,,ekki óhreina pollinn sem frýs"

Sennilega munu loftlagsbreytingar sem nú ganga yfir hitta þá harðast fyrir sem þegar eru fátækastir. Þar sem þurrkar eru nú þegar mestir, þar sem jarðvegur er hvað þurrastur mun verða ennþá þurrkasamara.  Þetta á ekki hvað síst við um Afríku en einnig önnur landsvæði sem liggja nálægt miðbaug. Það sem veldur einnig áhyggjum er að þetta hittir fyrir landsvæði, lönd, ríki sem eru illa í stakk búin til þess að mæta þessum auknu erfiðleikum. Það er ekki verri pæling á föstudaginn langa en hver önnur að þjáningin í veröldinni er ekkert á undanhaldi nema síður sé. Í auknum mæli munu börn fæðast inn í þennan heim til þess eins að visna upp og deyja.  Það er held ég að verða alveg augljóst að þetta ríkjakerfi sem er við lýði í veröldinni gengur ekki upp og kominn tími til þess að fara að ræða af meiri alvöru en fyrr um e.k. alheimsstjórn eða eigum við aðsegja alheimsskipulag.  Ég veit að það fer hrollur niðreftir bakinu á mörgum við þá hugsun en þeir hinir sömu ættu bara að skreppa til Afríku með flugvél t.d. og sjá gleðina í augum barnanna en depurðina í augum margra fullorðinna sem hafa séð allar vonir sínar um betra líf handa börnum sínum bresta....

Ég er að lesa lítið kver sem Hrafn Jökulsson, sá snillingur, stóð fyrir.  Úrval úr ljóðum Jónasar Guðlaugssonar.  Jónas lést árið 1916 aðeins 28ára gamalla orðinn viðurkennt skáld bæði á Íslandi og í Danmörku. Að mínum dómi á hann tungunnar ljóðrænustu línur ásamt nafna sínum Hallgrímssyni. Dæmi úr ,,Æskuást” ljóði sem hann orti um tvítugt: : ,,Hví leitar það hljómdjúpi hörpunnar frá/sem helst skyldi þögninni grafið/Ég kalla þó aldrei þá sól úr sjá/sem sefur á bak við hafið.”

Jónas var pólitískt skáld og reyndi að hrista upp í samtíð sinni sem var í byrjun tuttugustu aldar.  Hann unni sinni þjóð og sínu landi en hann var þó ekki þjóðernissinni eða einangrunarsinni með einum eða neinum hætti. Hann vildi höggva á þá fjötra sem héldu þjóð hans í böndum vanahugsunar.,,Ég vil höggva mín arfgengu bönd” og ,,Ég vil bálið sem hitar og brennur/en ég bölva þér nákaldi ís/Ég vil aflþunga elfu sem rennur/ekki óhreina pollinn sem frýs”. Ekki úr vegi að álykta að hann hefði prédikað fjölmenningu í dag. Fyrri hlutinn kannski ekki heppileg líking í núinu ef við höfum í huga þurrkaváfréttina sem ég hóf þennan pistil á.

Inngangur Hrafns Jökulssonar í nefndri bók um þennan snilling sem trúlega hefði staðið við hlið nafna síns Hallgrímssonar í ljóðahefð okkar ef honum hefði enst aldur til er prýðileg lesning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er skelfilegt Baldur að loftlagsbreytingar, sem nú ganga yfir heiminn, skuli hitta fyrir þá sem fátækastir eru. En loftslagsbreytingar eru nú ekki að ganga yfir í fyrsta skipti og heimsendir er ekki í nánd. Heldurðu það nokkuð? Og ekki kalla aðstæðurnar á "alheimsskipulag". Færri börn fæðast í þennan heim í dag "til þess eins að visna upp og deyja" en nokkru sinni fyrr. Þér er kannski ekki kunnugt um það? Maður veit jú ekki allt. Framfarasókn mannskynsins síðustu hundrað ár er þér kannski ókunn? Þú gætir byrjað á því að lesa ágæta bók Svíans Johans Norberg When Man Created the World. Af þeim lestri yrðirðu margs vísari. Þú hefur kannski engan áhuga á því? Þú vísar í hið ágæta skáld Jónas Guðlaugsson og telur að ekki sé úr vegi að draga þá ályktun að hann hefði predikað fjölmenningu í dag. Ég held að þú sért algerlega úti á þekju í þessu samhengi. Væri ekki nær að draga þá ályktun að hann væri þjóðernissinnaður framfaramaður? Hver voru hans "arfgengu bönd"? Hann vill bálið sem hitar og brennur og hann bölvar hinum nákalda ís (hefði hann ekki glaðst yfir hlýnum fósturjarðarinnar?). Hann vill aflþunga elfu sem rennur en ekki óhreina pollinn sem frýs (hann hefði örugglega verið virkjanasinni í flokki með Einari Benediktssyni, eða hvað?) Vel kann það að vera að þér þyki lítið til íslenskrar ættjarðar koma og  íslensks þjóðernis. En vertu þess viss að Íslendingar munu rísa upp á afturfæturna, þegar ættjörð og þjóðerni þeirra verður ógnað. Þá mátt þú dunda við "fjölmenningarhyggjuna" og "alheimskipulagið" suðrí Brussell mín vegna.  

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 03:47

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Gústaf og Gleðilega páska.  Gaman og gagnlegt að fá þitt sjónarhorn.  Bestu kveðjur.  Baldur

Baldur Kristjánsson, 8.4.2007 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband