Keypt til vændis eða betls
23.4.2007 | 09:31
Í Úkraínu þekkist það sem víða annarsstaðar að fólk er selt í þrældóm, mansal heitir það. Reyndar er landið fyrst og fremst skiptistöð fyrir slíka starfssemi en nokkuð er samt um uppruna slíks þar. Maður heyrir að fólk sé keypt og selt í vændi og ýmiskonar starfa erlendissvo sem korntínslu og fiskvinnslu. Einnig að fólk sé keypt eða því rænt til þess að betla. Sögu um slíkt heyrði ég allt niður í 3ja ára barn. Slíkt þægt og gott barn gæti, að því er sagt var, hæglega betlað fyrir 160 dollara á dag. Fullorðin manneskja var, að sagt er, keypt út af sjúkrahúsi í Moskvu fyrir 40 dollara og munstruð upp sem betlari í Kiev. Betlararnir eru að því að sagt er geymdir og fóðraðir í litlum kytrum á nóttunni margir saman og glæpamennirnir dreifa þeim síðan um Kiev á morgnan og fylgjast með þeim yfir daginn.
Svona sögur ganga og gætu sjálfsagt verið sannar og gætu verið flökkusögur. Ekkert sem ég sá og heyrði í Úkraínu bendir þó til þess að þær gætu frekar átt við þar en annarsstaðar í þessum heimshluta. Í þessum harða og spillta heimi veit maður ekki einu sinni hvort að smápeningar þeir sem maður gefur renna í vasa forherta glæpaforingja eða ekki.
Ég legg samt áherslu á að þetta eru sögur, ekki neins konar opinberar upplýsingar en þær endurspegla kannski heiminn. Í Kiev sá ég reyndar tiltölulega fáa betlara, lítið um slíka eymd á götunum. Hún er samt til staðar enda 3ja miljón manna borg með gífurlegri fjölbreytni, fátækt og ríkidómi. Gríðarleg bílaumferð. Flest farartæki gömul og úr sér gengin, gamlar Lödur, ryðgaðir Moscvitsar, virðulegar Volgur en einnig töluvert um nýja bíla þ.á.m. mikið um rándýra bíla: Lexus lúksusjeppar í hundruðatali. Mér er sagt að það sama hafi gerst og á Íslandi að hlutfallslega fáir hafi orðið mjög ríkir en flestir séu aðeins ríkir í draumum sínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.