Íslenskan sem einangrunartæki!

Deili ekki þeim ótta sumra að íslensk þjóð sé eins og barnið í baðvatninu.  Sé tungunni hent fari þjóðin. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu hvað er hugsað á Íslandi, um hvað er talað, hvernig fólkið er innréttað. Hvernig manneskjur þetta eru sem hér búa.

 

Málið er samskiptatæki en getur einnig verið kúgunartæki þar innifalið tæki til að einangra og útiloka.

 

Ég sé ekki betur en að Írum vegni bærilega þó þeir tali ensku. Óvíða hef ég kynnst meiri þjóðerniskennd en í Úkraínu. Minni hluti Úkraínumanna talar þó úkraínsku, meirihlutinn rússnesku.  Í bæjum og þorpum nálægt landamærum eru þorp þar sem eingöngu er notast við tungumál nágrannaríkja.

 

Almenn rökvísi segir manni að betra sé að tilheyra stórum málhópi en smáum.

 

Óheppilegt er að eyða lífi sínu innan veggja tungumáls sem fáir botna í. Maður á möguleika að skilja fleiri og fleiri átta sig á tali manns í réttu hlutfalli við stærð málhólfs.

Aðgangur að bókmenntum og listum eykst í réttu hlutfalli við stærð málsvæðis.

 

Sé maður vís er gott að sem flestir heyri.  Sé maður fávís hefur maður gott af að heyra sem flest.

 

Það rífur skörð í veggina að læra tungumál síðar á æfinni en brýtur þá sjaldnast.

 

Nú er ég ekki að mæla með því að íslenskunni sé kastað.  Jafnvel þó hún sé fremur stirt mál eins og reglan er með tungumál sem eru notuð af fáum.  En þegar alið er á þeim ótta að íslenskan glatist þegar fólk af erlendum uppruna er ráðið á barnaheimili ...þegar alið er á sama ótta þegar stungið er upp á því að enska verði einnig notuð í viðskiptum.........þegar alið er á sama ótta þegar færð eru rök fyrir því að tvítyngd væri þjóðin betur á vegi stödd.....

 

Þá fnnst mér að farið sé að nota íslenskuna sem einangrunartæki.

 

Eftirmáli:  Las það að tvítyngdu fólki væri síður hætt við elliglöpum og Alzheimer. Umhugsunarvert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Baldur. Alþjóðahyggja getur ekki síður farið út í ofstæki og öfgar og þjóðernishyggja. Finnst skrif þín hér um íslenzka tungu bera þess vott að
þú sért kominn inn á mjög hálan ís, svo ekki sé meira sagt.............

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 22.9.2007 kl. 17:49

2 identicon

Guðmundur þar væri gott að fá rök fyrir því hvernig alþjóðahyggja geti leiðst út í ofstæki og örfgar. Annars sýnist mér að Baldur er ekkert sérstaklega að tala á móti þjóðernisást frekar á móti einangrunarhyggju. Skil ekki hvernig hann er kominn á hálan í með það...

Sjálfur finnst mér enskan mín vera betri en íslenskan og á á tíðum auðveldara með að tjá mig á henni. En það eru reyndar sérstakar aðstæður þar að baki.

Ég held að málin eigi eftir að þróast þannig (á næstu öldum) að fyrst verður sett á alþjóðlegt hjálpartungumál sem allir læra og geti þar með tjáð sig hvar sem er í heiminum á vandkvæða og síðan munu málin þróast þannig að það verði aðeins eitt tungumál. Þetta er, að mínu mati, hin óhjákvæmilega þróun þess að heimurinn allur er að verða eitt land og mannkynið hinir fjölbreyttu íbúar þess.

Með bestu kveðjum,
Jakob 

. (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 18:14

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Góður Baldur, Góóóður....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.9.2007 kl. 20:07

4 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sú alþjóðahyggja sem felur í sér að móta og staðla allt í sama mót er hættuleg, og
mun hér eftir sem hingað til vera uppspretta átaka og hörmunga í heiminum eins og mannkynssagan sannar. Þvert á móti eigum við að líta á margbreytileikann sem
kost en ekki galla. Að sérhver menning og þjóðeinkenni séu rétthá hvert  öðru og
eigi að fá að blómstra og vaxa á hinu mikilfenglega heimstré margbreytileikans.
Lít á sérhverja menningu og þjóðeinkenni mikilfenglegt spöpunarverk skaparans
sem beri að varðveita og styrkja. Því allt leitar til uppruna síns að lokum.
Þannig þjóðleg viðhorf án fordóma í garð annara þjóðeinkenna og menningarheima eru mun vænlegri til sáttar í heiminum en öfgakennd alþjóðahyggja sem ekkert tillit tekur til slíkra  grunnþátta mannlegs eðlis.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 22.9.2007 kl. 20:55

5 identicon


1Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð. 2Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að. 3Og þeir sögðu hver við annan: "Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi." Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks. 4Og þeir sögðu: "Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina."

5Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja. 6Og Drottinn mælti: "Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. 7Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál." ........................Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 21:07

6 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Það er buið að reyna þetta með esperanto gekk ekki

Jón Aðalsteinn Jónsson, 23.9.2007 kl. 01:08

7 identicon

Guðmundur - Það er alrangt að öll menning sé jafnrétthá. Menning og trú sem mismunar kynjum, beitir hrottafengnum refsingum og drápum, meinar þegnum að hugsa, rita tala eða njóta hluta. lista og hvers sem þeir kjósa sem ekki skaðar aðra ... það er ekki jafnrétthá menning okkar. Okkar menning er best vegna þess að hún er best við fólkið sitt, hún er alls ekki fullkomin og enn megum við laga til víða, en vestræn menning kemst næst því að tryggja öllum sínum þegnum jafna möguleika á að vaxa og dafna, tryggja jafnan rétt allra til allra gæða samfélagsins, jafnan rétt allra til lífs og lífsviðurværis. Það samfélag sem var skapað á norðurlöndum á 7. og 8. áratug síðustu aldar var það stórkostlegasta sem þessi jörð hefur nokkurn tíman séð, samfélag frjálsræðis, jöfnuðar, jafnréttis og mannúðar ... enn segi ég ... það var ekki fullkomið, en eins nálægt fullkomnun og enn hefur verið komist.

Samfélag sem refsar börnum með löngu fangelsi fyrir kjánaskap eða myrðir fólk sem hefur misst fótanna, það er ekki jafnrétthátt okkar

Samfélag/menning/trú sem umsker konur svo þær geti ekki notið kynlífs er ekki jafnrétthátt okkar

Samfélag/menning/trú þar sem fólk er limlest, hálshöggið, grýtt fyrir sakir svosem, hórdóm, hnupl, eða jafnvel svo lítið sem að ganga blæjulaus um meðal karlmanna, er ekki jafnrétthátt okkar

Samfélag/menning/trú sem mismunar eftir kynferði, hörundslit eða uppruna er ekki jafnrétthátt okkar

Davíð (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 13:11

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það fylgir því ákveðin dulúð að læra tungumál og kynnast þeirri menningu sem tungumálið hefur fóstrað. Dulúð íslenskunnar hefur laðað marga góða einstaklinga að okkar fábrotnu en einstæðu þjóðmenningu sem einmitt tunga okkar hefur fóstrað með miklum ágætum.

En bara svona til að stríða þér mátulega Baldur Strandarkirkjuprestur: Sérðu fyrir þér að messur, t.d. kaþólikka verði frelsaðar frá latínunni?

Mér er málið viðkvæmt, ég man ekki betur en afi minn hafi lært til prests í Latínuskólanum!

Árni Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 17:07

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Árni!  Ég er mikill unnandi íslenskunnar og íslenskrar menningar. Ég tel hins vegar að hvort tveggja sé það sterkt og seigt að það muni standast tímans tönn.  Ég held hins vegar að tímans tönn krefjist þess að við lærum önnur tungumál vel þar af eitt annað tungumál frá blautu barnsbeini eða því sem næst.  Við yrðum þar með ekki tvítyngd sem gerist aðeins ef menn alast upp við tvö móðurmál, en svona í áttina að því. Íslensk málstefna sem gerði ráð fyrir því og að íslenskan yrði styrkt og efld væri kannski besta leiðin til þess að íslenskan færi ekki út með baðvatninu.  Ég varpa þessu svona fram til umhugsunar en eins og venjulega tel ég mig ekki hafa hinn endanlega sannleika á valdi mínu enda kemur hann aðeins fram í mikilli (ogh fordómalausri) umræðu og skoðanaskiptum.

Jón Valur verður að svara okkur með það hvort að kaþólskir prestar lesi bara á latínu í messum?  þeir prédika á móðurmáli fólks er það ekki?  þó ég sé kaþólskur inn við beinið (þó ég kaupi ekki félagsmálapakkann) þá hef ég bara verið viðstaddur kaþólskar messur í Frakklandi, Ítalíu og á Spáni og hef ekkert skilið og gleymt að hugsa hvort verið var að tala þjóðtungu eða latínu.  Ég kann nefnilega ekki latínu og aðeins fyrir skömmu farinn að læra frönsku.  Kv. B

Baldur Kristjánsson, 23.9.2007 kl. 17:49

10 identicon

Sæll gamli vinur!

<<þú settir hugmyndir þínar fram af óvarkárni. Þú veist að sérstaðan er mikilvæg í heiminum. Ég er úti í Danmörku og kanadíski fyrirleasrinn á ráðstefnunni benti á í morgun að hefði sagan þróast öðruvísi hefði hann kannski haldið fyrirlesturinn um velferð búfjár á mállýsku af íslensku.

Auðvitað skiptir ekki máli hvaða tungu við tölum, en það skiptir máli að hafa vitund um sjálfan sig og sú vitund felst m.a. í tungunni. Írar tala ekki ensku, þeir tala ýmist gelísku eða mállýsku af ensku, en þeir skilja og geta tjáð sig á ensku. Ég heyrði í dag af ungu barni sem skipti á innan við mínútu milli fjögurra tungumála. Það er nauðsynlegt að byrja að kenna tungumálins snemma, þá er fjandans sama hvað fyrirtækin gera, en menning okkar byggir á því að við getum lesið og sungið "Íslands farsældar Frón...." eða "Hvað er svo glatt..." án þess að fletta upp í orðabók, þó að aðeins önnur melódían sé íslensk.

Skilaðu kveðju til Svöfu

Þorsteinn Ólafsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 22:57

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við getum talið upp þjóðir í tugatali sem viðhalda tungumáli sem fáir skilja og virðist samt ganga bara bærilega vel í hinni alþjóðlegu samkeppni. Nágrannaþjóðir okkar gera þetta og ég held að einmitt sú "Alzeimers-vörn" sem slíkt veitir sé af bara hið besta mál. 

Ég er sammála því að byrja enskukennslu mun fyrr en nú er gert á meðan barnið er á besta aldri til tungumálanáms. En ég er andvígur því að íslenskunni verði hrundið úr fyrsta sæti og vitna í bloggfærslu mína í dag, 25. september um þetta mál.

Við getum alveg keppt við Norðmenn, Finna, Dani  og aðrar af fremstu þjóðum veraldar án þess að slaka á hvað móðurmál okkar varðar. Vitna í orðtak sem séra Emil Björnssyni, sem við kynntumst báðir vel, var tamt, svohljóðandi: "Þetta ber að gera en hitt ekki ógert að láta." 

Ómar Ragnarsson, 25.9.2007 kl. 13:41

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sinnuleysi gagnvart íslensku móðurmáli getur ekki verið af hinu góða. Tungumálið er hluti af sjálfstæði þjóðarinnar. Ef við ætlum að kasta íslenskunni til hliðar sem samskiptatæki í þjóðfélagi okkar, er þá eitthvað eftir sem sameinar okkur sem þjóð, eða öllu heldur gerir okkur að þjóð?

Ef það eru komnar kröfur um að starfsfólk fjármálastofnana verði gert að hafa öll sín samskipti á ensku, afgreiðslufólk í verslunum skilur okkur ekki þegar við biðjum um þjónustu á okkar móðurmáli, gamalt fólk á öldrunarstofnunum er látið liggja í eigin saur, af því að þjónustufólkið skilur ekki íslensku, hvað er þá eftir af sjálfstæði okkar? Er það bara nafnið tómt?

Eða vorum við kannski aldrei þjóð, einungis fáeinir uppreisnarseggir sem flýðu hingað  frá Noregi, í bland við þræla frá Írlandi og franska og spænska sjómenn, sem rak hér á land og börnuðu þær innfæddu? 

Theódór Norðkvist, 26.9.2007 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband