Líkfylgdin!

Ung stúlka með hnút í hnakkanum brunar frammúr líkfylgdinni og rétt hefur þaðframmúr líkbílnum sem ekur eins og hann eigi lífið að leysa. Bílarnir sem koma á móti slá ekki af.  Einn dregur þó úr ferð og fer út í kant –mér sýnist það vera Pólverjarnir vinir mínir.  Á gatnamótum smyglar fólksbíll sér inn í fylgdina. 

Einu sinni stoppuðu allir sem mættu líkfylgd og karlar tóku ofan.  Menn sýndu þessari tegund bílalestar þá virðingu sem þeir gátu.  Nú gossa allir eins og þeir frekast geta, besta fólk.  Ég man ekki lengra aftur í þessu tilliti en 1985. Þá hægðu menn á sér í Hornafirði eða stoppuðu.  Einu sinni eða tvisvar skrifaði ég þó vandlætingapistil í Eystrahorn eins og þennan undir þeirri nothæfu heimspekiformúlu: Heimur versnandi fer.  

Nú er ég ekki að skrifa um hart þéttbýli eins og í Reykjavík. Þar týnast og tvístrast líkfylgdir á hverjum degi og fólk kemur grátandi upp í Gufuneskirkjugarð of seint eftir að hafa villst um alla borg. Sennilega lítið við því að segja. Ég er að tala um tiltölulega fáfarna vegi þar sem ekki dylst í umferðarþunganum hvað er á seyði. Þar ætti fólki að vera í lófa lagið að auðsýna svolitla virðingu. 

Það hefur gleymst að kenna þetta. Þetta hefur dottið út sem siður. Að mínu viti á að kenna þetta í skólum undir hugtakinu menning eða siður. Ég vil að sá siður komist á aftur úti á landi a.m.k. að fólk sýni líkfylgdum tilhlýðilega virðingu. Stoppi. Taki ofan. Fari ekki frammúr. 

Og ég hef grun um að það hafi ekki verið af forvitni sem vinir mínir Pólverjarnir hægðu á og hreyfðu sig út í kant. Ég hef grun um að þeir hafi alist upp í samfélagi sem heldur betur en okkar í góða siði og almennilegar hefðir. 

Við Íslendingar ættum margt að geta lært af því fólki sem flytur hingað frá mið Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ég tel þetta vera einkenni á stærra vandamáli, sem er að fólk almennt sýnir minni virðingu fyrir einu eða neinu, nema því sem snýr að því sjálfu. Svo er að gera það sem maður kemst upp með. 

Ólafur Þórðarson, 15.9.2007 kl. 17:25

2 identicon

sælir....alveg sammála, vantar allt sem heitir kurteisi og virðing.

Annað tilefni að vísu, en t.d. var ég í giftingu í Tékklandi (þar sem ég bý), og keyrði í fylgd með brúðhjónum, þar stöðvaðist umferð og hleypti allri fylgdinni inn á aðalbrautir, og fólk flautaði (í virðingarskyni) osv.frv. 

Ég hef séð til líkfylgdar og umferðin sýnir þá tillitssemi sem við á....þótt að ég sé nú ekki alltaf hrifinn af umferðarmenningunni annars hérna !

Vantar svolítið þennan "virðingar" kúltur heima...t.d. var ég í lyftu hér og það voru 10-12 ára grallarar í lyftunni, en þeir buðu góðan daginn og sögðu bless, því við vorum fullorðin í lyftunni með þeim...þótti það sjálfsögð virðing...og þetta er ekki einstakt dæmi um kurteisi barna og unglinga hérna.

Þennan kúltur vantar svolítið heima held ég, og þyrfti hreinlega að kenna í skólum, því ekki gera foreldrarnir það.

kveðja,

E.

eman (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:12

3 identicon

Í Þórshöfn (Færeyjum) á lýsing Baldurs enn við: Stansað á gangstéttinni, tekið ofan og numið staðar uns líkfylgdin hefur farið hjá. Enda eiga Færeyingar máltækið: "Illt er at vera seinur, men verri er at skunda sær."

Auk þess er líksöngur allur á ábyrgð þeirra sem fylgja.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:25

4 identicon

Leiðrétt: Ringt er at vera seinur ........

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:28

5 Smámynd: Ár & síð

Hvernig væri að láta þá sem aka bíl í líkfylgd hafa t.d. sérstakan fána eða merki sem gefur til kynna hvað er í gangi? Annars hafa aðrir í umferðinni ekki nokkurn séns á að vita hvað er í gangi.

Ár & síð, 16.9.2007 kl. 00:45

6 identicon

Hér í skagafirði er þessi siður enn við líði, hér fer engin framúr líkfyld þótt hún sé að fara frá Sauðárkróki lengst inn í sveit.  Tildæmis fer líkbíllin frá sjúkrahúsinu að kirkju bæjarins yfir stór gatnamót, þar beygir bíllinn til vinstri og umferð úr öðrum áttum stoppar á meðan líkfyldin keyrir framhjá, svo að líkfyldin verði ekki slitinn í sundur

Ingi Björn (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 10:13

7 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Hélt að allir kynnu á þetta, þar sem aðeins tvær akreinar eru.  Bara að hægja á sér og lulla í friði og ró á eftir líkfylgdinni, og íhuga umhverfið og gæði lífs á jörð, og kveðja þann látna í huganum með Guðs blessun.  Lítið mál.  Verra við að eiga í henni Reykjavík, þar sem 3-4 akreinar eru, og menn iðulega að flýta sér upp á líf og dauða...nú og eða í "opinn dauðann",  allt eftir aksturslagi og árvekni ökumanns Þar væri alveg brilliant að "merkja" líkbílinn með litlum íslenskum fána eða jafnvel sérstökum "sorgarfána"!  Ekki það slíkt myndi algerlega í veg fyrir "framúrakstur", en gæti samt verið til að ýta við ökuþórum.

Sigríður Sigurðardóttir, 16.9.2007 kl. 12:00

8 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Sammála þér Baldur með virðingarleysið fyrir hinu og þessu.

Held samt að svona hluti eigi að kenna heima, ekki síður en í skólanum. Mannasiði eiga börn að læra heima hjá sér og iðka svo í skólanum :-)

Sigþrúður Harðardóttir, 16.9.2007 kl. 22:00

9 identicon

Sæll Baldur !!  Að sjálfsögðu þarf að kenna að hægja á og sína virðingu.  Ég tel samt að þetta sé einn þáttur í þessu hraða, hlaupsamfélagi.  Og eins og Sissa segir þá eiga börnin auðvitað að læra þetta heima,- lausnin er ekki að dengja öllu á skólann,- en það þarf líka að gera heimilum kleift að sinna börnum sínum, og þar held ég að hundurinn sé grafinn,- ótrúlega djúpt grafinn.  Það þarf að breyta þessu " sá sem á mest dót ( og skuldir) þegar hann deyr" viðhorfi í þjóðfélaginu, að fólki finnist eðlilegt að vinna 6-7 tíma á dag og sinna síðan fjölskyldunni,- og þurfi ekki að eiga ja liggur við allt.....

Þórh.Helga (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 23:48

10 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er alveg rétt hjá ykkur Sissa og Þórh.  Heimilin ættu að sinna þessu. Hvernig væru að heimili og skóli gerðu með sér skriflegan samning þegar börnin væru sex ára þar sen tilgreint væri hverju heimilin ættu að sinna og hverju skólinn.  Hlutverk heimilis og foreldra,fjölskyldu er eitthvað sem er ákaflega óljóst þeim sem eiga að heita höfuðin á þessu fyrirbrigði þ.e. foreldrunum. kv.  B

Baldur Kristjánsson, 17.9.2007 kl. 09:30

11 Smámynd: Vignir Arnarson

Nei Baldur átt þú ekki að gera þetta?  

Vignir Arnarson, 17.9.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband