Hólmavík - þar sem lognið á lögheimili
17.5.2019 | 22:02
Ók til Hólmavíkur í gær. Fór Holtasvörðuheiði, Hrútafjörð, Bitru og Kollafjöð þ.e. norður Strandir. Rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta er geysilega falleg leið. Útsýnið þegar keyrt er niður í Kollafjörð er þannig að manni líður á kafla eins og maður sé innan í póstkorti. Leiðin heim til höfuðborgar um Steingrímsfjarðarheiði, Saurbæ og Dali er líka stórfengleg. Á leiðini norður rifjuðum við upp bæjarnöfn, nöfn á eyjum, fjöllum og dölum en mundum ekki annað úr bókmenntum en framhjágöngu Þórbergs sem er dásamleg frásögn. Athygli vakti að ekki er búið að slitleggja nema um helming leiðarinnar norður Strandir og um leið hvað maður er orðinn mikið verri í því að keyra á möl frá því sem áður var. Úr þessu þyrfti að bæta því þetta er,eða ætti að vera, öflug ferðamannaleið. Þessi hringur vow. En frösku kartöflurnar í Staðarskála ollu vonbrigðum. Ég var í sveit á Bálkastöðum hjá Eiríki og Sigríði þegar Staðarskáli var opnaður 1960 eða 1961 og borða þar alltaf þegar ég er á ferðinni í minningu Magnúsar stofnandi staðarins. Hitti Eyjólf, tvíburabróður Arnars, en þeir voru fimm ára gerpi þá, bræður Óla Jóns sem er jafnaldri minn. Ég man að við stukkum 3,75 í langstökki. Þetta eru börn Gunnars og Jóhönnu sem bjuggu í hinu húsinu. Þekkti ekki Eyjólf en hann þekkti mig. Glöggur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka góða ferðalýsing.Upp rifjast minningar. Ég kom fyrst að Stað í Hrútafirði un 1950 en mig minnir að næst ár hafi Magnús sett upp bensínsölu og sjoppu. Ég var að fara í sveit sem varð sveitin mín í mörg á eftir og reyndar enn.
var þess aðnjótandi að fá að gisti hjá presthjónunum en þangað náðu Bóndinn að Dalgeirstöðum í mig og fórum við yfir hálsinn upp frá Brandagili og framhjá Hólmavötnum sem tilheyrðu Húki í Vesturárdal eins og Dalgeirstaðir sem voru austanmegin í Dalnum og framsóknarfólk en Húkur sjálfstæðisfólk svo auðvita var vegurinn lagður þangað fyrst.
Þú minntist á Bálkastaði en Guðmundur Jónsson bóndi sem var frá Huppahlíð átti skyldmenni að Bálkastöðum svo oft talað um fólk þar á bæ.
Valdimar Samúelsson, 19.5.2019 kl. 17:52
Svo má ekki gleyma lestarferðunum norður á strandir að ná í staura fyrir mæðiveikisgirðingarnar.
Valdimar Samúelsson, 19.5.2019 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.