Kristján B. Jónasson - fórnarlamb íslenskrar umræðuhefðar!
23.9.2007 | 22:13
Kristján B. Jónasson sem titlar sig formann félags íslenskra bókaútgenda er áreiðanlega hinn vænsti maður og kallar í bloggi sínu eftir áliti rithöfunda og þeirra sem eru í íslenskri málnefnd á stöðu íslenskunnar. Greinilega finnst honum umræðan ekki borin uppi af verðugum.
Pistill minn hér á blogginu sem ber heitið ,,íslenskan sem einangrunartæki fer þvílíkt í taugarnar á honum að hann telur mig vera í andlegri bóndabeygju eins og margir jafnaðarmenn eru í að hans dómi. Kristján situr djúpt í íslenskri umræðuhefð, hæðir mig miskunnarlaust með stílsnilld og hugarflugi: ,,Sjáiði piltar hvernig ég tók hann syndrómið er þarna á fullu. Honum varðar lítið um það hvað ég skrifaði en gerir mér upp skoðanir og gerir mér upp fávísi sem henta því sem honum finnst fyndið. Manninum er greinilega frekar illa við umræðu sem ekki er skipulögð af íslenskri málnefnd. Hann reynir að drepa niður umræðu í stað þess að taka hana upp og færa fram á veginn.
Í þessu bulli sínu afbakar hann allt sem ég sagði. Fóturinn undir málflutningi hans er rangur þ.e. ég tala aldrei um að íslenskan sé kúgunartæki. Ég nefni að tungumál geti verið það. Ég fjalla ekkert um hvað það sé að vera tvítyngdur. Ég er ekkert með einfaldar bollaleggingar um það að það sé hressandi fyrir sálina að taka upp nýtt tungumál. Grunnurinn að grein minni er sá, að þegar verið sé að ala á þeim ótta á íslenskan hverfi þegar innflytjendur séu ráðnir á barnaheimili, eða ef enska er einnig notuð í viðskiptum þá sé íslenskan orðin eins og einangrunatæki. Vissulega góðar og djarfar bollaleggingar (þó ekkert nýjar eða frumlegar)sem kalla á betri og skynsamlegri andsvör en finna má í skrifum Kristjáns.
Eins og títt er um þá sem missa sig í skrifviðræðum við mig fer hann að gera út á það að ég sé prestur og vera fyndinn í þá áttina. Þegar ég sé það geri ég mér grein fyrir því hvað íslensk umræðuhefð er afkáraleg. Kristján er fórnarlamb hennar.
Þá má nefna að hann telur Þorlákshöfn vera suður með sjó og það er svo sem eftir öðru í pistli hans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Facebook
Athugasemdir
Betra að augun deyi en tungan.
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 23:08
Líttu út um gluggann, sólin skín á okkur! Það er hins vegar rétt hjá Kristjáni og það er grundvallaratriðið að sumir íslenskir jafnaðarmenn eiga í vandræðum með hugtakið þjóð og þjóðerni. Hann sagði það ekki en ég segi það að þeir hafa fallið fyrir mörgum bábiljum nýfrjálshyggjunnar - m.a. þeirri að þjóðerni og tungumál þjóða sé eitthvað sem þvælist bara fyrir nútímamanninum, enda snýst málið um það að geta flutt hindrunarlaust mannskap á milli landa svo fyrirtækin geti hámarkað gróða sinn. Eða eins og gamli góði Marx sagði: Auðmagnið á sér ekkert föðurland. Segja mætti líka alveg eins: Auðmagnið á sér ekkert móðurmál.!
María Kristjánsdóttir, 24.9.2007 kl. 09:07
Var ekki búin að lesa Kristján frá því í gærkvöldi. Þessi athugasemd mín var því óþörf- hann er búinn að segja þetta.
María Kristjánsdóttir, 24.9.2007 kl. 10:03
Sæl! Menn sem reyna að hæðast að mér fara alltaf í taugarnar á mér! Einnig menn sem reyna að drepa umræðu! Hvaða ungi er þetta með þér á myndinni. kv. B
Baldur Kristjánsson, 24.9.2007 kl. 10:17
Ég leyfi mér að vona að þessi umræða fái brátt þá útför sem henni hæfir. Alþjóðahyggja er ekki alslæm og ekki algóð heldur. Hún verður að byggja á ákveðnum gildum ef hún á að ná tilgangi sínum. Þegar rætur þjóðtungunnar fúna er stutt í að önnur verðmæt gildi samfélagsins hljóti sömu örlög.
Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 10:20
Ditto frændi.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.9.2007 kl. 10:57
Sælir! Þráður minn var að íslenskan myndi þola álagið.Ofverndun kynni að verða hennar bani! kv. B
Baldur Kristjánsson, 24.9.2007 kl. 11:07
Þetta er hann litli Jóhann Glói, eitt af barnabörnunum. Alltaf glaður. Mér finnst þessi umræða mjög mikilvæg og ég er ekki viss um að íslenskan standi allt af sér, Baldur. Mér finnst að gerð hafi verið á okkur menningarleg árás síðastliðin fimmtán sem við höfum verið nokkuð andvaralaus gegn og erum ekki farin að ræða af neinu ráði - og þá er ég ekki að tala um útlendingana sem komið hafa hingað til að þræla fyrir okkur. Ég sá áðan að Stefán Snævar er að ræða þessi mál á blogginu á visir.is að vísu nokkuð háðskur í garð Ágústar varaformanns! Meira um þetta síðar.
María Kristjánsdóttir, 24.9.2007 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.