Herðubreið komin út- Jafnaðarmenn þenja út brjóstið!
31.8.2007 | 09:24
Jafnaðarmenn hafa eignast sitt tímarit aftur. Herðubreið er komin út. Burðargreinin er: Hver er Steingrímur J. Ritstjórinn Karl Th. Birgisson hefur lesið allar þingræður Steingríms í 25 ár og dregur upp óvægna mynd af forsárhyggjumanni, stjórnmálamanni sem vill hafa vit fyrir fólki og skipuleggja allt út í ystu æsar þ.m.t. markaðinn. Greinin er satt að segja hrollvekja (þ.e. vekur hroll). Þess ber þó að geta að fæstum fer vel að vera metnir í gegnum gler tímans. Gaman væri að fá úttekt á öðrum forystumanni sósíalista frá svipuðu tímabili svona til samanburðar.
Þetta er pólitískt tímarit, að sjálfsögðu og stefnan er sett á evru og Evrópu. Temað er ekki síst það hvað krónan er óhagstæð landsbyggðinni. Ólafur Ísleifsson, Björgvin Valur, Þorvaldur Gylfason og Árni Páll Árnason fara ekki neinar grafgötur með það að lífsnauðsynlegt er fyrir þjóðina að skipta krónunni út. Herðubreið er hið smekklegasta rit, 100 blaðsíður, nokkuð skemmtilegt yfirlestrar. Má þar nefna sem skemmtilestur reynslusögu frambjóðenda eftir Róbert Marshall þar sem hann upplýsir ýmislegt t.d. hvernig Magnús Þór Hafsteinsson talaði um útlendinga á framboðsfundum og af hverju ekki var hjólað meira í Árna Johnssen.
Herðubreið er skyldulesning fyrir alla þá sem hafa áhuga á þróun samfélagsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.