Mörður og íslenskurétturinn!
28.9.2007 | 09:10
Mér fannst gaman að samræðum þeirra Marðar og Sigríðar Andersen í Kastljósi í gær. Var sammála Merði að afgreiðslufólk á að tala íslensku en ef Mörður á við að afgreiðslufólk eigi að tala gullaldaríslensku þá erum við ósammála. Við erum einfaldlega á því stigi að margir af þeim sem tala íslensku hafa ekki fæðst til hennar, tala ófullkomna íslensku eins og sagt er. Þannig verður það um alla framtíð (og annarsstaðar er það þannig að breyttu breytenda). Þannig hefur íslenskan breyst ef svo má segja. Stíft tal um RÉTT gefur að mínum dómi undir fótinn dónaskap í garð aðfluttra og leiðir til misréttis. Sú er hættan.
Sé fólk í skaplagi er ekkert nema gaman af því að kaupa brauð af stúlku sem kann bara fáein orð í íslensku. Og það spillir engu barni nema síður sé þó einn gangavörður af þremur tali bara fáein orð í íslensku. Fólk lærir. Þetta kemur. Umburðarlyndi er allt sem þarf. Umburðarlyndi er einkenni á góðu fólki.
Þegar fimm ára sonur minn er farinn að klifa á setningunni ,,Á Íslandi talar Maður Íslensku finn ég að einhver er einhvers staðar að strá fræjum óþolinmæði og ósanngirni í barnssálina. Það er stutt í annan frasa og menn geta sagt sér hann sjálfir. Tal Marðar um RÉTT manna til að tala íslansku á Íslandi, hversu göfug sem meiningin er, gefur þessari óþolinmæði og ósanngirni í garð aðfluttra undir fótinn.
Einangrunarsinnarnir og þeir sem nærast af því að kategórísera fólk, það ískrar í þeim af ánægju að heyra svona tal hversu vel sem það er meint.
Eftirmáli: Í athugasemdadálka mína og annarra kemur fólk sem reynir að hrauna yfir mann. Fólk sem greinilega getur ekki umborið skoðanir án þess að illska eða þörfin að sú niðurlægja komi upp í því. Þegar málsmetandi menn reyna að hæðast að manni á sínum heimasíðum koma aðrir inn í þeirra athugasemdakerfi og það ískrar í þeim af ánægju. Þörf fólks fyrir að gera lítið úr öðrum og skoðunum þeirra er makalaus og því til vansa. Í allri umræðu á að greina á milli skoðana og þess sem setur þær fram. Þannig er nú það!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Facebook
Athugasemdir
Fínn pistill, Baldur. Sammála ykkur Merði, um að fólk við afgreiðslu-og þjónustustörf tali íslensku. Fara fram á "kórétta gullaldar íslensku" er auðvitað bara hroki, enda kunnum við fæst að tala þannig sjálf. Verð iðulega sjálf að leita í orðabók eftir réttri stafsetningu orða, þegar ég blogga. En kunnátta til að skilja talað íslenskt mál, og bjarga sér í vinnunni, er öllum nauðsyn að mínu mati. Skítt með "beygingarnar" og hárréttar endingar, ef þú skilst.
Sigríður Sigurðardóttir, 28.9.2007 kl. 10:13
Tek undir með Sigríði, ef við ætlumst til að geta tala "kórrétta gullaldar íslensku" þá þurfum við sjálf að geta talað hana. Best væri að fólk í afgreiðslu- og þjónustustörfum geti tjáð sig á íslensku, en þegar endalaust vantar fólk í þessi störf þá verðum við að sætta okkur við að þar starfi fólk með mjög takmarkaða íslensku. Aðalmálið er að við auðveldum útlendingum sem áhuga hafa á að setjast varanlega að á Íslandi að læra íslensku. Kannski er eitt í því er að of oft erum við Íslendingar að svara útlendingi sem spyr á bjagaðri íslensku á ensku og þar með gerum þeim erfiðara um vik að læra málið.
Daði Einarsson, 28.9.2007 kl. 10:37
Skemmtileg þessi innsláttarvilla: ískenskurétturinn!
kv gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 11:38
Geturðu skýrt nánar hvað þú átt við í eftirmála þínum? Geturðu komið með dæmi um einhvern sem er með háð og gerir lítið úr öðrum?
Ekki hefur þú né neinn annar haft fyrir því að svara því sem ég setti fram á öðrum þræði. Ég hélt að tilgangur þinn með þessum skrifum þínum væri að skapa umræðu. Ef það var misskilningur hjá mér skal ég með ánægju hætta að skrifa í athugasemdakerfið hjá þér.
Telur þú það vera kynþáttahatur eða -hyggju að vilja að hér sé íslenskan gildandi tungumál? Er það skortur á umburðarlyndi og einhver aðskilnaðarstefna í anda Suður-Afríku á sínum tíma, að vilja standa vörð um tungumálið og berjast gegn ambögum, enskuslettum og málleysum? Er það ókristilegt?
Er það kristilegra að henda íslenskunni og leyfa fólki að tala eins vitlaust eins og því sýnist? Er þá nokkur ástæða til að vera með íslenskukennslu í skólum?
Er það kristilegt að eldra fólk geti ekki fengið afgreiðslu í verslunum, af því að afgreiðslufólkið skilur ekki íslensku? Er það kristilegt að sama fólkið þurfi að liggja ósjálfbjarga jafnvel í lífshættu á öldrunarstofnunum af því að starfsfólkið talar ekki málið? Er rétt að troða á réttindum þeirra sem byggt hafa upp þjóðfélagið til að tryggja réttindi útlendinga?
Gaman væri ef einhver gæti svarað þessum spurningum.
Theódór Norðkvist, 28.9.2007 kl. 12:35
þakka þér fyrir Gísli! Innsláttarvillur geta verið lúmskar. Kv
Ég get nefnt mörg dæmi Theodór en geri það ekki kannski af tillitssemi. Þetta er hins vegar lína sem hver verður að draga fyrir sig þ.e. hvernig maður kemur fram í athugasemdarkerfinu. Þumalputtaregla er e.t.v. sú að reyna að skrifa þannig að sá sem fær athugasemdina honum líði ekki ver á eftir en undan. Það gerir maður með því að reyna að vera málefnalegur en ekki persónulegur og ekki pirraður. Fólk er mjög mislagið í þessu efni.
Afstöðu mína til umræðu má hins vegar sjá af því að ég loka ekki á neinn eins og mér skilst að sumir gera. Enn aðrir leyfa enga umræðu um eða útaf pistlum sínum. Kv. B
Baldur Kristjánsson, 28.9.2007 kl. 13:02
Hefur einhver hugleitt að fólk sem kemur hingað frá Austur- og Suður-Evrópu talar kannski næstum enga ensku við komuna til Íslands, en er orðið altalandi í henni eftir nokkra daga eða vikur, einmitt vegna þess að það er svo stutt í enskuna hjá þorra almennings?
Fólk virðist einfaldlega ekki hafa þolinmæði til að tala íslensku við þá sem tala hana stirt. Það getur sjálfu sér um kennt ef viðmælendur þeirra læra hana ekki.
Elías Halldór Ágústsson, 28.9.2007 kl. 13:23
Sæll. Gott hjá þér, séra Baldur, að þú tekur upp þetta ræðuefni í röð á undanfarna daga. Mig langar til að vitna eitt: að læra íslesnku þýðir alls ekki að maður getur talað prýrilega íslensku eftir nokkra mánuði... þó að það muni vera nokkrar undantekningar.
Toshiki Toma, 28.9.2007 kl. 14:07
Það að menn tala og skrifa vitlaust, jafnt Íslendingar sem fólk af erlendu bergi brotið, kalla ég ekki breytingu á íslenskunni.
Breyting á íslenskunni er þegar málfræðireglum er breytt. Að segja "mér langar" er jafn vitlaust í dag og það var fyrir 50 árum síðan.
Theódór Norðkvist, 28.9.2007 kl. 14:21
Íslenskunni stafar varla meiri hætta af erlendu afgreiðslufólki en hérlendum fjölmiðlastarfsmönnum, sem oft hafa menntast í útlöndum og kunna (því) ekki að nota viðtengingarhátt - svo lítið dæmi sé tekið.
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 19:38
Sjálfur er ég lesblindur íslendingur sem hugsar á íslensku og talar sænsku dags daglega en skrifar og hugsar á ensku í vinnunni (=þrítyngdur djöfull). Ég språkar auk þess dönsku og norsku á norrænum fundum og sonur minn er Heima á Fróni núna og stúderar Kínversku við Háskóla Íslands. .... Ég meina hvert erum við að fara? Viljum við viðhalda tungumálaaðskilnaði eða viljum við reyna að brjóta niður landamæri tungumála. Hvað var Guð að pæla í Babel?
Ásgeir Rúnar Helgason, 28.9.2007 kl. 21:15
Ég hef ekki orðið var við að nokkur maður sé að tala um að t.d. afgreiðslufólk í verslunum, kaffihúsum, bönkum eða annarstaðar tali kórétta gullaldar íslensku, hvaðn kemur þessi flötur á málinu? Manngæskan og þumburðarlyndið má ekki leiða til þess að við gerum engar kröfur t.d. varðandi þjónustu, hver eru gæði þeirrar þjónustu sem atvinnurekendur bjóða okkur upp á þegar sá sem veitir hana talar ekki það tungumál sem talað er í þessu landi, íslensku.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 28.9.2007 kl. 22:38
Einmitt. Við megum samt ekki láta umræðuna snúast um hvort erlent starfsfólk í verslun og þjónust getur tjáð sig á íslensku, ensku eða einungis táknmáli. Ég get sagt ykkur að ég á í meiri erfiðleikum með að skilja sum ungmenni heldur en útlendinga sem eru þó að reyna að gera sig skiljanlega.
Málvillur, ambögur og enskuslettur eru áreiðanlega orðnar 50% af orðanotkuninni hjá sumu ungu fólki. Þetta er fólkið sem á að taka við þjóðfélaginu eftir nokkra áratugi. Ef íslenskukennslan og -kunnáttan hjá grunnskólanemendum og jafnvel sumu fullorðnu fólki er léleg, þá er illt í efni.
Baldur talar um að kröfur sem gerðar eru til málkunnáttu muni leiða til stéttarskiptingar og að sumir verði að einhverju leyti útilokaðir frá þátttöku í þjóðfélaginu af þessum sökum.
Ég held þvert á móti að öflug íslenskukennsla og áhersla á gott mál verði til að draga úr stéttarskiptingu. Ef þorri manna hefur gott vald á íslenskri tungu þá fyrst eru forsendur til að draga úr ójöfnuði. Hátt menntunarstig er til þess fallið að bæta lífskjör og auka jöfnuð.
Theódór Norðkvist, 29.9.2007 kl. 00:27
Sæll Baldur.
Til þess að viðhalda þjóðtungu vorri er það ekki leiðin að tala hana niður jafnvel þótt talsmönnum flokka við stjórnvölinn detti slíkt fyrirbrigði til hugar.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 29.9.2007 kl. 03:27
Lifi "Alþjóðatungan"!
Hálfvitar eins og ég sem fíla "Star Trek" vita hvað "universal translator" er eða "Babelfiskur" er :-)
Sjálfur er ég margtyngdur en lesblindur auli og hef ekkert vit á þessu!
Lifi alþjóðasamfélagið!
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.10.2007 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.