Ingvar Ásmundsson

Ótrúlegt kennaralið við Menntaskólann á Laugarvatni upp úr miðjum sjöunda áratugnum. Ég kom þangað haustið 1966 og kennarar sem koma upp í hugann eru  Ólafur Briem, Haraldur Matthíasson, Þór Vigfússon, skólameistarinn sjálfur Jóhann S. Hannesson, Winston S. Hannesson, Þórir Ólafsson og Ingvar Ásmundsson sem kenndi stærðfræði. Þetta var einvalalið og furðulegt að ekki skyldi rætast betur úr manni en raunin varð.  Allir eru þessir menn minnisstæðir ekki síst Ingvar Ásmundsson sem ég sé í Morgunblaðinu að er jarðsettur í dag.  Hann mun hafa verið um 32ja ára gamall þegar hann kenndi okkur (því miður aðeins þennan eina vetur) og ég sé hann fyrir mér kvikan og snaran við töfluna sem hann fyllti tölum með undraskjótum hætti, leitandi að villunni með öllum líkamanum, þjótandi til og frá, undraskjótur að reikna, rökvís, krefjandi, beinskeittur í tilsvörum, fyndinn, maður var aldrei hræddur en bar fyrir honum óttablandna lotningu.  Við höfðum líka heyrt að hann væri skákmeistari og séð nafnið hans í blöðum og vorum stolt af að hafa slíkan afburðamann sem kennara.

Ekki urðu samskipti okkar meiri né merkilegri utan tveggja eða þriggja stuttra samtala á áttunda áratugnum. Ingvar var hins vegar alltaf minn maður væri hann að tefla einhvers staðar enda einn af þeim kennurum sem ruddi sér svæði í heila óharðnaðs unglings sem varð reyndar aldrei góður í stærðfræði en þykist sæmilegur í því að lesa fólk.  Og Ingvar stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þó hann kenndi mér aðeins í einn vetur. Og verður ekkert tekinn þaðan út úr þessu.

Þó seint sé: Takk fyrir veturinn 1966-1967.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband