Af Bjarna Harðar og hoppurólupólitík
5.5.2007 | 09:57
Ég hef áður minnst á mannréttindaskýrslu Valgerðar Sverrisdóttur sem finna má á vef utanríkisráðuneytisins mjög gagnleg og þörf samantekt á því hvar Ísland kemur að mannréttindamálum en mannréttindi munu örugglega taka meira pláss í veröldinni á næstu árum og áratugum en verið hefur.
Fylgi flokkanna er að fara í sitt hefðbundna form. Vinstri Grænir þokast niður á við og fylgi Framsóknar upp á við, Samfylkingin sækir í sig veðrið. Frjálslyndir fóru með sig á innflytjendaumræðunni. Íslandshreyfingin nær sér ekki á strik. Sennilega eru mistök hennar sú að reyna að vera hefðbundinn flokkur með stefnu í öllum málum.
Hér á Suðurlandi bjóða stjórnmálamenn upp á hoppurólur á sunnudögum bak við bensínstöð á Selfossi. Myndast langar biðraðir barna og foreldra sem ekki eiga hoppurólur heima hjá sér, börnin hoppa smástund og fara svo aftur aftast í birðröðina og híma þar í hðálftíma með foreldrum sínum. Á sunnudaginn var frétti ég af helling af fólki sem ætlar aldrei að kjósa Samfylkinguna af því að hoppurólukastalanum var lokað áður en börnin gátu hoppað en fjölskyldunnar búnar að bíða tímum saman í röðinni, þolinmóðar, vongóðar, vitandi það að í stefnuskrá Samfylkingarinnar er mikið fjallað um jöfn tækifæri. Ekki bara fá þeir sem fyrstir koma að hverri jötu. Á morgun er röðin komin að kjósendum að snúa baki við Framsókn því að alltaf þarf að hætta öllu hoppi einhvern tímann og væntanlega verður engin þurrð á kjósendum sem vilja hoppa á kostnað þess flokks frekar en þess fyrri. Kjósendum sem rekast á þetta skal bent á það að vera tímanlega í því því að framsóknarmenn þurfa örugglega að loka kastalanum um sexleitið til þess að komast heim til mjalta.
Annars undrar mig fylgisleysi þess flokks hér á Suðurlandi, landbúnaðarhéraði, sem átt hefur í oddamnanni landbúnaðarráðherra, bráðskemmtilegan, í átta ár. Ég hugsa að fylgisleysið liggi í vitlausu uppleggi í kosningabaráttunni. Reynt er að gera trúð úr Bjarna Harðarsyni líka. Það eru grundvallarmistök. Fólk kann að meta skemmtilega menn eins og Guðna og Bjarna en það kýs frekar fólk sem er líklegt til þess að láta hendur standa fram úr ermum. Þess vegna eru t.d.Björgvin Sigurðsson, Kjartan Ólafsson og Atli Gíslason í góðum málum. Allir vita að þeir geta verið skemmtilegir en þeir eru ekkert sérstaklega að gera út á það í kosningabaráttunni. Framsókn átti gjörsamlega að gleyma öllu draugarugli hvað þá skrípamyndum af frambjóðendum og einbeita sér að því að gefa þá mynd af Bjarna Harðarsyni að hann væri hörkuduglegur og mjög vel að sér. Þetta væri alvörumaður sem hefði stofnað og rekið fyrirtæki á Suðurlandi, væri þar sannkallaður brautryðjandi, auk þess að vera bókaútgefandi (ekki bóksali sem er ekki til atkvæða), baráttumaður fyrir málefnum þroskaheftra og lítilmagna almennt, eiginmaður alvörutónskálds, faðir einhverfs drengs. Maður með víðtæk tengsl í samfélaginu o.s.frv. o.s.frv. Ofaníkaupið væri Bjarni hraðmælskur og bráðgáfaður sunnlendingur, jarðbundinn og praktískur.
Þessa mynd átti að draga upp og á að draga upp síðustu vikuna. Kjósendur eru nefnilega engir kjánar. Þeir sem stjórna kosningabaráttunni hjá Framsókn hefðu mátt fara í smiðju til okkar Páls dýralæknis þegar við fengum 37% atkvæða í einu af höfuðvígjum íhaldsins í sem sagt Ölfusinu fyrir sex árum.
En Bjarni skríður vonandi inn. Þar eignast Suðurland þingmann sem tekið verður eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Facebook
Athugasemdir
Dugar ykkur Sunnlendingum ekki Árni Johnsen og Guðni Ágústsson til að vekja á ykkur athygli?
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 10:10
Heil og sæll, síra Baldur og aðrir skrifarar !
Nær væri Valgerði Sverrisdóttur, að líta sér nær, og sjá sóðaskapinn, í mannréttindamálunum; hér heima fyrir, áður hún rýkur til og fer að básúna, um þessi mál, um heimsbyggð alla. Jah, ........... hvílík hræsni, og yfirdreps- skapur, fjöldi sjúklinga, og annarra þeirra, hverjir í kröm lifa, hér á meðal okkar, á Íslandi; þakkar varla Framsóknarmönnum sinnuleysið og dugleysi margvíslegt. Það er, síra Baldur dpurleg meinloka, hjá Bjarna Harðarsyni; þessum bókvísa manni og bókavini, að binda trúss sitt, við þetta skelfilega ryckti, og mun hann setja meir ofan, en orðið er, fylgi hann þessu gögleríi, út í eitt. Heldur kysi ég, að geta sótt Bjarna heim; í hans bókhlöðu, eftirleiðis, fremur en, að hann settist á Alþingi, fyrir hönd þessa líka flokks.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 14:36
Hlakka til að hitta þingmanninn Bjargna í lobbísal Alþingis eftir kosningarnar. Áfram svo!
Lýður Pálsson, 5.5.2007 kl. 22:44
Þú segir allt rétt með trúðslæti þeirra félaga og vonandi er það rétt líka Baldur að kjósendur séu ekkert endilega á eftir slíku. Held reyndar að þeir félagar séu báðir góðir "fyrir sinn hatt" en það er bara ekki það sem okkur vantar, þessi vinnumiðlun er búin að gera nóg af sér í bili, finnst þér ekki...????
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 5.5.2007 kl. 23:59
Ég er ekki viss um að þessi vinnumiðlun sé verri en aðrar. Hins vegar hef ég alltaf sagt að hinar ýmsu vinnumiðlanir þurfa að komast að stjórn landsins til skiptis til að jafnvægi skapist og nokkur sátt. Rétt væri þá að gefa stærstu vinnumiðluninni frí, ekki satt?!
Baldur Kristjánsson, 6.5.2007 kl. 08:25
Jú Baldur, þar er ég þér sammála, hinsvegar er einhver skemmd í þjóðarheilanum sem gerir það að verkum að henni vex bara ásmegin?
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 6.5.2007 kl. 21:31
Ég held að Sunnlendingar, amk Árnesingar séu þess fullvissir hvern mann Bjarni hefur að geyma og vita þar með að hann á erindi á þing umfram marga aðra. Mér finnst ekki endilega hafa verið gerður úr honum trúður...er það nokkuð?
Hins vegar varð ég jafnhissa og þú þegar ég heyrði í fullorðnu fólki sem aldrei myndi kjósa Samfylkinguna eftir biðraðasamkomuna á 1.maí. Það var svo kalt...og það var örugglega Samfylkingunni að kenna!
Fólk þarf að hlusta á hjarta sitt. Ekki ytri umgjörð, gylliboð og darraðadans. En það er kannski bara klisja...hmmmm.
Sigþrúður Harðardóttir, 6.5.2007 kl. 23:11
Hoppurólupólitík er alveg myljandi fínt orð, sem mætti líklega nota um fleiri í baráttunni um þessar mundir. Það er líklegt að við fáum að sjá hoppurólupólitíkusa sem aldrei fyrr á endasprettinum
Guðmundur Örn Jónsson, 6.5.2007 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.