Miklar kröfur í samræmdu prófunum
7.5.2007 | 13:43
Ef ég ætti hatt myndi ég taka ofan fyrir þeim sem ná góðum árangri í samfélagsfræðiprófi samræmdu prófanna. Það próf var í morgun, mánudag. Til þess að standa sig vel í þessu prófi í samfélagsfræði þurfti yfirgripsmikla þekkingu í þjóðfélagsfræðum, veðurfræðum og sagnfræði svo einhver þrjú svið séu nefnd. Ofaní kaupið góða rökhugsun og ályktunarhæfni og einbeitingu. Þó prófið væri ekki langt þurfti töluvert til að leysa það af sæmilegu viti og það virtist mér að margir krakkar gerðu í skólanum þar sem ég er trúnaðarmaður menntamálaráðuneytis, fulltrúi stjórnvalda hvorki meira né minna settur til þess að fylgjast með að allt fari fram samkvæmt settum reglum.
Enska, danska og íslenska eru búin nu á þessu vori auk samfélagsfræðinnar. Ég ætla ekki að dæma íslenskuna, en ævintýralegt er hvað ætlast er til mikils af krökkunum í ensku og dönsku. Þau kunna hundrað sinnum meira en við sem þreyttum landspróf á sjöunda áratug síðustu aldar. Raunar spyr maður sjálfan sig af hverju Íslendingar setja sér ekki það markmið að verða tvítyngd þjóð. Það vantar ósköp lítið upp á það að þessir krakkar verði fljugandi fær í ensku, helst æfingu og áframhaldandi æfingu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög áhugaverð hugmynd hjá þér Baldur, að Íslendingar settu sér það markmið, að verða tvítyngd þjóð, í þeim skilningi að ráða vel yfir ensku tungutaki og ritmáli. Til þess að svo megi verða þarf að byrja kennsluna strax við upphaf skólagöngu, og sannleikurinn er sá að ungviðið, heldur tveimur og jafnvel fleirum tungumálum algerlega aðgreindum. Þetta má þó ekki verða á kostnað góðrar íslenskukennslu.
Gústaf Níelsson, 7.5.2007 kl. 17:16
Þar kom að því að við erum sammála...Kv.
Baldur Kristjánsson, 7.5.2007 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.