Börn um börn frá börnum til barna
20.8.2007 | 08:58
Við höfum tvíbenta og skrítna afstöðu til barna. Út um allt sér maður fullorðna skamma elsku litlu börnin sín í skelfilegri rökræðu eins og þau væru litlir fullorðnir en ekki gjörólík fyrirbrigði. Meira í ætt við hvolpa en menn órökrétt tilfinningabúnt sem skynja hlýju og kulda en ekki rök og ekki siðmenningu. Úr þessari draumastöðu fer ekki að leysast alvarlega fyrr en um 8-10 ára aldurinn. En þetta átti nú ekki að vera um það heldur þetta:Á hverju sumri furða ég mig á því hvað ferðaþjónustuaðilar íslenskir gera lítið út á börn. Sérstök leikaðstaða fyrir þau er óvíða og ennþá sjaldnar auglýst t.d. í bæklingum frá Ferðaþjónustu bænda. Sumsstaðar eru vanrækt nær kubbalaus kubbaborð. Finnist rólur, sandkassar, vegsölt útivið er þeim gjarnan illa við haldið. Veitingahús og skálar hirða yfirleitt ekkert um þarfir barna nema hvað sjoppurnar og verslanir stilla sælgætinu upp í smábarnahæð. Í augnablikinu man ég bara eftir tveimur veitingahúsum sem sinna börnum. Þar fer fremst í flokki vegaveitingahúsið Baula í Borgarfirði með sérstakan garð fyrir börn til að leika sér í, garð fullan af leiktækjum, vel girtan garð. Bravó fyrir fólkinu sem rekur Baulu. Hinn staðurinn er McDonalds í Faxafeni í Reykjavík þar er leiktækjahorn (og börn fá leikföng með sér sem er vafasamara).Nú vantar ekki kurteisina og elskulegheitin gagnvart börnum og foreldrum þeirra hjá gistiþjónustuaðilum. Allt fyrir mann gert og þar liggur kannski hundurinn grafinn maður fær iðulega ekkert að borga fyrir börnin. Miklu betra væri að koma á staði þar sem leikaðstaða væri fyrir börn úti og inni og borgað væri fyrir þau. En eins og fyrri daginn munu þeir aðilar fá peningana mína sem bjóða upp á skemmtilega og örugga leikaðstöðu fyrir börn því að börn þurfa að leika sér og börn hljóta að ferðast með foreldrum sínum. Og þetta verða menn að auglýsa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Velkomin aftur Baldur. Ég hélt að þetta hefði nú eitthvað lagast frá því ég var að rúnta um landið með börnin mín í tjaldútilegum hér og þar hér á árum áður sem var frá árunum 1981 til 1993. Ég held að þeir sem reka þjónustu við ferðamenn verði að taka sér tak. Reyndar var ég á Flúðum, nánar tiltekið á tjaldstæðinu þar helgina 27. til 29. júlí s.l. og fátt var þar að gera fyrir börn. Reyndar voru margir fullorðnir þar svo uppteknir að skemmta sér að ekki gafst tími til að sinna börnunum. Börnin eru framtíð þessa lands og betur þarf að búa að þeim.
Sigurlaug B. Gröndal, 20.8.2007 kl. 13:17
Gleymdu nú ekki hinum stórgóða veitingastað Greifanum á Akureyri, sem hefur alla tíð þjónustað börn gríðarlega vel með leiktækum o.fl. Og það er dásemd að fara í útlegu í Ásbyrgi, þar eru tjaldverðir með barnastund á hverjum degi þar sem farið er t.d. í ´kóngulóaskoðun , leiktæki víða og voðalega gaman. Mér skilst að tjaldsvæðið á Hömrum hér á AK. sé líka aldeilis frábærlega barnvænt................
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 20.8.2007 kl. 18:38
Sæl, kannski eru Eyfirðingar og Þingeyingar til fyrirmyndar í þessu sem mörgu öðru. Víða á landinu eru t.d. barnavænar sundlaugar en þó hvergi eins og við Þelamörk og á Akureyri(finnst mér). Kv.
Baldur Kristjánsson, 20.8.2007 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.