Framsóknartilraun til sjálfsmorðs...af Framboðsflokki og fleiru.
9.2.2007 | 13:46
Aðdragandi komandi þingkosninga minnir um margt á aðdraganda kosninganna vorið 1971, blikur á lofti. Ríkisstjórn hefur starfað í 12 ár, hvort tveggja hægri stjórnir. Stjórnarandstaðan á köflum kröftug og kjöftug: Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósepsson standa þar uppi í minninguunni frá síðari hluta tímabilsins. Einar Olgeirsson frá fyrri hlutanum. Steingrínur J. minnir svolítið á þá í dag en Ingibjörg Sólrún hefur annan stíl. Nú, 1971 buðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna fram og það varð til þess að fella stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Samtökin gamlir þjóðvarnarmenn og klofningur úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Framsókn (Möðruvallahreyfingin), fengu fimm menn kjörna á þing og Viðreisnarstjórninn féll. Þetta var hátíðarstund í huga okkar sem höfðum alist upp við þá rhetórik stjórnarandstöðunnar að allt væri alslæmt sem kæmi frá þessari ríkisstjórn.
En lausungin sem varð á fylginu var einkum Framboðsflokknum að þakka, en þá, ennþá frekar en nú, voru kjósendur sauðir sem gengu flestir á garðann sinn. Hópur háskólastúdenta aðallega úr Félagsfræðideild ákvað að bjóða fram grínlista ekki síst í þeim tilgangi að kanna hvort að lýðræðið væri virkt, hvort það væri í raun svo að hver sem er gæti boðið fram. Það reyndist svo og svo vildi til að þeir sem stóðu að framboðinu voru miklir húmoristar og nýstárlegar og oft bráfyndnar uppákomur og ræður drógu þjóðina sem var orðin hundleið á pólitík að sjónvarpskössunum og auðvitað beindist grínið fyrst og fremst að þeim sem höfðu verið við- völd, það var óhjákvæmilegt.
Nú, eins og þá, er ríkisstjórn búin að sitja í tólf ár. Nú, eins og þá er litli flokkurinn að hverfa. (Ég hef oft bent á það að Framsóknarflokkurinn hafi gert tilraun til sjálfsmorðs með því að svissa ekki yfir fyrir fjórum árum því að hlutverk hans í flokkaflórunni hefur verið það að gæta þess að hægri og vinstri stjórnir skiptust á og þar með næðist ákveðið jafnvægi í samfélaginu). Nú eins og þá er uppi krafa um að langsveltir hópar komist að stjórntækjunum. Nú eins og þá eru líkur á nýjum framboðum. Nú eins og þá er búist við því að nýju framboðin dragi fyrst og fremst fylgi frá stjórnarandstöðunni. Samtökin hafa örugglega gert það 1971 þó þau hafi einnig dregið frá Alþýðuflokknum.
En það sem er öðruvísi og kynni að verða til þess að stjórnin haldi velli að nú er ekkert ungt og skemmtilegt fólk sem dregur fólk að skjánum. Hugsanlega verður komin pólitísk þreyta í mannskapinn upp úr Páskum og það hefur alltaf verið gott fyrir valdhafa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.