Feiti eftirlitsmaðurinn heldur til Versala

Ég átti dag auka og tók lestina til Versala.  Aldrei haft mig í það fyrr.  Hallir, hallir sýndarmennsku og stórbokkaskaps heimsks konungs. Sólkonungurinn var í mannkynssögunni minni varla heill á geði, flottræfill sem taldi ekki skipta máli hvað yrði eftir sinn dag, byggði glæsihallir og víðlenda garða, sóaði fé heimsveldisins, heimskur, spilltur, flottræfill sem meig á bak við gluggatjöld.

Ég sá ekki eftir þessum degi og fékk aðra mynd af Lúðvík 14. Versalir eru arkitónískt stórvirki. Það konstrukterar enginn kjáni svona stórvirki.  Með þessum byggingum gerði hann Frakkland og París að miðpunkti Evrópu. Þjóðhöfðingjar komu hvaðanæfa til að sjá og til að beygja sig og bukta. Að baki þessu hefur legið mikil pæling og honum hefur tekist að laða að hirðinni marga af færustu byggingarlistamönnum þess tíma.Hallirnar eru kapituli útaf fyrir sig. Þar má bæði sjá kónga og prinsessuheimili þess tíma og þúsundir listaverka sem auðvitað hafa safnast upp í tímans rás.Raunar var aðalhöllin rýmd í miðjum mínum skoðanaklíðum, við hundruðum saman rekin út í gegnum neyðarútganga, fólkið hálfhrætt.  Öryggisrýming sögðu verðirnir við feitar konur sem reiddust, búnar að standa í klukkutíma biðröð til að komast inn (þetta er í þriðja sinn sem ég lendi í öryggisrýmingu. Einu sinni vorum við félagarnir reknir út á náttfötunum um bakdyr á hóteli í Manchester og skulfum úti í hálfan annan tíma-sprengjuhótun.  Nokkrum árum seinna var Oxforstræti rýmt eins og það lagði sig, búðir og allt –sprengjuhótun).

Ég féll þó fyrst og fremst fyrir görðunum, endalausir garðar  og hallir.  Allt liggur í skipulögðu mynstri út frá krosslaga vatni.  Ég gekk í kringum vatnskrossinn. Það eru sex kílómertrar eftir fallegum trjástígum. Mörg hundruð ára gömul trén orðin býsna há. Sunnudagur fólk gekk, hljóp og hjólaði hringinn.  Trimmararnir voru margir. Ég gekk réttsælis, flestir gengu rangsælis og því mætti ég mörgum. Sól skein í heiði.  Flugvél sveimaði yfir.

Þetta var úrvals ráðstöfun á sunnudegi.  Næst ætla ég að hafa hlaupaskóna með. Satt að segja skar ég mig úr fjöldanum, ekki vegna glæsileika heldur vegna þess hve ég var kjánalega búinn. Ég leit út eins og feiti eftirlitsmaðurinn í Tomma togvagni sem hann Davíð Þór les inn á og ég hef þurft að hlusta á með börnunum í næstum þrjú ár. Ég var í támjóum skóm undir svörtum ullarfrakka í blárri skyrtu og með rautt bindi, sköllóttur með sællegt andlit. Menn horfðu líka á mig. Hvað er feiti eftirlitsmaðurinn að gera hér í dag hefur fólkið hugsað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband