Merkur klerkur og fljótandi hlutverk heimila!
17.9.2007 | 11:23
Ágætt viðtal við kollega Kristinn Ágúst Friðfinnsson í sunnudagsblaði Moggans. Kristinn er einn af þessum snillingum innan kirkjunnar sem seint verður metinn að verðleikum og ætti auðvitað að vera höfuðklerkur í einni af höfuðkirkjum landsins. Kristni verður tíðrætt um uppeldismál og talar þar af reynslu því að fjöldi manns leitar sálgæslu hans vegna vandamála sem koma upp þegar unglingurinn fer að verða stjórnlaus og ráðvilltur. Kristinn hefur mælt með því að foreldrar geri samning við barnið sitt. Þú gerir þetta og þá gerum við þetta o.s.frv., eftirtektarvert mál.
Ég var að raupa um það í síðasta pistli að skólinn ætti að kenna siði og venjur og fékk þau svör í athugasemdakerfinu frá reyndu skólafólki að þetta ættu heimilin e.t.v. að sjá um. Mikið rétt. Mitt sjónarhorn er hins vegar það að hlutverk heimilanna hafi farið á flot í nútímanum. Harkaleg innreið okkar í allt annars konar menningu í gjörbreytt samfélag hafi leitt til ákveðins siðrofs. Við gleymdum að taka með okkur æskilegt nesti frá því kyrrstöðusamfélagi sem var. Höfum enga arfleifð til að líta til. Við erum svona eins og kristindómurinn væri án gamla testamentisins, engar alminnilegar reglur til að fara eftir (bið þá sem hugsanlega kommentera að gleyma sér ekki yfir þessu dæmi).
Því er ég að tala um þetta og viðtalið við Kristinn Ágúst að mér finnst að heimilin og skólinn ættu að gera með sér samning í upphafi skólagöngu. Foreldrar fengju að setjast niður með skólastjórnendum og umræðuefnið væri: Við gerum þetta og þið gerið þetta. Við kennum barninu þínu að lesa og skrifa og kennum því hvað höfuðborgin í Ungverjalandi heitir. Þið kennið því kurteisi, kennið því t.d. að tala fallegt mál og að gera ekki hróp að þeim sem eru öðruvísi á litinn og útskýrið hvers vegna o.s.frv. Svo setjumst við niður á misseris fresti og hökum við eftir því hvernig gengur. Ég er viss um að þessi aðferð myndi vekja upp löngu grafin og gleymd siðræn hlutverkagen hjá fjöldamörgum foreldrum.
Ég hef ekki átt barn í sex ára bekk um nokkurn tíma en það líður að því og þess vegna er þekking mín á þessu sem öðru í molum. Þetta er kannski gert, er það?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Kristinn er einfaldlega frábær maður. Hann hefur hjálpað öðrum drengnum mínum og okkur hjónum með viðtalstímum, vildi að fleiri gætu notið skynsemi hans og kærleiks. Vonandi geta fleiri kynnst hans sýn og lífið og hlutina.
Ásdís Sigurðardóttir, 17.9.2007 kl. 12:09
Viðtalið við Kristinn var mjög fróðlegt og þetta var gott viðtal. Að hafa einhvern til að tala við er ómetanegt og eru því góðir prestar og djáknar sem starfa bæði við skóla og kirkjur ómetanlegir. Góð sáluhjálp verð seint metin til fjár. Hvað varðar kennslu á siðfræði og umgengni er eitthvað sem hefur virkilega dalað í gegnum árin. Þegar ég var að alast upp, var manni kennt að standa upp í strætó fyrir öldruðum og barnshafandi konum, fylgjast með því út í búð að ekki væri gengið fram hjá börnum með afgreiðslu sökum smæðar, víkja til hægri þegar þú mætir manneskju á þröngri gangstétt og ekki síðast en ekki síst, þakka fyrir sig og sýna kursteisi. Í skólanum var kennd kurteisi, við stóðum upp í stofunni þegar skólastjóri gekki inn, það var farið í röð fyrir utan skólann áður en gengið var inn á gang. Þá var farið úr skóm og aftur farið í röð. Enginn settist í sæti sitt fyrr en kennarinn bauð til sætis. Þetta hafði góð áfhrif. Þetta finnst mér vanta dálítið í uppeldinu. Kannski er ég svona gamaldags.
Sigurlaug B. Gröndal, 17.9.2007 kl. 12:48
Talandi um ungdóminn get ég sagt frá þeirri reynslu minni úr strætó að æskan er mun kurteisari en eldra fólkið.
Því er hættara við að hreyta ónotum í vagnstjóra og haga sér oft svo dónalega að í raun ætti að vísa þeim á dyr. Við vagnstjórar þorum því auðvitað ekki fyrir okkar litla líf því þá yrðum við kærðir og í slíkum tilvikum hefur "viðskiptavinurinn" ávallt rétt fyrir sér og við fáum ákúrur.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.9.2007 kl. 17:05
Hvað gerir kirkju að höfuðkirkju annað en það sem þar fer fram?
Nú sem stendur er Þorlálkskirkja t.d. höfuðkirkja prófastsdæmisins í hugum þeirra sem vilja framgang tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar.
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 20:27
Sæll Glúmur! þetta er viljandi sett þannig fram að hver getur fyrir sig ákveðið hvað sé höfuðkirkja og kom mér t.a.m. í hug að kirkjan í Hraungerði væri þess verðug. Útskýrðu betur hvað þú vísar í með Þorlákskirkju. kv. B
Baldur Kristjánsson, 17.9.2007 kl. 20:36
Mér er sagt að söfnuðinum sé gefinn raunhæfur kostur á syngja safnaðarsálmana í messunum í Þorlákskirkju og finnst það bæði stór og góð frétt.
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 22:28
Væri ekki ráðlegt að færa "sálgæslu" í hendur fagmanna og aðskilja hana hindurvitnum?
Væri semsagt ekki nær að þessi þjónusta væri í boði óháð trúarbrögðum? Auðvitað snýst þetta þegar allt kemur til alls um kristniboð.
Ég legg til að eins og milljarður verði tekinn af Þjóðkirkjunni og í staðin verði ráðnir sálfræðingar og félagsfræðingar um allt land til að sinna sálgæslu almennings og skólabarna óháð trúarkreddum.
Matthías Ásgeirsson, 19.9.2007 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.