Kross á Hvalfjarðarströnd!
5.7.2007 | 09:33
Mér finnst kona í útvarpinu, Jóhanna Harðardóttir, vera á villigötum þegar hún mótmælir því að kross sé í merki sveitarfélags Hvalfjarðarstrandar og vísar til umburðarlyndis gagnvart öðrum og þess að íbúar játi margskonar trú, vísar til fjölmenningar sem sagt. Sjálf mun hún vera Ásatrúarmaður(Var að hlýða á snerru milli hennar og sveitarstjórans Einars Thorlacíus á Ruv 1 um nýtt merki sveitarfélagsins sem er samkvæmt deilunni hvalur með krosss í sporði).
Nú er fjölmenning ekki það sama og að ekkert megi. Hinsvegar er mjög mikilvægt að fólk beri virðingu fyrir viðhorfum og lífsmáta hvors annars svo framarlega sem hátturinn samrýmist almennum viðmiðunum um það hvað sé rétt og rangt og sé í samræmi við lög og reglur(sem aftur á móti taka mið af almennum velsæmisviðmiðunum). Þetta þýðir ekki að fólk verði að fela trú sína t.d. að taka niður krossa og húfur og slæður og skilja eftir heima hjá sér heldur á hver að flagga sínu án nokkurrar fyrirlitningar á því sem aðrir skarta enda leggja öll megintrúarbrögð áherslu á skilning og náungakæreik.
En hvað þá með kross í merki sveitarfélags? Nú er merki sveitarfélags ekki eitthvað sem við tilbiðjum, það þarf ekki heldur að vera sameiningarmerki eða tákn en það er í öllu falli sameiginlegt merki allra í sveitarfélaginu.Því er mikilvægt að táknin(táknið) sé tiltölulega óumdeilt a.m.k. meiði engan.
Krosstáknið ætti ekki að meiða neinn og þetta merki þjáningar og sigurs ætti varla að vera umdeilt. Ég hef ekki orðið var við það að Ásatrúarmenn og Múslimar á Íslandi, svo dæmi séu tekin hafi horn í síðu kristninnar og álíti hana af hinu illa. Iðkendur þessara trúarbragða eru hérlendis eins og víðast annarsstaðar öfgalaust og umburðarlynt fólk líkt og játendur kristindóms eru yfirhöfuð. Sem sagt fólk er yfirleitt öfgalaust og umburðarlynt (þar til einhver lukkuriddari fer að spila á ótta og tortryggni).
Krosstáknið er samt merki tiltekins trúfélags og ekki annarra trúfélaga. Krosstáknið er samt ekki í merki sveitarfélagsins vegna þess að það sé merki tiltekins trúfélags (þó þjóðkirkja sé) heldur vegna þess að þetta svæði býr yfir þeirri menningarlegu sérstöðu að þar starfaði eitt mesta trúarskáld í síðkristni Hallgrímur Pétursson. Hallgrímur ber að mínum dómi höfuð og herðar yfir trúarskáld 17. og 18. aldar í Evrópu. Hann var lengi prestur á Saurbæ í Hvalfjarðarströnd, er jarðsettur þar og þar er kirkja kennd við hann, tileinkuð honum. Það er því í hæsta máta eðlilegt að tákn sem vísar í líf og starf afrek- Hallgríms sé í merki þessa fólks. Af honum ættu íbúar Hvalfjarðarstrandar að vera hreyknir hann og sálmar hans kenndir við þjáningu er sá menningararfur sem þeim er einkum ætlað að líta til og varðveita og halda í heiðri. Þess vegna ber barátta gegn merkinu ekki merki um umburðarlyndi miklu frekar rangt sjónarhorn.
Ég efast svo ekkert um það að í merki margra sveitarfélaga megi finna tákn sem vísa í heiðni og það er i góðu lagi. Slík tákn sem lifa hafa yfirleitt mikla skírskotun til lífs og dauða, ná útyfir þröngan trúarskilning líkt og krossinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg er þetta ljómandi pistill.
Og næst verður líklega að fjarlægja krossinn úr merki Rauða krossins og að lokum verður að finna að en merkið + fyrir plús. Óttaleg ofurviðkvæmni er þetta í fólki.
krossgata, 5.7.2007 kl. 09:55
Þetta átti að vera "finna eitthvað annað en merkið ....."
krossgata, 5.7.2007 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.