Ef álbræðslan rís.....?

Það er að heyra á fréttum að það gæti orðið Þorlákshöfn.  Rísi álver á annað borð er sennilega ágætt að það sé í Þorlákshöfn. Hér er nægt landrými og stutt í orku fáist á annað borð leyfi til að virkja.

Nú er ekkert atvinnuleysi í Þorlákshöfn en bærinn mætti vera stærri og atvinnulíf fjölbreyttara. Rísi álbræðsla fylgja margs konar störf af öllu tagi –þungavinnu og léttflibba – sóðaleg sem snyrtileg, létt og þung.

Það sem ræður því sennilega að íbúar Þorlákshafnar munu taka álveri tveimur höndum er að hingað komu menn til þess að sækja sér betri lífskjör, fastar og reglulegar tekjur, fólk flutti hingað til þess að vinna, hingað niðrí sandinn –úr uppsveitum Árnessýslu, úr lágsveitum Rangárvalla, frá Póllandi, úr Skaftafellssýslum, Vestfjörðum, Makedóníu, Litháen. Enginn kom hingað sérstaklega til þess að yrkja eða njóta náttúrunnar, kyrrðarinnar, þó að svoleiðis fólk hafi orðið til hér eins og annarsstaðar. Slíkar manneskjur settust frekar að í Hveragerði. Þessar manneskjur grípa fagnandi framboði af atvinnutækifærum því störfin sem eru nú þegar eru flest láglaunastörf  og útheimta langan og strangan vinnudag.. Þess vegna mæta Alcan menn góðu viðmóti þegar þeir koma hingað að fjallabaki og eru hálf hrærðir eftir þær trakteringarnar sem þeir hafa fengið í Hafnarfirði.

Ég er hins vegar ekki hlynntur virkjunum í neðri hluta Þjórsár og teldi gott ef orkuna mætti fá úr iðrum Hellisheiðar. Ég er heldur ekkert mjög hrifinn af hinni miklu álvæðingu en vil þó fyrst og síðast sjá vel haldið og glatt fólk.  Og aukið framboð á vinnu ætti að hækka kaup, fólk ætti þá að brosa meira og flúorinn gerir tennurnar hvítar....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Er ekki bara hægt að setja upp kvikmyndaver í Þorlákshöfn, virkja fleiri Magnúsa Schevinga, eða reisa netþjónabú, garðyrkjubúskap mætti líka stunda með niðurgreiddu rafmagni, leggja niður kvótakerfið og fara að stunda smábátaútgerð, eða bara breiða út fagnaðarerindið, -er að lesa Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson, það er sko góð bók og mikið fagnaðarerindi án greinis -ætla að vitna í það á morgun eða nánar tiltekið í Mattheusarguðspjall...

María Kristjánsdóttir, 21.6.2007 kl. 23:26

2 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Sammála þér María - álið þarf ekki að vera málið!

Valgerður Halldórsdóttir, 21.6.2007 kl. 23:40

3 Smámynd: Pétur Björgvin

Áhugavert að það sé líklegra að sá sem leitar að stað til að setjast að á og yrkja velji Hveragerði umfram önnur pláss.

Pétur Björgvin, 22.6.2007 kl. 08:52

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Efast þú séra minn eftir allt sem hann "Óli í Álgarði" hefur fyrir þig gert í þessum efnum? Það kom berlega fram á margræddum fundi um "Álgarðinn" hér í vor að hann væri búinn að gera voða mikið fyrir okkur í þessum efnum og leggja fram mikla vinnu??? Karl Sigmar og að mig minnir Hannes á Hrauni sögðust ekkert vorkenna honum það þó hann þyrfti að taka á mót einhverjum útlendingum, töldu hann vera borgaðan til þess. Málið er, er allt tómt þvaður sem þar fer fram eða er eitthvert gagn að þvi, sem stundum reynist magurt. Set hérna með komment sem ég gerði á annari síðu fyrr í dag af sama tilefni.

Það er nú orðið svo varðandi hinar ýmsu stóriðjuhugmyndir í Þorlákshöfn, að við sem höfum fylgst með þeim öllum frá 1974 eða svo brosum nú bara í kampinn. Ekki það að okkur ætti að vera hlátur í hug nema síður væri, en það hafa dúkkað hér upp nokkuð reglulega, stórar hugmyndir og plön og hvort sem það er nú tilviljun eða eitthvað annað, þá hafa þessar uppákomur oftar en ekki tengst kosningaárum.

Það er nú sennilega ástæða þess að menn brostu bara enn og aftur góðlátlega núna á vordögum þegar upp komu þessi áform um "Áltæknigarð" og hugsuðu með sér "enn ein andskotans froðan". Ég hef nú sagt lengi, að fyrst Framsóknarmönnum á Suðurlandi tókst með einhverjum óskiljanlegum hætti að missa frá sér, í einhverri togstreitu í flokknum og þvert gegn öllum reglum í markaðsfræðunum, á síðustu metrunum, (menn voru í gamni og alvöru búnir að taka skóflustunguna) Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkrók að þá eru okkur allar bjargir bannaðar.

Allt sem upp hefur komið í umræðuna síðan hefur reynst endalaust þvaður og atkvæðakaup. Nú síðast er sveitarfélagið sjálft búið að setja peninga og hagsmuni sveitarfélagsins undir í ævintýramennsku við hörvinnslu, sem ekki ætlar nú í gang einusinni þrátt fyrir miklar byggingar og hundruð milljóna, (72 milljónir úr vösum bæjarbúa). Við hverju er svo að búast ???? Hinu er ég algerlega sammála að ekki verði farið í Þjórsá eftir orkunni til þess arna, ef svo ólíklega vildi til, heldur niður í jörðina ......

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.6.2007 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband