Hagsmunir barna bornir fyrir borð!

Ómeðvitað lítum við á börn sem minniháttar fyrirbrigði og reynum að sleppa sem best frá fyrstu árum þeirra. Að skelfilega litlu leyti miðum við líf okkar út frá þeim. Konur og karlar leggja sig í líma við að láta þau ekki spilla starfsframa sínum.  Börnin eru rifin út eldsnemma og vingsað milli bæjarhluta, sótt seint, sett í aðra pössun meðan farið er í ræktina., barnapían kemur um kvöldið. Þau eru dregin um búðir, skellt í bað, lesið fyrir þau úr bókum sem eru að uppistöðu myndir.  Frá tveggja ára aldri læra börnin meira af jafnöldrunum en foreldrunum.  Efnilegt.

 

Í Strassborg stendur nú yfir ráðstefna um rétt barna.  Grundvallarhugmyndin er sú að líta ekki á börn sem viðhengi með foreldrum og alls ekki sem minniháttar aðila heldur sem fullgildan einstakling gagnvart samfélagi og réttarkerfi. Alþjóðlegir og staðbundnir mannréttindasáttmálar eigi að ná til þeirra, fortakslaust, dómar eigi að taka mið af þeirra hag.  Málefni hælisleitenda eru t.d. ekki skoðuð næilega út frá sálarheill barna.

 

Það er ekki bara það að 10 miljónir barna undir 5 ára deyji á ári af völdum viðráðanlegra sjúkdóma.  Um allan heim eru hagsmunir barna bornir fyrir borð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Theódórsson

Nær jafnréttisbaráttan ekki til barna? Það er talað um jafrétti kynja, samkynhneigra, innflytjanda osfrv. En barna? Sum börn búa við gott atlæti önnur ekki. Sum börn fá nægan tíma fá foreldrum önnur ekki. Er íslenska þjóðfélagsgerðin barnvæn? Til að komast sæmilega af þurfa í langflestum tilvikum báðir foreldrar að vinna fullan vinnudag utan heimilis, síðan við heimkomu byrjar heimilsverkin. Hvað með börnin? Þau eru á stofnunum á meðan foreldrar vinna. Vantar ekki valkost fyrir fjölskyldur sem vilja sinna börnum sínum betur. Þeir efnameiri hafa valkosti, t.d að annað foreldrið vinni minna utan heimilis og sinni börnum meira. Vinnuframlag fólks utan heimils er metið að verðleikurm, en hvað með heimilsstörf. Heima vinnandi húsmóðir/faðir er enn ólaunað starf. En ef einstaklingurinn ræður sig á stofnun við að annast annarra manna börn er greitt fyrir það!

Elías Theódórsson, 18.9.2007 kl. 09:59

2 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er mikið til í þessu Baldur. Ég kenni heimilisfræði á unglingastigi og stór hluti unglinganna borða aldrei við matarboðið með foreldrum, heldur borða þau gjarnan við tölvuna eða sjónvarpið. Það finnst mér mjög athyglivert. Í þessum gífurlega hraða sem að einkennir þjóð vora verður varla hægt að vonast breytinga. Það er jú mikið atriði að eiga stóran bíl, sumarbústað og aðrar gerviþarfir.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 18.9.2007 kl. 10:04

3 identicon

Mikið rétt gamli baráttufélagi. Ég reyndar bloggaði í dag um rétt barnanna út frá annarri hlið og nær Guðrúnu Þóru hér að ofan, það er um offitu barna.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 11:18

4 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Í nafni frelsis er mótmælt með ýmsu móti þeirri skyldu foreldra beita aga, veita umhyggju og standa sig í uppeldi barna. Það telst orðið forræðishyggja að standa fastur á útivistar- og svefntíma barna, hafa eftirlit með tölvunotkun barna og unglinga og jafnvel mataræði og drykkjarvenjum barna og unglinga. En bíðum nú við. Eru þau í stakk búin að bera sjálf þessa ábyrgð? Hvílir ábyrgðin ekki fyrst og fremst á okkur foreldrunum og jafnvel öfum og ömmum? Hafa þau alltaf þann þroska að velja og hafna? Í mínum huga fáum við börnin að láni, þau eru sjálfstæðir einstaklingar með sínar hugasnir, vonir og þrár  og .......það er okkar hlutverk að undirbúa þau til að takast á við lífið, bæði dökkar og ljósar hliðar þess og kenna þeim að standa á eigin fótum og að bera ábyrgð í hæfilegum skömmtum þar til þau geta séð um sig sjálf. Foreldrar þora ekki orðið að standa á sínu. Hvað eru margir foreldrar sem eru lenda í vandræðum með elsku ömmu og afa, frænku eða frænda sem endilega vilja gefa barninu sykrað gos og sælgæti þrátt fyrir einlægar óskir foreldranna um að gera það ekki. Foreldra upplifi ég í dag sem oft fulla af samviskubiti yfir því að vilja ala upp barnið sitt. Það er eitthvað sem ekki á að gerast.

Sigurlaug B. Gröndal, 18.9.2007 kl. 14:53

5 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Held að uppeldi í dag er svolítið flókið, auðvita hefur það alltaf verið það, en börn eru ekki lengur eign foreldra sinna. Þau hafa réttindi og sem betur fer var settur fram barnasáttmálinn sem ísland meðal annars á að fylgja.  Þar kemur fram að börn hafa ákveðin rétt.  Þau eru persónur sem smátt og smátt eru að hljóta meira sjálfstæði en áður.  Þetta setur foreldra og aðra uppalendur í svolitla togstreitu.  Auðvita eru börn ekki tilbúin að sjá um sig sjálf en samt sem áður þarf og á að gefa þeim sjálfstæði.  Börn eiga ekki lengur að bera virðingu fyrir fullorðnum, heldur eiga þau að bera virðingu fyrir öðrum. Börn eru ekki börn heldur persónur eða manneskjur.  Bilið hefur minkað milli barna og fullorðna og ný áskorun á uppalendur myndast.  Hættan er að gefa börnunum of lausan taum og aginn og reglurnar geta gleymst auðveldlega þegar börnin vita rétt sinn og jafnvel hvernig eigi að beita þeim til að stjórna foreldrum og kennurum.  Við erum pottþétt á réttri leið en við megum samt ekki gleyma að þrátt fyrir að börn séu persónur og mannverur eru þau líka bara börn sem þurfa á umhyggju, leiðsjón og aga foreldra sinna eða annarra uppalanda að halda.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 18.9.2007 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband