Hópur hæfra stjórnmálamanna dagaði ekki uppi......
23.5.2007 | 08:15
Hin nýja stjórn er til alls góðs líkleg og full ástæða til þess að óska henni góðs gengis í upphafi. Af verkum hennar ræðst framtíð vor. Þó læðist að mér sú tilfinning að þetta gæti orðið sviplaust svona eins og stórmeistarajafntefli hjá Petrosjan voru gjarnan. Hvað verður í Evrópumálum? Vill helmingur stjórnarinnar teygja sig í átt til Evrópu, hinn sitja heima. Hvað með stóriðju? Vill helmingur stjórnar virkja og steypa ál en hinn hlutinn bíða og njóta landsins. Hvað með einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum? Vill helmingur einkavæða.......? Það sem ég óttast með öðrum orðum er að innan stjórnarinnar sé ekki raunverulegt samkomulag um hvert eigi að stefna með íslenskt samfélag. Ráðherralistarnir endurspegla þetta nokkuð. Endurspegla raunar tvö tímabil í sögu mannsandans. Listi annars stendur fastur í hefðinni -hefði alveg eins getað verið saminn um leið og guðspjöllin, sex karlar og ein kona (forseti Alþingis ráðherraígildi, hefur einkabílstjóra). Hinn listinn er í fullum trúnaði við nútíðina, þrjár konur, þrír karlar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður minnt mig á trúfélag og forystumenn hans eru greinilega ekkert hræddir um að kjósendur hrökklist burtu.
Ég hékk í gærkvöldi fyrir framan sjónvarpið og upplifði nokkuð sem var einnig einkennandi fyrir Viðeyjarstjórnina 1991-1995. Nýbakaðir ráðherrar Sjálfstæðis vörðust allra frétta en hinir nýbökuðu þingmenn Samfylkingar tjáðu sig óspart við fjölmiðla..um hvað þeir ætluðu að gera..um það hvað þetta væri allt saman glæsilegt og gott...það var einna líkast því að fólk væri að dásama meirihlutastjórn Samfylkingar. Vonandi veit þetta allt saman á gott en ég man hvað fjölmiðlagleði Jóns Baldvins og félaga fór í taugarnar á Sjálfstæðismönnum á sínum tíma. Hinir nýbökuðu létu eins og þau gætu gert helling af hlutum upp á sitt einsdæmi. Við skulum ekki gleyma því að Stjórnarflokkur landsins hefur í hendi sér lykilráðuneytin þrjú..forsætis, fjármála og dómsmála og er því líklegur til að ráða ferðinni. Að auki hefur Sjálfstæðisflokkur það ráðuneyti þar sem tækifæri eru til mikilla framfara, heilbrigðisráðuneyti. Samfylkingin fær þau ráðuneyti sem líklegust eru til að valda mestum deilum og togstreitu: Orkumála -og umhverfisráðuneyti.
Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þetta þróast. Ekki mun ég leggjast í stjórnarandstöðu frekar en fyrri daginn enda margt í stefnu þessara flokka, einkum þó Samfylkingar, sem mér líkar býsna vel. Og eitt af því góða við þessa stjórn er að hópur hæfra stjórnmálamanna og kvenna dagaði ekki uppi en fær að láta til sín taka og þar fer Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auðvitað fremst í flokki.
Góða ferð.
Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.