Nöldrað á móti Víkverja

Fyrir nokkrum dögum var Víkverji Moggans að býsnast yfir því af hverju menn væru að blogga. Niðurstaða hans var sú að vel tengdir og vel upplýstir bloggarar gerðu gagn í samtíðinni.  Lítt skiljanlegt væri hins vegar hvers vegna hvelftin af hinum væri að skrifa hluti opinberlega sem ættu í raun og veru aðeins erindi til fjölskyldu og vina. Í öllu falli gerðu slíkir lítið gagn.

Ég er ósammála þessum blaðamanni. Hann er að hrósa, finnst mér, áhugablaðamönnum um pólitík og meta framlag þeirra meira en annarra. Sumir ef ekki flestir þessara bloggara eru spunameistarar, tengdir ákveðnum flokki og hlutverk það sem þeir hafa tekið sér er að mála allt grænt eða blátt eða rauðbleikt eða “frjálslynt”.  Sumir í hópnum hafa reyndar litla málningu meðferðis og eru  vel tengdir og skipulegir í hugsun og skrifa á bloggið sitt greinar um pólitíina nær daglega. En gallinn við báða þessa hópa og gallinn við þetta blogg er að skrif þeirra hverfast venjulega um pólitískan vindgang í okkar pínulitla stjórnkerfi og hefur í raun og veru fjarska lítið gildi.

Stór er síðan sá hópur sem kommenterar á fréttir gjarnan í spaugsömum tón eða hnyttnum.  Margir í þessum hópi skrifa svolítið um sjálfan sig stundum bitastæðar greinar um hugðarefni sín gjarnan á fagsviði sínu, t.d. um mannréttindi eða málefni dómara eða um leiklist eða þá bækur, já eða plötur. Eru kannski aktívir í þrjá daga og liggja svo niðrí í tvo.  Margt af því sem einstaklingar í þessum hópi skrifa er ágætt, gott og frábært og yfir höfuð finnst mér þessi hópur verðmætastur.

Um þriðja hópinn ætla ég ekki að fjölyrða en vissulega er þar aldarspegill sem síðar má líta í. Það er fólk sem skrifar um það sem á daga þess drífur, heldur e.k. dagbók á netinu.  Ég ætla ekki að gera lítið úr skrifum þessa fólks þó að skrifin eigi mismikið erindi. Höfundarnir eiga lof skilið fyrir hugrekki og hreinskilni oft á tíðum og sjálfsagt fá  þeir eins og hinir hóparnir svolitla ánægju út úr því að vera til sýnis. (Samfélagið hefur séð þig, þú ert til, jafnvel elskaður og dáður). Það er sama drævið og stjórnmálamenn og blaðamenn, leikarar og prestar ganga gjarnan fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Heyr heyr Baldur! Góð skilgreining og skemmtileg - og alveg sammála þér.

Viðar Eggertsson, 5.6.2007 kl. 21:16

2 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Eru  Víkverjarnir farnir að óttast samkeppnina úr blogginu? Víkverji var  fyrsti bloggarinn á landinu, og eins og með okkur hina bloggarana er hann stundum lélegur en á það svo til að hitta í mark

Guðrún Sæmundsdóttir, 5.6.2007 kl. 21:57

3 identicon

Fróðlegt að sjá prest skigreina stétt sína með stjórnmálamönnum og leikurum sem auðvitað er rétt. Ekki alveg sannfærður um að blaðamenn eigi heima í því sama mengi. E.t.v. eðlislíkari kennurum, sem líka þurfa athygli og fá hana í starfinu.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 22:56

4 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Gaman að þessari pælingu. Sjálf tilheyri ég síðasttalda hópnum og hef ekki nokkra minnimáttarkennd þó ég nenni sjaldan að blogga um fréttir og fréttatengt efni. Nógu margir sjá víst um það.

Mitt blogg hefur einn tilgang. Það er vettvangur fyrir fjölskyldu og vini til að fylgjast með því hvað á daga okkar drífur og hvað ég er að hugsa hverju sinni. Ekki síst er það hugsað fyrir þann stækkandi hóp vina og ættingja sem búa erlendis.  Þetta á ALLS EKKI að hafa eitthvert menningarsögulegt gildi og var aldrei hugsað þannig.

Þeir sem nenna ekki að lesa um mig og mína, þeir lesa bara eitthvað annað!

Sigþrúður Harðardóttir, 5.6.2007 kl. 23:12

5 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Ég kynntist bloggi á haustdögum 2002 sem kennslutæki. Drengur af erlendu bergi brotnu skrifaði á bloggsíðu hvað á daga hans dreif. Ég fór fljótlega að feta í fótspor þessa drengs til að æfa mig áður en ég notaði þetta sjálf sem kennslutæki. Úr því hefur hins vegar ekki orðið en ég held fast við minn keip og skrifa eingöngu( eða næstum því) hvað á mína daga drífur. Sama hvernig bloggskrif hafa breyst, ég ætla ekki að breytast.

Guðrún S Sigurðardóttir, 6.6.2007 kl. 00:13

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Og  hvað  ef allir væru eins og kynnu og vildu það sama? Hvað kæmi manni þá óvart? Hvað gæti maður uppgötvað? Hvað væri þá gaman?

María Kristjánsdóttir, 6.6.2007 kl. 00:32

7 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

úps....drengur af erlendu bergi brotinn...átti það að vera!

Guðrún S Sigurðardóttir, 6.6.2007 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband