Að gefa......
30.9.2007 | 08:40
Á sunnudagsmorgni er rétt að velta því fyrir sér hvernig maður getur breytt heiminum.
Ég hef verið að hlaupa yfir bók Bill Clinton ,,Giving sem útleggst ,,Að gefa(Alfred A. Knoph/ New Yoork 2007). Clinton er með bók sinni öðrum þræði að vekja athygli á The Clinton foundation en Bill Clinton hefur frá því hann hætti að vera forseti unnið að góðgerðarmálefnum eins og það var kallað. Við sáum í íslenskum fréttum dæmi um það þegar Orkuveita Reykjavíkur er í gegnum stofnun hans að leggja fram peninga og hugvit til jarðhitarannsókna í Afríku.
Segja má að einkunnarorð bókarinnar séu orð Marteins Luthers King: ,,Allir geta orðið mikilmenni vegna þess að allir geta lagt af mörkum,,Everyone can be great because everyone can serve Í bókinni er mígrútur af dæmum um fólk sem hefur gert einmitt þetta. Fólk sem hefur lagt mikið af mörkum til hjálpar bágstöddum heima fyrir og erlendis, fólki sem hefur gefið peninga, gefið af tíma sínum, gefið hluti, gefið af hæfileikum sínum, gefið fordæmi með því að sættast við óvini sína, gefið góðar hugmyndir og svo framvegis.
Í (bandarískum) huga Clintons er hlutverk ríkisvaldsins fyrst og fremst það, fyrir utan það að hvetja fólk, að sjá til þess að lög og reglur séu í lagi gefendum og þiggjendum í vil.
Þetta er bandarísk bók, bandarísk hugsun. Heimsstrúktúrinn ekkert gagnrýndur eða haldið út í vangaveltur um misskiptingu auðs og valds. Gengið er út frá því að góðsemi og frumkvæði einstaklinganna geti linað þjáningar heimsins og að drifkrafturinn sé sá að menn sjái tengslin milli hjálpsemi og eigin fjárhags eða þá að í okkur blundi þráin eftir því að skipta máli í heiminum, þráin eftir því að láta með einhverjum hætti gott af okkur leiða, að verða með einhverjum hætti ,,mikil".
Gríðarlega margir leggja mikið af mörkum til annarra en sjálfs síns. Bæði með gjöfum, beinum og óbeinum, og með sáttastarfi og jákvæðri lífsýn. Á því hvílir sennilega skapleg framtíð heimisins að slík öfl nái yfirhöndinni en ekki fanatíkerarirnir sem rækta með sér að sjá andskotann sjálfan í öðru fólki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.