langtíamaplan um það hvað við ætlum að gera við þetta svæði sem takmarkast af fasti byggð allt umhverfis landið.  Ég vil líka vita meira um það hvað Biskupstungnamenn vilja eða mun ekki brautin liggja um þeirra hlöð e.t.v. í gegnum Laugarás og framhjá Geysi í Haukadal? Umræðan má samt ekki hverfast um þenann eina veg eða þetta eina vegsttæði.  Æðibunugangur borgar sig aldrei.

Ég held að við höfum fengið nóg af stjórnmálamönnum sem ryðjast í málin, taka ákvarðanir án umræðu, hugsa upp rök eftirá, sjá aðeins aðra hlið mála.  Þess vegna fagna ég hiki Sturlu Böðvarssonar.  Hann er sennilega eftir allt saman góður stjórnmálamaður.

En Bjarna Harðarsyni til bóta má auðvitað segja:  Hann þarf að láta að sér kveða.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GK

Hraðbraut eða þjóðvegur... er einhver skömm að því að gera fólksbílafæran veg yfir Kjöl. Það er algjör hörmung að keyra norður að Hveravöllum en þegar komið er norðurfyrir tekur við mun betri vegur... Mín vegna þarf ekki tvíbreiðan, uppbyggðan, malbikaðan veg... en það er allt í lagi að maður þurfi ekki að misþyrma skrjóðnum sínum vilji maður skreppa norður í Mælifellsdal...

GK, 8.2.2007 kl. 21:56

2 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Er ekki sitt hvað Autobahn (Hraðbraut á þýska vísu) eða þjóðvegur.  Tek undir með sr. Baldir að við ættum að flýta okkur hægt í því að  hraðbrautarvæðs Kjöl, enda er hann í 700 metar hæð yfir sjávarmáli og örugglga stórhættuleg leið á vályndum veðrum.

kallimatt

Karl V. Matthíasson, 10.2.2007 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband