Formúlan æfð
20.8.2007 | 18:03
Þeir hjóluðu guttarnir eftir hringlaga braut eins hratt og þeir gátu og ég sá fljótt að þeir voru að stæla formúluna í sjónvarpinu. Sá það þegar þeir tóku sér viðgerðarhlé. Hjóluðu út af brautinni inn í runna, tóku power, eins og þeir orðuðu það með látum og inn á brautina aftur með smá aðrennsli. Þeir voru 6-8 ára sýndist mér, flottir, geysilega fljótir. Forréttindi að vera sex ára í dag, engin Möve hjól í klofinu á þeim. Þeir léku þetta alveg út í eitt.Eitt vakti athygli mína. Bara helmingur af þeim með hjálma. Þar eru foreldrar að bregðast. Sú ágæta hreyfing Kiwanishreyfing gefur öllum sex ára börnum reiðhjólahjálma með fulltingi skólanna. Foreldrar verð að sjá til þess að þeir séu notaðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll, þessi aldurshópur á hjólum er algjörlega frábær! Ég var að hjóla úr vinnunni í síðustu viku þegar ég "lenti inní" miðjum hasareltingarleik tveggja gutta á þessum aldri, kannski jafnvel aðeins yngri. Þeir geystust inn á stíg sem ég var á, aðeins fyrir framan mig og hjóluðu eins og bandvitlausir á undan mér, í sömu átt og ég. Fyrst hélt ég að þeir væru bara að keppa hvor við annan, en eftir því sem ég dró á þá, urðu þeir sífellt háværari, kölluðust á og hlógu og svo heyrði ég að annar varaði hinn við að "konan er að ná okkur" og mikið fliss í kjölfarið. Þá fyrst fattaði ég að ég var skrímslið, ógnvaldurinn, stóri, ljóti úlfurinn í leiknum þeirra og þeir voru á hröðum flótta en gátu þó ekki tekið eigin sköpunarverk, ógnina, nægilega alvarlega. Þá komu líka vöfflur á mig (með sírópi og rjóma takk fyrir) : átti ég að draga eftirförina á langinn eða drífa mig fram úr þeim, eða jafnvel taka þátt í leiknum með afdrifaríkari hætti? Það varð úr að ég fór fram úr þeim án þess að gefa neitt uppi um hvort ég hefði yfirleitt tekið eftir þeim eða hlutverki mínu. Guttarnir hafa líklega verið hálfsvekktir með frammistöðu óvinarins í leiknum.
LKS - hvunndagshetja, 20.8.2007 kl. 23:15
Skemmtileg athugasemd hjá þér. kv. B
Baldur Kristjánsson, 20.8.2007 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.