Okkar vestnorrænu samskipti....
3.7.2007 | 14:35
Var að lesa erindi utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar sem hún hélt upp á dönsku á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Húsavík 15. júní sl.. (Já, það er margt sem maður tekur sér fyrir hendur).
Þrátt fyrir það að Ingibjörg reyni að gera sem mest úr samskiptum landanna einkum á verslunarsviðinu fylgir manni við lestur þessa prýðilega erindis sú hugsun hvað samskipti íbúa Íslands, Grænlands og Færeyja eru í raun lítil. Bæði eru viðskipti milli landanna lítil (innan við 1% af útflutningi Íslendinga og innflutningi til og frá Færeyjum og miklu minna til og frá Grænlandi) en menningarleg samskipti eru einnig frekar fátækleg. Ingibjörg nefnir það nú ekki en ég held að ferðamennska milli þessara landa sé einnig lítil.
Þar ættum við að drífa okkur nefnilega þá kæmi hitt á eftir. Ástæðan er m.a. sú að enginn sér sér hag í því að bjóða uppá tíðar og reglubundnar ferðir og ódýrar til þessara nágrannalanda sem enn tilheyra þeirri krúnu sem við tilheyrðum, dönsku krúnunni. Það voru auglýstar dagsferðir til Grænlands hérna um árið en ég sé þær ekki auglýstar lengur. Engar borgarferðir til Þórshafnar eða Vestmanna virðast í boði.
Sjálfur hef ég einu sinni komið til Færeyja í kirkjukórsferð og flutti ræðu á dönsku sem enginn skildi. Aldrei hef ég komið til Grænlands. Þetta er skammarlegt en ég hef það mér til afsökunar að fæstir af minni kynslóð (fæddir um miðja síðustu öld) hafa gert betur. Margir verr. Það er ekki það að maður hafi alltaf legið heima. Síður en svo. Alltaf á þeytingi en þessi nágrannalönd hafa að mestu leyti lent í skrefinu miðju þegar haldið er út í heim.
Det var nu det en ræða Ingibjargar var flutt á dönsku, ágætri dönsku og þökk sé skólakerfinu og Andrési Önd að lesskilningur manns á því ágæta máli er prýðilegur. Tak for det. Kannski er það eitthvað í genunum líka sbr. sjónvarpsþátt í gær um kenningar um að reynsla forfeðranna skili sér í genasafn okkar. Já, spennandi þáttur og fróðlegur um nýjar veiðilendur í genetík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.