Sá sem skapaður er í Guðs mynd
27.4.2007 | 11:39
Ég var í hópi þeirra 43ja sem vildu að hjónaband tæki einnig til homma og lesbía og að kirkjunnar þjónum yrði heimilað að gefa fólk saman.
Allir eru skapaðir í Guðs mynd og allir eiga að njóta sömu réttinda. Varðandi hjónabandið: Gagnkynhneigður velur sér maka af gagnstæðu kyni. Aðila sem hann elskar og vill eyða lífinu með. Það er hans eðli. Samkynhneigður einstaklingur velur sér maka af sama kyni. Það er einnig hans eðli. Hví skyldi það ekki vera réttur hans að ganga til kirkju og fá þar vígslu jafna þeirri sem hinn gagnkynhneigði fær. Hvers vegna ekki? Ætti það að trufla hamingju hins gagnkynhneigða pars þó að samkynhneigðir njóti samskonar blessunar og vígslu? Vitaskuld ekki!
Samkynhneigt fólk hefur um allar aldir þurft að búa við fordóma, útskúfun og ofsóknir. Settu þig í spor dóttur þinnar, sonar þíns sem uppgötva á unglingsárum samkynhneigð sína. Settu þig inn í hugaheim unglingsins. Er hann annars flokks? Er hann síðri? Er hann vonbrigði? Nei, hann er jafnverðmætur og aðrir unglingar, hann er jafn dýrmætur. Við hann ættu að vera bundnar jafn miklar, dýrmætar vonir. En hann þarf að njóta sömu réttinda. Það dugar ekkert hálfkák í því. Til þess að taka af öll tvímæli þarf kirkjan sem væntanlega hefur skírt unglinginn og fermt að gefa honum kost á heilögu hjónabandi með þeim sem hann elskar og gefa honum þar með þá virðingu innan og utan veggja heimilis sem hann kýs, sækist eftir og á skylda.
Þetta er ekki mikið mál fyrir Lútherskan mann. Hjónabandið er að skilningi okkar fyrst og síðast veraldeg stofnun sem kirkjan leggur blessun sína yfir með vígslu. Þegar ríkisvaldið hefur fyrir sitt leyti gefið fólki sömu réttarstöðu hvers vegna í ósköpunum skyldi kirkja Jesú Krists ekki gera slíkt hið sama. Það væri fullkomlega í anda Jesú Krists sem blés á fordóma og bábiljur og leitaðist við að rétta við og styðja alla þá sem áttu undir högg að sækja. Stóð með þeim sem minna máttu sín og varð svo að lokum sá sem ekkert mátti sín og þá kom sigurinn stóri, upprisan.
Jesús Kristur skrifaði ekkert um siðfræði. Hann reit enga bannlista eða lista yfir það sem leyfilegt væri. Í grófum dráttum þá var hann maður kærleikans, gaf kærleikanum lausan tauminn umfram allt annað. Hann fæddist inn í staðnað trúarsamfélag þar sem klerkarnir höfðu það á hreinu hvað væri rétt og rangt, hvað mátti og hvað mátti ekki, dæmdu aðra og drottnuðu, þeir voru þrælar vanahugsunar, vel upp aldir í kenningunni, með allt á hreinu. Að lokum hentu þeir þessum róttæklingi upp á kross.
Að flestu leyti lifum við betri tíma en áður með aukinni áherslu fólks í Evrópu á mannréttindi, í baráttu gegn misrétti. Fjöldamargir sáttmálar hafa verið undirritaðir þar um. Það er náttúrulega óþolandi að trúarhreyfingin í heiminum þ.m.t. íslenska kirkjan skuli vera í farabroddi þeirra sem andæfa breytingum í átt til heilbrigðara þjóðfélags þar sem einstaklingarnir yrðu metnir á þeirra eigin forsendum og fjölbreytnin lofuð en ekki fordæmd.
Ef menn ætla að gerast bókstaftrúarmenn og pilla upp einhverjar setningar úr Biblíunni án samhengis og skilnings þá komast þeir ekki langt og ef menn ætla í sífellu að vísa til hefðar og genginna kynslóða þá komast þeir heldur ekki langt. Slíkt minnir á systkinahópinn sem dagaði upp í tæknibyltingunni á öndverðri síðustu öld. Foreldrarnir voru dánir og elsti sonurinn réði ferðinni, þau höfðu pantað dráttarvél. Massey Ferguson eða Farmal sennilega árgerð 1956. Nokkrum dögum áður en dráttarvélin átti að koma kom elsti sonurinn niður að morgni og tilkynnti. Mig dreymdi hann pabba í nótt. Hann sagði að þetta væri óráð og ekki það sem koma skyldi. Við skyldum ekki vera að þessu. Dráttarvélin var afpöntuð og að sjálfsögðu dagaði systkinahópurinn upp í gamalli verkmenningu sem hélt ekki í við sífellda þróun tímans.
Heimurinn er nefnilega undirorpinn breytingum bæði á andlega sviðinu og hinu verklega. Trúarhugmyndir breytast líka. Dæmi um það er að páfinn telur nú ekki lengur að óskírð börn sem deyja geymist í Helvíti eða forgarði Helvítis. Það þótti sjálfsögð guðfræði hérna áður fyrr. Vart er hægt að hugsa sér veröld sem ekki breytist, þróast, endurnýjast. Sá sem staðnar bara staðnar, sá sem staðnar situr eftir, kemst ekki neitt, dagar uppi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér í þessu Baldur og leið yfir íhaldssemi kollega þinna. Það sem þú segir um bóksstafskenningarnar er einmitt málið...það þýðir ekki að pikka þetta út og gleyma svo öllu hinu. Við verðum að lesa ritninguna m.t.t. þess tíma sem við lifum á, þeirrar þjóðfélagsgerðar sem við höfum skapað okkur með Guðs hjálp hverju sinni.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður, öfundar ekki... kærleikurinn trúir öllu vonar og umber allt...
Guð er kærleikurinn.
Hjónabandið er ein af stofnunum kirkjunnar. Ég er viss um að Guð vill að allir hafi aðgang að kirkju sinni...líka hommar og lesbíur.
Sigþrúður Harðardóttir, 27.4.2007 kl. 16:55
Góður pistill, Baldur, þakka þér fyrir.
Kolgrima, 27.4.2007 kl. 18:40
Sæll Baldur.
Frábær og elskulega skrifuð grein. Segir allt sem segja þarf við bókstafstrúarmenn. Takk fyrir að skrifa þetta og birta.
kveðja,
Sveinn Hjörtur , 27.4.2007 kl. 21:08
Þessi pistill er afskaplega vel saminn og vandaður. Takk fyrir Baldur.
Kv. Lýður
Lýður Pálsson, 27.4.2007 kl. 22:41
Heill og sæll Baldur
Þú skrifar skynsamlega, eins og við var að búast. Finnst þó að það eigi að vera fullur skilningur á því viðhorfi að "hjónaband" vísi til sáttmála milli karls og konu. Andlegur, sálrænn og líkamlegur samruni þessa póla sköpunarverksins, sem nauðsynlegir eru til að gefa af sér afkvæmi. Ofstækið í orðræðunni getur nefnilega líka orðið það mikið að menn megi varla halda þessu viðhorfi á lofti. Fannst skrif Einars Karls Haraldssonar og Steinunnar Jóhannesdóttur skynsamleg og fordómalaus ym þessi mál. Samt urðu þau fyrir leiðinda aðkasti. Það var eins og fámennur hópur væri eini rétthafinn að þátttöku í umræðunni. Þau vildu bara varðveita stofnunina "hjónaband" sem orð yfir sameiningu karls og konu. Enda held ég að tveir hommar eða tvær lesbíur í sambúð tali ekki um sig sem "hjón". Það er því eðlismunur á þessum stofnunum, þó vissulega sé engin ástæða til annars en að kirkjan blessi hjúskap samkynhneigðra.
Með kærri kveðju,
Gunnlaugur B Ólafsson, 28.4.2007 kl. 00:40
Sjaldan hef ég (sem er laus við guðstrú) verið jafn sammála trúmanni. Góð grein og heilbrigð skynsemi í hverju orði.
Svartinaggur, 28.4.2007 kl. 09:27
Virkilega góð lesning!
Við erum öll börn Guðs og ættum að fá að fylgja honum öll með sama hætti.
Skírn, Ferming og af hverju ekki Gifting?
www.zordis.com, 28.4.2007 kl. 11:04
Ef menn ætla að gerast bókstaftrúarmenn og pilla upp einhverjar setningar úr Biblíunni án samhengis og skilnings þá komast þeir ekki langt og ef menn ætla í sífellu að vísa til hefðar og genginna kynslóða þá komast þeir heldur ekki langt.
Kæri Baldur. Þetta er athyglisverð setning frá Guðfræðingi, byggir þá kristin trú ekki lengur á Heilagri ritningu ? Eða vega aðrar heimildir þyngra ?
Jesús Kristur skrifaði ekkert um siðfræði. Hefur þú þá ekki lesið Nýja testamenntið Baldur ?Nú er ég ekki að tala um einhverja fáeina ritningastaði á stangli. Allt N.T. er fullt af siðfræði Jesú Krist.
Með vinsemd og virðingu.
Kristinn
Kristinn Ásgrímsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 11:30
Sæll Kristinn Ásgrímsson: Það er þetta með samhengið og skilninginn........!
Baldur Kristjánsson, 28.4.2007 kl. 15:47
Takk fyrir góð skrif!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 28.4.2007 kl. 17:55
Takk fyrir þetta, Baldur.
Pétur Gunnarsson, 28.4.2007 kl. 20:19
Mér finnst þú hugrakkur og góður.
Rúnarsdóttir, 28.4.2007 kl. 20:46
Frábær pistill og fullur af mannskilningi og kærleika til allra manna. Vona ég að sem flestir lesi. Bestu þakkir og kærleiksknús til þín.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.4.2007 kl. 21:11
Í sifjamálum er skýrt að fjöldinn í hjónabandinu takmarkast við tvo, þ.e. einn karl og eina konu. [1] Hjónaband er skv. þessu t.d. ekki samband eins karls og tveggja kvenna. Eins og sakir standa þykir það ekki mismunun í okkar samfélagi að trúfélag skuli vera á þessari skoðun. Þetta segir okkur að viðmiðin í þessum málum geta verið mismunandi. Viðmið kristinnar kirkju eru þau sem þau hafa verið þó viðmið samfélagsins breytist. Það að halda öðru að fólki, svo sem því að viðmið kristninnar eigi að laga sig að kröfum tímans lýsir aðeins undirliggjandi misskilningi á eðli þessa tiltekna trúfélags. Það að þetta tiltekna trúfélag krefst ákveðinnar hegðunar af fólki hlýtur alltaf að leggja mismunandi þungar byrðar á fólk. Þeir munu axla þær sem hafa ákveðna trúarsannfæringu. Aðrir ekki. Að halda því fram að þetta sé mismunun hlýtur því að vera byggt á misskilningi á því hvað trúarsannfæring sé eða þá á ýmsum viðhorfum og væntingum sem má með réttu eða röngu hafa til ríkiskirkjunnar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 29.4.2007 kl. 00:15
Vel orðað. Takk fyrir þetta.
Jóna Á. Gísladóttir, 29.4.2007 kl. 02:03
Takk fyrir góðan pistil Baldur!
Hlíf Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 22:38
Hvar á setja mörkin um leiðsögn í kristinnar trúar samkvæmt Nýja testamentinu?
Mér finnst mál samkynheigðra ekki snúast um þeirra mál heldur að í hver skipti sem okkur hentar þá á kirkjan að hlaupa eftir okkur skoðunum.
Það er ekki auðvelt að feta í fótspor Krists í kærleika hans, hætt við samkvæmt mannlegum breyskleika að við hrösum æði oft.
Lausn samkynhneigðra finnst mér vera borgaraleg gifting samkvæmt lögum svo geta menn fengið þá blessun sem þeir vilja samkvæmt sínu trúfélagi. Mér hefur stundum fundist "glamúr nútímans" með kirkjulegt brúðkaup oftar en ekki dálítið öfgakenndar.
Með kveðju.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 1.5.2007 kl. 03:14
Sæll Baldur
Kannski ætti maður að láta svona skrif kollega athugasemdalaus en mig langar til að vera með í þessu spjalli þínu sem er áhugavert. Ég hef trúlega aðrar skoðanir um sitthvað en þú svo þú ættir að hugsa þig um áður en þú leyfir mér margar athugasemdir.
Ég er að hugsa um lútherskan hjónabandsskilning og það sem þú segir um hann. Þó að hjónabandið sé veraldlegur hlutur í augum Lúthers þá sé það þó sérlega heilagur hlutur í augum hans. Það verkar ekki sáluhjálp fyrir manninn og það markar hið heilaga í augum Lúthers. Hann boðar margt strangt um hið veraldlega og skiptir sér mjög af því og hvað fjölskyldulífið varðar þá má lesa hústöflur hans. Það mun reynast til lítils að skýla sér bak við Lúther hvað varðar aðgang samkynhneigðra að hjónabandinu. Og að segja að Jesús hafi ekki haft margt að segja um siðferði getur ekki verið fjær sanni þó að hafi ekki verið hans fremsta erindi við mennina. Honum var hreint ekki sama um velferð manna þessa heims og því setti hann áherslu á lögmálið sbr. Fjallræðuna.
Ég er satt að segja sorgmæddur yfir því að við skulum ekki hafa meira að segja prestarnir um hjónabandið en lesa má úr tölum Hagstofunnar um hjónaskilnaði. Ég kenni hjónaefnum að í hjónabandinu felist áskorun um að þjóna lífinu, að þau gangi inn í sáttmála við höfund lífsins um það að leggja sitt að mörkum til að næsta kynslóð erfi betri heim og verði hæfari til að takast á við morgundaginn en þau sjálf; að hlutum fari fram. Hjónavígslan felur í sér markmiðssetningu um það og að slík meining beri blessunina í sér. Þetta hlýtur að vera viðeigandi svar við erindi Evrópusambandsins sem Barnaverndarstofa vakti athygli á í vikunni þegar bent var á versnandi stöðu barna vegna aukins vinnuálags foreldra og óstöðugleika sambúðar foreldranna.
Jakob Hjálmarsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 11:08
Þakka þér athugasemdina og komdu blessaður! Jú,Jesús segir margt um siðferði, en ég var eiginlega að vitna til eigin kandidatsritgerðar þar sem ég fjalla m.a. um að Jesú hafi ekki sett fram neinn skipulegan leiðarvísi um það hvernig lifað skuli og tók því ekki frá okkur þá ábyrgð að draga ályktanir af kærleiksboðorðum....Kv
Baldur Kristjánsson, 1.5.2007 kl. 11:52
Það gæti nú þótt frekar hæpin staðhæfing að leiðarvísi um það hvernig lifað skuli sé ekki að finna í Nýja Testamentinu. Sjá t.d. Mt. 19, 16-21:
"16Þá kom til hans maður og spurði: "Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?" 17Jesús sagði við hann: "Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin." 18Hann spurði: "Hver?" Jesús sagði: "Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, 19heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig." 20Þá sagði ungi maðurinn: "Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?" 21Jesús sagði við hann: "Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér."
Fleiri dæmi mætti tína til svo sem Mt. 5. 31-33:
"31Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.' 32En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór. "
Eða Mt. 19, 4-6:
"4Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu 5og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.' 6Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
Ef kristin trúfélög víkja frá grundvelli ritningarinnar og ætla sér að vera þjónustustofnun fyrir hinn veraldlega löggjafa þá má gera ráð fyrir mun meiri breytingum á hjónabandi og siðum en um er rætt í þessum pistli. Ef staðan er sú að kristin kirkja eigi í grófum dráttum tvo valkosti, þ.e. að fylgja ritningunni eða fara sínar eigin leiðir - eða tíðarandans þá eru valkostirnir þeir að annað hvort eru hjón karl og kona sem bæði fá aðeins eitt tækifæri til kirkjulegrar hjónavígslu eða að flest annað sem tíðarandinn kallar á verður leyft. Hjón eru því annað hvort karl eða kona sem gefast hvort öðru einu sinni og aldrei öðrum aftur frammi fyrir Guði eða þá n einstaklingar óháð kyni þar sem n er heil tala stærri en eða jöfn og 2. Ef einhver telur að hér sé um rennibrautarrök að ræða þá má benda á að víða í múslimskum löndum þykir fjölkvæni sjálfsögð mannréttindi. Ef löggjafinn vill leyfa slíkt þá er honum að sjálfsögðu heimilt að gera það - þó einhverjum þyki kannski að hann væri að skara glæður elds að höfði sér með slíku háttalagi.
Í þessu sambandi má benda á grein sem Sverrir Jakobsson skrifaði í Fréttablaðið 3. des. 2005 þar sem segir m.a.:
"Væri kannski tilraunarinnar virði að breyta íslenskum hjúskaparlögum á þann veg að öll hjúskaparform verði leyfð? Að hver einasti hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili teljist vera fjölskylda, óháð því nákvæmlega hversu margir einstaklingar skipi hópinn eða hver kynjasamsetningin sé?Grundvöllur hjúskapar ætti að fyrst og fremst að vera gagnkvæmt samþykki lögráða einstaklinga, hverjir og hversu margir sem þeir annars eru. Samþykki ríkisins ætti ekki að vera nauðsynleg forsenda.[Leturbr. RGB]"
Spurningin er því ekki hvort þessar kröfur munu koma fram heldur hve langt er í að þessir einstaklingar fari að knýja á kirkjudyrnar með nýþornaða stimpla ríkisins á hjúskaparpappírunum og krefjist kirkjunnar á eigin forsendum?
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.5.2007 kl. 17:25
Þú ert ágætur og þakka þér pistilinn. Þú þyrftir að komast í læri hjá góðum guðfræðikennara t.d. Clarens Glad. Kv. B
Baldur Kristjánsson, 3.5.2007 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.