Um Frjálslynda- Jóni Magnússyni svarað!

Ekkert öðruvísi, en ég er búinn að fá heilan stjórnmálaflokk inn á gafl til mín, Frjálslynda flokkinn af því að ég ýjaði að því að við Íslendingar værum að eignast það lítt eftirsóknarverða fyrirbæri racistaflokk.  Ég ætla að sýna varaformanni flokksins Magnúsi Þór Hafsteinssyni þá tillitssemi að erfa ekki ekki við hann fúkyrðin og ekki nenni ég að svara þeim öðrum heldur sem nota það ódýra trix að klæmast á því að ég sé prestur nema einni manneskju get ég bent á að það er algjört lágmark að kunna að beygja orðið Guð áður en maður fer út í slíkt.  Hins vegar svarar Jón Magnússon mér af viti og tel ég rétt og sanngjarnt og eiginlega skemmtilegt að rökræða svolítið við hann.

Þegar ég ýja að racisma í sambandi við Frjálslynda flokkinn þá hef ég það auðvitað í huga að orðfærið sem forystumenn hans nota er mjög áþekkt því sem er hjá flokkum sem hafa fengið þennan stimpil út í Evrópu. Þessir flokkar eiga það sameiginlegt að bera racistastimpilinn af sér en þeir gera allir með einum eða öðrum hætti út á ótta manna við innflytjendur, aðkomufólk og minnihlutahópa.  Þetta fólk komi í allt of miklu magni er viðkvæðið, við ráðum ekki við allan þennan innflutning vinnuafls er sagt, þetta fólk lækkar launin, þetta fólk tekur vinnuna frá þeim sem fyrir eru, þetta fólk flytur með sér sjúkdóma (berkla!?), frá þessum löndum komi eintómir glæpamenn, þetta fólk nennir ekki að vinna en sest upp á velferðarþjónustuna, þetta fólk fyllir fangelsin, þetta fólk spillir menningu okkar, þetta fólk ógnar þjóðfélagsgerð okkar, landið okkar á að vera fyrir okkur (Ísland fyrir Íslendinga), þetta fólk vill ekki læra málið, þetta fólk heldur bara hópinn, fjölmenningarsamfélagið gengur ekki, sjáiði bara Frakkland allt logandi í óeirðum, vandamálin í Noregi eru ógnvekjandi –þetta eru svona helstu klisjurnar. Yfirleitt er þetta sett fram af mikilli umhyggju fyrir öllum.  Leiðarstefið er eiginlega: Það fer best á því að allir aðrir en við séu heima hjá sér.

 

Ég held að þeir Frjálslyndu menn ættu að íhuga af hverju málflutningur þeirra vekur svo sterk viðbrögð hjá mörgu hógværu og geðgóðu fólki sem alla jafna skiptir sér ekki mikið af pólitík. Það er vegna þess að þeir fordómafullu racísku undirtónar sem eru í ofangreindu má svo auðveldlega skynja í málflutningi flokksins.  Hvað sem Jón Magnússon segir þá er ákveðin ógn í öllum málflutningnum.  Lítum á auglýsinguna. Í stóra letrinu er tónninn sleginn: Vandmál – óheftur innflutningur –kaupið lækkar –velferðarkerfið brestur (þrátt fyrir það að hlutfallslega ftrri innflytjendur eru atvinnulausir en kynbornirÍslendingar, færri  eru gamlir, færri eru fatlaðir, færri eru veikir (þessi auglýsing er tóm vitleysa))–við náum ekki að kenna þeim íslensku er síðasti tónninn!!!!  Auglýsing er xenófóbísk svo notað sé orð sem Jón Magnússon kom upp með, elur á útlendingahræðslu.

 

Nú biður Jón Magnússon mig um dæmi um racisma í sínum skrifum.  Nú hef ég ekki skrif Jóns Magnússonar við hendina en oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég heyrt þig Jón nota orðin Ísland fyrir Íslendinga og aðrir talsmenn flokksins hafa talað í sömu veru.  Hvað er átt við: Ísland fyrir kynborna Íslendinga?  Þannig er það skilið a.m.k..  Þetta er besta falli mjög aðgreinandi orðalag. Það er nefnilega ekki svo að menn séu annaðhvort Íslendingar eða ekki Íslendingar.  Menn verða Íslendingar með því að búa hér og vera hér, smám saman. Þeir sem koma bara til að vinna í nokkra mánuði þeir fara til baka með smá Kárahnjúka í brjóstinu, þeir sem dvelja hér í nokkur ár fara með Ísland hvert sem þeir fara og með hverjum deginum verður þú meiri og meiri Íslendingur og réttindin fara meira að segja að hlaðast inn.  Og þegar þú talar um menningu þá finnst mér þú alltaf tala þannig eins og menning sé eitthvað fast fyrirbrigði sem ekki megi breyta –auðvitað breytist menning og á að breytast með nýju fólki hvort sem það kemur út úr vömbinni á gamalgróinni íslenskri konu eða út úr flugvél frá Kambodíu.  Og þú hefur talað um það- ekki satt – að við höfum ekkert að gera með Islamstúarmenn hér.  Samkvæmt skilgreiningum Evrópuráðsins og Evrópusambandsins er það racismi að aðgreina réttindi fólks með nokkrum hætti eftir kynþætti, litarhætti eða trúarbrögðum.  Ef  ég numið þetta rétt þá hefur þú að minnsta kosti stigið á línuna þarna.

Þú ræðir um það hvað ég sé hámenntaður og ég vil með sama hætti segja við þig: Ég veit um ágætar gáfur þínar og þú gætir þess sjálfsagt vel að vera réttu megin línunnar svona formlega séð. Það er bara engin lína þarna. Orðræða á borð við þessa þó hún fari ekki yfir neina ímyndaða línu á það til að auka fordóma og þar með illvilja í einu samfélagi, bitnar á fólki sem er að reyna að fóta sig á nýrri grundu, fullorðnum, börnum, fólki af holdi og blóði.  

Samkvæmt auglýsingunni frægu er 9% af þeim sem eru á vinnumarkaði á Íslandi erlendir ríkisborgarar á móti 2% í Finnlandi, 4% í Danmörku, 5% í svíþjóð og 4,5% i Noregi.  Þessum upplýsingum er greinilega ætlað að skapa þá hugmynd að hér sé allt að fyllast miðað við önnur lönd. (9% talan lækkar nú hratt)  Þessar tölur segja hins vegar ekkert um það. Í öllum  þessum löndum eiga hlutfallslega fleirri uppruna sinn annarsstaðar en í landinu en gerist á Íslandi - þeir eru bara orðnir ríkisborgarar. Þessi lönd(e.t.v. að Finnlandi undanskildu) hafa innanborðs fleira fólk en við sem hefur flutt að.(og þá undanskil ég þá sem eru hér mjög tímabundið til vinnu)  Íslensk þjóð er ennþá tiltölulega einsleit.  Við þurfum auðvitað að ná svipuðu hlutfalli og nágrannar okkar til þess að Ísland verði ekki eins og einhver einangrunarstöð og við heimskir heimalingar þegar við förum út í heim.  Innflytjendur hafa hingað til auðgað íslenskt samfélag bæði þeir sem koma hingað til að vinna og þeir sem koma til að vinna og setjast að.  Þeir hafa bæði aukið hér hagvöxt og auðgað menningu okkar.

Mér er sagt að 32 þúsund Íslendingar búi nú erlendis og hérlendis eru um 25 þúsund manns sem eru ekki íslenskir ríkisborgarar og þetta er svona um alla Evrópu.  Nú fara fleirri Þjóðverjar utan til vinnu heldur en þeir sem koma til Þýskaland til vinnu.  Alls staðar mætist fólk ólíkan bakgrunn, alls staðar er skortur á tungumálakennslu, alls staðar er eitthvað misrétti í gangi, fólk verður fyrir áreitni út af uppruna sínum en alls staðar er fólk að auðga hvort annað og alls staðar er gott fólk að gera góða hluti og víðast hvar um Evrópu reyna stjórnmálamenn að stýra hlutum til góðs og flestir passa sig á að láta ekki vaða á súðum.

Við sem erum svo heppin að búa í Evrópu  lifum á gullöld opinna landamæra þar sem fólk getur án hindrana leitað nýrra heimkynna.  Það er deigla í gangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Presturinn hneykslast á því að einhver Guðrún hafi skjöplast á að beyja orðið guð, sem komið er af orðinu goð. Ef hinn geistlegi gáfumaður vill slá um sig með því að leiðrétta aðra og nota erlendar slettur eins og "racismi" væri að minnsta kosti illskárra að skrifa það rasismi, en prestinum til glöggvunar eru nokkur íslensk orð sem ná yfir þetta hugtak t.d. kynþáttahyggja og jafnvel kynþáttahatur. 

Sigurður Þórðarson, 2.4.2007 kl. 16:23

2 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Þetta er nú akkúrat það sem maður hefur verið að reyna að fanga. Framsetningin hjá Frjálslyndum er hörð og sleggjudómaleg. Þó ekki væri annað um að ræða (sem er þó í raun) en framsetninguna þá er hún til þess fallandi að vekja andúð og fordóma.

Ragnar Bjarnason, 2.4.2007 kl. 16:25

3 Smámynd: Pétur Björgvin

Þakka þér Baldur fyrir skrif þín, það er þarft að fram komi sterkar raddir sem mótmæla framsetningunni sem hluti svokallaðs frjálslynds flokks velur að viðhafa í orðræðunni um málefni aðfluttra á Íslandi. Bendi á að haft er eftir Magnúsi Þór Hafsteinssyni, varaformanni þessa flokks, á forsíðu Fréttablaðsins í dag að flokkurinn sé að ,,benda á staðreyndir í þessari auglýsingu." Hér þykir mér frjálslega farið með staðreyndir.

Pétur Björgvin, 2.4.2007 kl. 16:32

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það var vonum seinna að djákninn kæmi klerkinum til aðstoðar. 

Framsóknarmönnum er vorkunn þeir horfa vonaraugum á þetta mál og raunar öll önnur mál ef vera kynni að þau beindu sjónum manna frá spillingu Framsóknarflokksins, þó ekki væri nema um stundarsakir.  

Sigurður Þórðarson, 2.4.2007 kl. 17:23

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Baldur. Ég ætla að fylgjast með því hérna, hve vel þér takist að sanna, að Frjálslyndi flokkurinn eða leiðtogar hans séu racistar. Orðin "Ísland fyrir Íslendinga" virðistu taka sem racísk, bætir raunar við: "Þetta er besta falli mjög aðgreinandi orðalag." En er ekki Danmörk fyrir Dani, Ítalía fyrir Ítali? Hvað er svona racískt við það? Annars, rétt til að minna þig á, notaði Jón Magnússon þessi orð í fyrirsögn sinnar frægu Blaðs-greinar með spurningarmerki á eftir.

Svo segirðu við JM: "Og þú hefur talað um það- ekki satt – að við höfum ekkert að gera með Islamstúarmenn hér. Samkvæmt skilgreiningum Evrópuráðsins og Evrópusambandsins er það racismi að aðgreina réttindi fólks með nokkrum hætti eftir kynþætti, litarhætti eða trúarbrögðum. Ef ég numið þetta rétt þá hefur þú að minnsta kosti stigið á línuna þarna." Ég minnist þess ekki, að Jón Magnússon hafi sagt þau orð, sem þú setur þarna í 1. setningu, það er allt annað sem hann hefur sagt. Þú verður nú að byrja á því að vinna heimavinnuna þína, áður en þú ferð að deila við hann -- og deila á hann. Það hlýtur að vera áhorfsmál fyrir okkur kristna menn að deila á náungann, ef við gerum það ekki með rökum. Og hvað sem um ESB og Evrópuráðið er að segja, þá geta þau ekki ætlazt til þess, að Evrópa og Ísland með verði hálfmúslimsk á svo sem 60-80 árum. -- Læt þetta nægja í bili.

Jón Valur Jensson, 2.4.2007 kl. 20:41

6 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Baldur.

Já, skotleyfið er víst víða. Ég vil bara segja það að þetta er vel svarað. Mér finnst þetta skítkast frá MÞH. varaformanni vera skömm... Takk fyrir að svara vel fyrir hönd þeirra sem t.d. eiga útlenda ættingja eins og t.d. ég!

Sveinn Hjörtur , 2.4.2007 kl. 21:04

7 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Fyrirgefðu Baldur að ég ýtti ekki nógu fast á S ið þannig að þú heldur að ég kunni ekki að beygja orðið Guð. Langar í framhaldi af því að benda þér á eftirfarandi úr þínum skrifum

(þrátt fyrir það að hlutfallslega ftrri innflytjendur eru atvinnulausir en

Ef ég numið þetta

Alls staðar mætist fólk ólíkan bakgrunn,

Þeir kasta ekki grjóti sem að búa í glerhúsum? eða er það?

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 2.4.2007 kl. 21:12

8 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Fyrirgefðu Guðrún Þóra þetta var ekki fallegt af mér, en mér leiðist óskaplega þegar fullorðið fólk byrjar einhverjar presta- eða guðstilvísanir af því að það heldur að það sé fyndið..Kv.

Baldur Kristjánsson, 2.4.2007 kl. 21:19

9 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Ekki vissi ég að þú værir Framsóknarmaður. Þá skil ég skrif þín, gangi þér bara vel vinurinn. PS, ég hélt að síðasti framsóknarmaðurinn hefði verið stoppaður upp og væri á safni.

Georg Eiður Arnarson, 2.4.2007 kl. 22:08

10 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Georg Eiður .  þetta er ekki kurteisislegt innlegg eða vitrænt.  Þú getur örugglega betur!

Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 08:30

11 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

 Ég get ekki heldur séð annað en margumrædd auglýsing Frjálslynda flokksins sé hræðsluáróður.

Með stórum stöfum er málaðar útlínur hræðilegrar framtíðar sýnar. Svo er fyllt betur inn í sýnina með myndum um lakari kjör verkafólks, hættunni við ofálag á velferðarkerfið, og gefið sterklega til kynna að þessi ógn sé af völdum innflytjenda. Þegar skuldsettu verkafólki er sýnd þessi mynd þá finnst þeim stafa að sér ógn, og ekkert er mannlega eðlilegra en að finna til reiði í garð þeirra sem manni finnst ógna sér.

Að skapa óvild í garð innflytjenda er ekki árangursrík leið til að leysa vandamál sem koma upp í samskiptum fólks af ólíkum uppruna, því óvild elur af sér óvild og reitt fólk vill frekar hefndir en lausnir.

Jón Þór Ólafsson, 3.4.2007 kl. 17:22

12 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

"Þegar ég ýja að racisma í sambandi við Frjálslynda flokkinn", skrifar klerkur í gær. "Við erum að eignast racistaflokk" skrifar presturinn daginn áður sjálfsagt fullur af umburðarlyndi og náungakærlega. Að minnsta kosti svo haldinn slíkum kenndum að hann telur sig sjálfkrafa getað stimplað þúsundir samborgara sinna (sem greiða honum laun fyrir dagsverkin) sem kynþáttahatara - fólk sem gangi um með mannvonsku, hatur og þar af lægri kenndir í brjósti gegn öðru fólki. Klerkur ætti að vita að þó nokkrir nýbúar hér á landi skipa framboðslista Frjálslynda flokksins. En ekki vænti ég þess að prestur svari mér enda á ég fátt órætt við slíka kirkjunnar menn sem dæma meðborgara sína sleggjudómum með þessum hætti. Segi bara að ég vona að ég þurfi aldrei að álpast inn í messu hjá þessum manni.

Magnús Þór Hafsteinsson, 3.4.2007 kl. 18:08

13 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þú ert nú eitthvað að jafna þig, málefnalegri en í gær, en ennþá skín í reiði og mannfyrirlitningu sem er ekki samboðin manni í þinni stöðu.  Þú ert auðvitað reiður yfir þeim mistökum sem þessi auglýsing var.

Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 18:16

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hver eru stærstu mistökin þar, Baldur, nr. 1, 2, 3? Þessu hlýturðu að geta svarað, þótt skemmtilegra sé að skrifa um Framsóknarmenn.

Jón Valur Jensson, 3.4.2007 kl. 19:56

15 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Uppsetningin og andblærinn Jón Valur en verð að svara þér betur síðar.  Kv.

Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 20:00

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Uppsetningin? Andblærinn?! Hefurðu ekkert fastara í hendi en þetta?

Jón Valur Jensson, 3.4.2007 kl. 20:38

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo vantar nr. 3! -- en Baldur varð að skreppa frá!

Jón Valur Jensson, 3.4.2007 kl. 20:40

18 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Innihaldið er það þriðja, nægir þetta Jón Valur, það þriðja er innihaldið.  Ánægður:  Uppsetningin, andblærinn, innihaldið!! Allt er þá þrennt er. Kv.

Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 21:45

19 identicon

Sæll, síra Baldur og aðrir skrifarar !

Má til, þrátt fyrir einurðarleysi þitt og ókurteisi, að svara ei fyrri spurningum mínum; til þín.

Það er, í hæsta máta furðulegt, að prestur; hver þjónar þjóðkirkju okkar, skuli líta, sbr. orð þín til Jóns Magnússonar, hér að ofan;; á það, sem einhvern sjálfsagðan hlut, að Múhameðskir gangi hér inn og út, bara vegna einhverrra tilmæla frá Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, þar um. Eigum við, Íslendingar; eitthvað sérstaklega að hlíta boðum og bönnum, frá gamla nýlenduvelda kjarnanum; suður í Evrópu ?

Hafa ekki hinir vísustu menn, árhundruðum saman varað við þeirri ógn, sem íbúum þessa heims stafar, af þessarri óhugnaðar kenningu, frá Mekka ? Tek fram, að þeir fylgjarar Múhameðs þessa, hverjir nú eru búsettir hérlendis megi, í friði fara og vera. 

Hélt, síra Baldur, að þú værir upplýstari en svo; megintilgangur trúarbragðanna; frá Mekka og nærsveitum er allsherjar heimsyfirráð. Til nánari glöggvunar bendi ég á ágæta spjall(blogg)síðu Skúla Skúlasonar, hér á Mbl. vefnum. Minni einnig á Nýala Dr. Helga Pjeturss (1872 - 1949).Virðist, sem allmargir Íslendinga eigi mikið ólært, um þessi skelfilegustu trúarbrögð mannkynssögunnar, hver fram hafa komið, til þessa dags. Það hlýtur að verða, á komandi árum og áratugum meginmarkmið allra jarðarbúa, Hindúa jafnt sem Kristinna - Japana jafnt sem Kongó manna, að reyna að stemma þetta ágæta fólk, hvert fylgir títtnefndri trú, frá Arabíuskaganum; af, og, sé þess nokkur kostur, að kenna því, að byggja upp, ekki tortíma öllu, hlutlægt sem huglægt; í umhverfi sínu. Takist það, ja þá er til nokkurs unnið.  

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason      

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 00:16

20 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Fyrirgefði Óskar, ég hef óvart týnt þessum spurningum þínum og ætlaði ekki að vanvirða þig á nokkurn handa máta þó að ég sé ekki oft sammála þér. Sendu mér þetta aftur ef þú sérð þetta. kv.

Baldur Kristjánsson, 4.4.2007 kl. 09:14

21 identicon

Sæll, síra Baldur og aðrir skrifarar !

Þakka þér viðbrögin. Sendi þér punkta, varðandi grein þína; ''Við ættum að sameinast undir merkjum páfans í Róm'', frá 20. II. s.l. Virðast hafa dottið út, af einhverjum Mbl. tækniástæðum, óefað óviljandi.

Spurningar mínar voru á þessa leið :

I. Veistu nokkuð til til þess, að einhverjar viðræður séu í gangi, milli Benedikts XVI. páfa og Bartholomeusar I. patríarka, í Konstantínópel ?

II. Eru líkindi til, að kirkjudeildirnar, flestar nái samkomulagi um samruna, þ.m.t. sýrlenzka kirkjan og sú koptíska (Egyptaland/ Eþíópía) ?

Þetta voru meginatriðin, að mig minnir.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 12:09

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er ekkert í innihaldinu, sem þú tiltekur sérstaklega. Þarf ég að birta hér fullt af setningum í innihaldinu, sem allir með heilbrigða skynsemi geta tekið undir? Er ekki sanngjarnara -- af því að það ert þú, sem reiðir hér hátt til höggs -- að þú sjálfur birtir svo sem tvær til þrjár óalandi og óferjandi setningar í þessari auglýsingu? Ég held, satt að segja, að þú getir það ekki. Kann þá svo að vera, að þú sért hér bara í kosningabaráttu? Og PS: Hvað viltu annars um það segja, að þinn ágæti kollega sr. Önundur Björnsson býður sig fram fyrir Frjálslynda flokkinn? Líturðu á hann líka sem racista?

Jón Valur Jensson, 4.4.2007 kl. 17:15

23 Smámynd: Kolgrima

Þakka þér fyrir þitt innlegg, séra Baldur. Þessi auglýsing var til skammar fyrir íslenska þjóð.

Kolgrima, 5.4.2007 kl. 20:30

24 identicon

Til upplýsingar Baldur þá hef ég talað um "Syni Allah" og "Bræðralag Múhammeðs" Ég hef sagt að ég vilji ekki fá fólk úr þeim hópi til landins. Oriana Fallaci sá merki vinstri sinnaði blaðamaður notar þetta orðfæri "synir Allah" yfir þá sem neita að aðlaga sig lögum og siðum þeirra Vestur Evrópu landa sem þeir búa í og telja sig ekki bundna af öðru en Sharía lögum. Bræðralag Múhammeðs er tilvísun í félagsskap öfgafullra Íslamista sem þú hlítur að þekkja deili á. Þeir stóðu m.a fyrir morðinu á Anwar Sadat og morðárásum á vestræna ferðamenn í Egyptalandi. Ég er ekki að gera lítið úr Íslam sem trúarbrögðum þó ég vilji ekki fá framangreinda hópa  til landsins. Að tala um það að sá sem er á móti svona öfgahópum fari yfir einhverja línu er rangt.  Það er svipað og halda því fram að þeir sem eru á móti nasistum séu að ráðast á þýsku þjóðina.

Við kristið fólk höfum rétt til að halda fram okkar gildum og þeim mannréttindum sem við höfum komið upp í okkar þjóðfélögum. Baldur mér finnst ekki eðlilegt að þjónandi prestur þjóðkirkjunnar skuli telja sig knúinn til að snúast til varnar fyrir þá sem vilja brjóta niður siði, trú og mannréttindi kristinna þjóða.  Þú ættir frekar að standa með okkur sem viljum öfgalausa umræðu um málefni sem á virkilega erindi í þjóðfélagsumræðuna. Hugsaðu þér að það hafa haft samband við mig fjölmargir útlendingar sem lýsa ánægju með umræðuna sem við Frjálslynd höfum staðið fyrir. Þetta fólk sér m.a. áherslur í nefndri auglýsingu varðandi rétt útlendinga og áherslur okkar á að kenna þeim sem hingað koma og hér vilja búa íslensku og grundvallaratriði um íslenska þjóðfélagið. Að setja fram stefnumörkun um að skattgreiðendur skuli stand undir 500 tímum í íslensku fyrir útlendinga og 300 tíma í kennslu um íslenska þjóðfélagið eins og við Frjásllynd viljum ber með sér umhyggju fyrir fólki sem er hingað komið og við viljum aðlaga íslensku þjóðfélagi. Gera það að íslendingum. Á þessu hefðir þú getað fengið fullnægjandi skýringar á fundinum okkar um daginn og mér fannst miður að þú skyldir ekki koma. Að lokum ágæti Baldur. Ég er tilbúinn til að setjast með þér og ræða við þig um þessi mál því mér finnst þú ekki hafa verið alveg á réttri leið. Nefndu stund og stað.

Gleðilega upprisuhátíð.

Jón Magnússon (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 22:33

25 Smámynd: Jón Magnússon

Til upplýsingar Baldur þá hef ég talað um "Syni Allah" og "Bræðralag Múhammeðs" Ég hef sagt að ég vilji ekki fá fólk úr þeim hópi til landins. Oriana Fallaci sá merki vinstri sinnaði blaðamaður notar þetta orðfæri "synir Allah" yfir þá sem neita að aðlaga sig lögum og siðum þeirra Vestur Evrópu landa sem þeir búa í og telja sig ekki bundna af öðru en Sharía lögum. Bræðralag Múhammeðs er tilvísun í félagsskap öfgafullra Íslamista sem þú hlítur að þekkja deili á. Þeir stóðu m.a fyrir morðinu á Anwar Sadat og morðárásum á vestræna ferðamenn í Egyptalandi. Ég er ekki að gera lítið úr Íslam sem trúarbrögðum þó ég vilji ekki fá framangreinda hópa  til landsins. Að tala um það að sá sem er á móti svona öfgahópum fari yfir einhverja línu er rangt.  Það er svipað og halda því fram að þeir sem eru á móti nasistum séu að ráðast á þýsku þjóðina.

Við kristið fólk höfum rétt til að halda fram okkar gildum og þeim mannréttindum sem við höfum komið upp í okkar þjóðfélögum. Baldur mér finnst ekki eðlilegt að þjónandi prestur þjóðkirkjunnar skuli telja sig knúinn til að snúast til varnar fyrir þá sem vilja brjóta niður siði, trú og mannréttindi kristinna þjóða.  Þú ættir frekar að standa með okkur sem viljum öfgalausa umræðu um málefni sem á virkilega erindi í þjóðfélagsumræðuna. Hugsaðu þér að það hafa haft samband við mig fjölmargir útlendingar sem lýsa ánægju með umræðuna sem við Frjálslynd höfum staðið fyrir. Þetta fólk sér m.a. áherslur í nefndri auglýsingu varðandi rétt útlendinga og áherslur okkar á að kenna þeim sem hingað koma og hér vilja búa íslensku og grundvallaratriði um íslenska þjóðfélagið. Að setja fram stefnumörkun um að skattgreiðendur skuli stand undir 500 tímum í íslensku fyrir útlendinga og 300 tíma í kennslu um íslenska þjóðfélagið eins og við Frjásllynd viljum ber með sér umhyggju fyrir fólki sem er hingað komið og við viljum aðlaga íslensku þjóðfélagi. Gera það að íslendingum. Á þessu hefðir þú getað fengið fullnægjandi skýringar á fundinum okkar um daginn og mér fannst miður að þú skyldir ekki koma. Að lokum ágæti Baldur. Ég er tilbúinn til að setjast með þér og ræða við þig um þessi mál því mér finnst þú ekki hafa verið alveg á réttri leið. Nefndu stund og stað.

Gleðilega upprisuhátíð.

Jón Magnússon, 5.4.2007 kl. 22:34

26 Smámynd: Sjóveikur

Það er frekar sorglegt að maður sem þú, sem kerfið hefur eytt fullt af peningum til menntunar á og ég efast ekki um að þú hefur staðið þig vel á pappírsveiðum þeim sem þú hefur notað þitt líf í, en samt er sem eitthvað hafi farið á ranga hillu í höfðinu á þér.

ég vil byrja með athugasemd við þetta kjaftæði þitt um guð ! Hvaða guð ertu að tala um ? þú ert frekar fátækur í þínu máli og innihalds lítill, það tek ég sem staðfestingu á því að Guðirnir eru ekki réttlátir, það lýsir í gegnum þínar skriftir sálrænt gjaldþrot en samt held ég ekki að þú sért það, því gjaldþrota verður maður ekki andlega ef ekkert hefur verið af að taka, sem sagt Guðirnir eru ekki réttlátir og sjálfsagt ekki að ástæðulausu það.

Það er svona fólk eins og þú sem liggur á bak við þann djöfulskap sem þetta kjaftæði um "rasisma" hefur skapað, það er nefnilega svo ákveðið í alþjóðlegum samþykktum að allt fólk er fólk, vissulega dálítið ójafnt til efna og atgerfis, en samt telst það vera af sortinni "Homo Sapiens" og þar af leiðandi af sömu sort, þessi staðreynd nægir því til að gera þig ómerkan og frekar vitlausan og kanski þess vegna sem þú ert stöðusettur þar sem þú ert, þér ber að skilja að engin keðja getur verið sterkari en veikasti hlekkurinn, og samkvæmt góðum sið á klerkur hvers staðar að vera frekar vel gefið kvikindi, en því miður.

En þó er bót í máli ef þú trúir á þessa dellu sem þið notið til að hræða fólk til hlíðni, þá er það gott mál fyrir það sem vælir, ekta negri sér sig ekki sem annan kynstofn eða lægri en aðrar manneskjur, hann er sáttur við sitt, það er þó annað mál að vinir þínir frá Harvard hafa dundað sér við að blóðmjólka þessar þjóðir sem nú eru að reyna að rísa upp, með erfiðleikum og djöfulskap sem stríði fylgir, og þá kemur vandamálið, hvað á að gera við meðhlauparana sem þurfa að koma sér undan hefndum, ? jamm, ég vil ekki fá þá, þeir sem koma til að vinna og eru hugsandi eins og fólk í okkar breiddargráðum hugsar, það er ekki það fólk sem er vandamál.

Ég held prestlingur litli að þú ættir að halda kjafti um lífið hér á jörðu, þú ert búin að sníkja út aura til náms í fræðum sem eru hégómi og bjánaskapur og það fylgir þeirri stöðu sem þú þiggur lifibrauðið frá og Íslenska ríkið borgar að oppna ekki kjaftinn um málefni utan kirkjunnar, svo annað hvort hættir þú djobbinu sem sálusorgari og gerir eitthvað annað eða þú heldur kjafti og lætur eiga sig að ausa skít í fólk sem hefur mikilvægari mál að hugsa um en þitt vit nær.

Það væri mér kært tækifæri að setja í gang skoðana skoðun um það hvort þær gömlu góðu reglur sem prestum voru settar þegar þjóðin var leyst undan áþján hinnar góðu bókar eða öllu heldur handhafa hennar í formi kirkjuvalds séu úr gildi eða í gildi ?

Æl á þig

sjóveikur

Sjóveikur, 5.4.2007 kl. 23:46

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ljótt var þetta innlegg og á hér ekki heima, enda vill enginn kannast við það með nafni.

Séra Baldur, þú ert maður að meiri að hafa endurbirt þennan pistil þinn og athugasemdirnar. En hverju varstu annars að breyta í þinni vefgrein í dag kl. 16:28? Og vertu nú ekki tregur til að svara mér, ég er hættur að herja á þig út af þessu máli.

Óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Jón Valur Jensson, 6.4.2007 kl. 00:39

28 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Alltaf er maður að rekast á þessa sömu umræðu hér um allt blogg. Og það er kannski ekki skrýtið. Stór hluti bloggara er að reyna að leiða þessum hóp Frjálslyndaflokksins sem stöðugt talar um útlendinga sem koma hingað frá löndum þar sem eru önnur trúarbrögð, landlægir sjúkdómar og starfa hér á atvinnumarkaði. Þeir tönglast á þvi að í Austur Evrópu séu berklar landlægir en gleyma því að sett hefur hér verið reglugerð sem segir til um að fólk þaðan skuli sæta því að vera prófað fyrir berklum hér. Og jafnvel beitt lungnamyndum.  Þeir ýja að því að hingað geti komið öfgamenn sem sem stundi sæmdarmorð. Og að þeir vilji ekki aðlagast íslensku samfélagi. En geta ekki sýnt fram á nokkur dæmi. Þeir tala svona  um málið á blogginu sínu t.d.

 af síðu Jóns Magnússonar:

Nú þegar verður að bregðast við og efla lögregluna til mikilla muna svo að hún geti tryggt öryggi borgaranna og komið erlendu glæpafólki úr landi.

Og þetta

Það er ekki hægt að sætta sig við að fólk þurfi að yfirgefa heimili sín á hverjum morgni óttaslegið yfir að það verði búið að brjótast inn þegar það kemur heim.  Í vaxandi mæli eru þeir sem fremja þessa glæpi  útlendingar. Hvað á að gera til að bregðast við þessu? 

Eins þá ýja þeir að þvi að laun séu tekin að hrapa vegna fjölda erlendra verkamanna/iðnaðarmanna en gleyma því að erlendu starfsmennirnir eru inn í þessu meðaltali og það eru þeir sem draga meðaltalið niður en íslenskir starfsmenn eru mun hærra launaðir (sem þarf að laga). Og stærstur hluti þessara erlendu manna eru hér í tímabundnum verkum og hverfa héðan þegar þeim lýkur

Síðan leyfa þeir sér að mótmæla því að þetta sé ein mynd rasisma. Ég fór inn á síður Ku klux klan og kíkti á hvernig þeir skrifa um aðra kynþætti eins og mexikóa og Indjána. Jú þeir eru á þvi að þetta sé ágætis fólk bara ef það er heima hjá sér. Og sé ekki að taka vinnu frá hvítum Bandaríkjabúum. Og viðurkenni að Bandaríkin eru fyrir hvíta Bandaríkjamenn fyrst og fremst.

Ef að Frjálslyndir hefðu ekki ætlað að ala á rasisma þá hefðu þeir í stað hræðsluáróðurs lagt áherslu á heilsugæslu fyrir erlenda verkamenn og að þeir fengju hér markaðslaun. En ég held að frjálslyndir séu að komast að því fullkeyptu að við viljum engan rasisma hér.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.4.2007 kl. 02:16

29 identicon

<> 

Upptaka er að leita í Egyptalandi

<>

Í framhaldi af ábendingum Jóns Magnússonar, langar mig að koma með smá innlegg. Athygli manna hefur ekki beinst nægilega að upptökum múslimskra hryðjuverka. Þeirra er að leita til falls kalífa-dæmisins árið 1924, þegar Ottoman-ættinni í Tyrklandi var velt úr sessi. Þetta var mikið áfall fyrir syni Allah, því að þar með var horfið frá stjórnarformi sem Múhameð kom á og ríkt hafði allt frá hans dögum. Kalífi er einræðisherra og trúarleiðtogi múslimaheimsins, sem á arabisku nefnist Muslim Ummah.

<>

Flestar (hugsanlega allar) glæpahreyfingar múslima eiga rætur að rekja til Bræðrabanda múslima (
al-ikhwān al-muslimūn), sem stofnuð voru í Egyptalandi árið 1928. Markmið þessara samtaka er að endurreisa kalífa-dæmi Múhameðs. Á meðal ódæðisverka þeirra var drápið á Anwar Sadat 1981. Í síðasta mánuði var starfsemi þeirra loks bönnuð, með breytingu á stjórnarskrár Egyptalands.

<>

Einn af forustu mönnum drápsins á Sadat var Egypti að nafni Ayman al-Zawahiri. Hann hafði verið forustu-maður Egyptsku samtakanna al-Jihad (Heilagt stríð), sem var útibú frá Bræðraböndunum. Eftir að hann hafði afplánað fangelsisdóm, hélt hann til liðs við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, sem hann sameinaði al-Jihad og varð einn heldsti forustumaður þeirra. Í ársbyrjun 2006 tókst að drepa hann í Pakistan og var ekki vonum seinna.

Lotur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 09:40

30 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Breytti engri vefgrein Jón Valur!  Kv.

Baldur Kristjánsson, 6.4.2007 kl. 09:50

31 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Baldur. Gangi þér vel í helgihaldinu í vikunni og um páska.

Jón Valur Jensson, 6.4.2007 kl. 13:25

32 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

... sá yðar sem syndlaus er, kasti steinum úr glerhúsi og styðji áfram þrælastefnuna sem haldið hefur verið uppi undanfarin ár.

Ég kýs F vegna þess að ég er á móti kynþáttafordómum og þrælahaldi. Á móti því að hingað sé flutt inn vinnuafl sem þrælar myrkranna á milli fyrir hlægilega lág laun. Á móti því að fólki sé ekki gert að fræðast um réttindi sín og skyldur og reyna að læra málið til þess að geta tekið þátt í samfélaginu...

Ef þú styður þrælahald, settu þá X við eitthvað annað en F.

 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 6.4.2007 kl. 14:36

33 identicon


Eru einhverjir hér sem styðja að hingað flytjist fólk ,

" sem hefur sín eigin lög og virðir ekki lágmarks mannréttindi og misbýður konum. "

Vantar okkur fólk til landsins sem svarar til þessarar lýsingar?

Er það ekki staðreynd að múslimar eru víða til vandræða í Evrópu, og innan þess hóps leynast hriðjuverkamenn og menn sem fyrirlíta þau vestrænu  þjóðfélög sem þeir búa í.  Fyrir þá sem ekki fylgjast með fréttum er rétt að minna á hriðjuverkin í London og Madríd.

Er það  kannski merki um rasisma að vitna í fréttir af  hriðjuverkum?

Sama hvað þið rétttrúnaðarmenn hamist á vitleysunni þá sér 90% þjóðarinnar í gegn um bullið í ykkur.

Lang best er að múslimar búi í múslimaríkjum þar sem þeir geta vöðlað kóranruglinu saman við lög landsins og flokkað konur með búsmala.  Hef aldrei skilið áhuga þeirra á að búa í kristnum samfélögum, innan um alla trúvillingana.

Sigurður Björnsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 16:52

34 identicon

Sæll, síra Baldur og aðrir skrifarar !

Hljótum, að þakka Sigurði Björnssyni hans þarfa, og gagnlega innlegg. Hann kemur einmitt að kjarna málsins, þeir Múhameðsku eiga vissulega að vera heima; hjá sér, bezt geymdir þar. Okkar ágæti spjallvinur, Magnús Helgi Björgvinsson heldur sig; við heygarðshorn vinstri manna. Ber samt að þakka honum ábendinguna, varðandi Ku klux klan, það vill jú svo til, að Indíánar eru frumbyggjar Ameríku, og ber mun meiri réttur til álfunnar, en nokkurn tíma hvítum mönnum. Mexíkanar eru jú, að stofni til Indíánar, en talsverð þjóðablanda er orðin þar, eins og víðar um álfuna. Innlegg Þryms Sveinssonar (no. 27) er jafnframt mjög þarft, við þurfum að vera vel á verði gagnvart óvinum kristninnar, á hverri við byggjum okkar menningararf að langstærstu leyti á. Þá kemur Loftur Altice Þorsteinsson með góða hugvekju, um einn þáttinn, í hinni illyrmislegu trú, frá Mekka og nærsveitum. 

Jah.... síra Baldur, og aðrir ágætir skrifarar; af nógu er að taka;; og umræðan hvergi nærri tæmd. Skrifari; no. 28 virðist ei kunna lágmarks mannasiði, hann hlýtur að teljast ómerkingur umræðunnar.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 17:37

35 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sigurður Björnsson að segja: &#132;Lang best er að múslimar búi í múslimaríkjum þar sem þeir geta vöðlað kóranruglinu saman við lög landsins og flokkað konur með búsmala. Hef aldrei skilið áhuga þeirra á að búa í kristnum samfélögum, innan um alla trúvillingana." Þetta er rasismi eins og hann gerist verstlur.

Veit ekki hvar þú finnur stóra hópa múslima í evrópuríkjum sem hafa sína eigin lög og misbjóða konum. Það er jú vissulega einhverjir minnihlutahópar innan hvers lands sem eru öfgatrúarmenn. Þeir eru nákvæmlega eins og þú sem ért ekki tilbúinn að aðlaga þig að breytingum á samfélaginu og fjölbreyttni.

Það er engin rasismi að vitna í hryðjuverk en þeim hefur nú verið svarað af Vesturlöndum með árásum sem hafa drepið tugi þúsunda múslima.

Ég held að við sem teljums kristnir eigum líka okkar sögur um villimennsku og ógeðslegheit t.d. i Vietnam, Afganistan, Írak gegn gyðingum, gegn Afríku og þrælahald. Við brendum fólk hér á Íslandi á báli og drekktum því. Svona er hægt að halda áfram.

En því miður eru alltaf til öfgamenn með öfgaskoðanir sem byggja rök sín á hæpnum forsendum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.4.2007 kl. 17:52

36 identicon

 Magnús,

"Það er engin rasismi að vitna í hryðjuverk en þeim hefur nú verið svarað af Vesturlöndum með árásum sem hafa drepið tugi þúsunda múslima."

Mest eru nú reyndar múslimarnir að drepa hvern annan, þótt kaninn hafi jú drepið allmarga.

Það ætti nú að senda nokkra íslenska fjölmenningarspekinga  þarna niður eftir til þess að fræða síka, kúrda og hvað þeir nú heita, kenna þeim að virða trú hvers annars svo þeir geti hætt að sprengja horir aðra í loft upp.

Þeir geta jú ekki lifað saman í sátt og samlyndi, þurfa greinilega fræðslu, sem fjölmenningarpostularnir hér gætu hjálpað. Á meðan fengjum við raunsæismenn smá frið fyrir vaðlinum og óraunsæinu í ykkur.

sigurður björnsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 18:52

37 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sumir öfgahópar kristinna líta svo á að helsta hlutverk konunar sé að vera manninum sínum undirgefin. 99% múslima vilja lifa í friði. Þeir eru hinsvegar að stórumhluta að takast á við að við Vesturlandabúar bjuggum til lönd eins og Írak í raun þar sem að bretar og fleiri mynduðu land með ólíkum þjóðflokkum án þess að takast að búa til einingu þar. Hér á vesturlöndum fer líka fram valdabarátta. Hún fer fram í kauphöllum og fyrirtækjakaupum þar sem að jafnvel heilu bæjarfélögin eru lögð í rúst af því að peningamönnum hentar það.  Og stærsta vandamálið í samskiptum okkar við múslima er óleysta vandamálið með Ísrael vs. Palestínu. Annars dæma orð þín sig sjálf svona gífuryrði og djöfulskapur leysa aldrei vandamál.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.4.2007 kl. 22:57

38 identicon

Magnús minn.

Ósköp notarðu ljót  orð í svari þínu. 

Ég kannast ekki við að hafa notað gífuryrði hvað þá djöfulskap í máli mínu hér að ofan. 

Hins vegar  geri ég mér grein fyrir því að líklega fer ég í taugarnar á þér.  Ég kippi mér samt ekkert upp við það.  Við þurfum heldur  ekkert að vera sammála.

Góða nótt, Sigurður. 

sigurður björnsson (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 00:02

39 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Mér finnst nú Frjálslyndir vera að berjast við rangan andstæðing. Væri ekki gáfulegra að takast á við vinnuveitendur sem borga þessu vinnuafli lúsarlaun. Ekki eru það útlendingar sem krefjast lægri launa. 

Hversu margir af þessum 9% sem eru hérna þessa stundina eiga eftir að hverfa aftur til síns heima? Þetta eru að stórum hluta farandverkamenn sem ferðast á milli landa og vinna. Þeir eru ekki ríkisborgarar og ætla ekki að setjast hér að. Það eru hinsvegar þessir vafasömu vinnuveitendur sem eru ástæðan fyrir  slökum kjörum.  Því þarf að breyta, ekki vinnu aflinu.

Svo spyr maður sig. Ef útlendingar meiga ekki vinna þessi störf, hver á þá að gera það? Íslendingar? Þessi gífurlegi stóri hópur sem fjölmennir fyrir utan ráðningarstofunar og heimtar störf í byggingarvinnu og í frystihúsum? Það vita allir að Íslendingar vilja ekki vinna þessi störf og gaman væri að heyra svör þeirra sem eru á sama máli og Frjálslyndir um hver á þá að gera það?

Ómar Örn Hauksson, 7.4.2007 kl. 12:46

40 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Ég svara þér bara hér Óskar Helgi Helgason og láttu mig vita hvort þú sérð svörin:  Spurning nr.1. : Það eru viðræður í gangi en því miður,telja heimildarmenn mínir að þeir séu ekki að skila neinum árángri.  Sp. nr. 2:  Engar líkur, því miður.  B. Kv.

Baldur Kristjánsson, 7.4.2007 kl. 13:15

41 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Voru það ekki Þjóðernissinnar sem notuðu einmitt slagorðið Ísland fyrir Íslendinga? Það var afskaplega "vinsæll" flokkur sem hvarf fljótlega þegar þeir gátu ekki rökstutt sitt mál. 

Ég og félagar mínir í Quarashi birtumst á á forsíðu dagblaðs hérna fyrir nokkrum árum þar sem við klæddumst bolum með þessu slagorði ásamt hópi af útlendum íslendingum í sömu bolum. 

Og aldrei hef ég skilið þessi rök sem segja að okkar menning muni farast með aukinni alþjóðarvæðingu. Hvernig í ósköpunum? Munum við hætta að halda upp á 17 júní af því að það eru nokkrir Tælendingar á svæðinu? 

Ómar Örn Hauksson, 7.4.2007 kl. 14:20

42 identicon

Sæll, síra Baldur og aðrir skrifarar !

Þakka þér svörin, síra Baldur.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband