Var nokkuð fljótur að hlaupa
20.7.2007 | 12:10
Sigurður Hreiðar klukkaði mig og ég fæ að hlaupa hring. Þetta er nú annars meiri vitleysan en upplyfting frá hinum gríðarlegu spurningum sem við fáumst við dagsdaglega. Sigurður Hreiðar blaðamaður m.m. meiru reit um árabil skemmtilegar greinar í Vikuna var það ekki?. Ég las þær yfirleitt og hafði gaman af (Hann leiðréttir mig ef þetta er vitleysa). Það sem veltur upp úr mér er þetta:
0.. Ég man að pabbi minn stóð grafkyrr á stofugófinu í óratíma þegar hann heyrði að Kennedy væri dáinn
1. Ég man að við vorum á Willis að ná í mjólk suður með sjó og vorum stoppaðir af verkfallsvörðum (sennilega 1955).
2. Ég man að við félagarnir úr Hagaskóla (Óskar, Dóri, Jói, (Tóti?),Kjartan, ég) fórum að sjá Bítlana í Laugarásbíói aukamynd. Við horfðum opinmynntir og hugfangnir á. Seinna frétti ég að þetta hefðu verið The Dave Clark Five.
3. Við bjuggum á Laugavegi 42 þegar ég fæddist. Bjuggum síðar á Fjölnisvegi 15 og í Bogahlíð 12. Ég gekk í Ísaksskóla, Melaskóla, Hagaskóla. Var í sveit á sumrin vestur í Saurbæ í Dölum. Áttum bæði Skoda og Möve hjól. Lífið var enginn dans á rósum.
4. Var aldrei klukkaður í að hlaupa í skarðið. Sé í augum barnanna nú hvað allir óska þess að vera klukkaðir. Þessi leikur býður upp á félagslegt einelti. Svipað og viðgekkst í dansskólum.
5. Ég var sendur á Laugarvatn og er því ML- ingur. Það var bæði lán og ólán. Jóhann S. Hannesson skólameistari hafði mest áhrif á mig af óskyldum.
6. Að mörgu leyti átti ég mín uppáhaldsár á Hornarfirði þar sem ég var prestur um tíu ára skeið. Fólkið þar er enn fast við mig.
7. Ég hef átt sex börn, fimm eru á lífi. Hef alltaf verið alltof hræddur um þau. Á tvö barnabörn sem eru jafn gömul yngstu mínum. Er ekki hræddur um þau.
8. Er haldinn akrofóbíu,lofthræðslu og flughræðslu sem er bagalegt því ég flýg mikið. Mér finnst lífið frekar erfitt og versnar frekar en hitt.
9. Hef fáa kosti nema að ég var nokkuð fljótur að hlaupa.
Það hlýtur að vera búið að klukka alla fyrst ég er klukkaður. Fyrir utan það að vera ekki klukkaður er það versta sem getur hent mann að enginn sinni því þegar maður klukkar og maður hleypur hring eftir hring og fellur eiginlega í gleymsku fyrir utan hringinn. Því treysti ég á þá sem koma oft inn á mitt vesæla blogg og hafa ekki verið klukkaðir svo ég hafi séð ss. Hafstein Viðar Ásgeirsson, Guðrúnu Sigurðardóttur, Jóhann Elíasson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Sigurlaugu Gröndal, Lýð Pálsson,Guðmund Örn Jónsson. Klukka þau. Og ég bið þá forláts sem ég gleymi og hafa ekki verið klukkaðir. Þeir hljóta hvort sem er að vera orðnir vanir eineltinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir klukkið, Baldur. Ef menn taka það mátulega hátíðlega er þetta í rauninni ágæt skemmtun. Þakka þér fyrir að minnast greina minna í Vikunni. Þær voru sumar skemmtilegar, ég vona flestar. Ég hef orðið fyrir því að þær hafa verið teknar orðréttar upp í önnur rit og jafnvel án þess að höfundar væri getið. -- Það gerir nú bæði sárt og klæja -- gaman að einhver skuli virða þær svo, verst að hann skuli ekki virða mig þess að geta mín með!
Saman gætum við kannski rifjað upp nokkur verkfalls(varða)-ævintýri úr verkfallinu mikla 1955 -- m.a. þegar Guðmundur Jaki hellti niður broddinum sem ég var sendur með í bæinn…
Kveðja
Sigurður Hreiðar, 23.7.2007 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.