Það verður að skrifa eitthvað um Kirkjuþing það sem nú situr!

Ekki ætla ég að deila á það ágæta fólk sem situr Kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju. Það er oft á tíðum bæði erfitt og vanþakklátt embætti.  En stundum þegar fólki rennur í skap yfir gerðum Kirkjuþings þá geysast beittir pennar af stað og lumbra í myndlíkingum á fólki  í búningum, hermpum og kuflum og sjónvarpið birtir myndir af svokallaðri ,,processíu" presta en á hverri prestastefnu ganga þeir og þær í langri röð til guðsþjónustu og safnast þá gjarnan á gangstéttir meðfram fólk til að horfa á enda sjást slíkar raðir  ekki á hverjum sunnudegi í atburðarsnauðu plássi þar sem ákveðið hefur verið að halda prestastefnu svona í virðingarskyni við kirkjufólk á þeim stað.

Hérna áður fyrri voru það karlmenn í þykkum hempum sem réðu öllu á Kirkjuþingi.  En nú er hún Snorrabúð stekkur. Kirkjan hefur verið að breytast í lýðræðislega átt eins og sagt er. Völdin hafa nú verið tekin af prestunum sem núorðið eru af báðum kynjum í hinni villuráfandi lúthersku kirkju. Nú eru það hinir óvígðu sem ráða ferðinni.  Á Kirkjuþingi sem nú situr eru 17 svokallaðir leikmenn, þetta eru lögfræðingar, læknar, hjúkrunarfólk, fjármálamenn og bændur sem hafa verið kosnir í almennum kosningum þar sem sóknarnefndarfólk um allt land hefur atkvæðisrétt.  Prestarnir eru bara tólf eins og postularnir sem þýðir það að flest okkar eru bara heimavið að sinna daglegum störfum og ráðum engu um framvindu mála ekki frekar en þeir úrvalspennar sem spretta fram og lumbra á okkur í hvert sinn sem eitthvað er samþykkt eða fellt sem gengur fram af þeim.

Nei, valdið í kirkjunni liggur ekki framar meðal hinna hempuklæddu. Það liggur hjá þeim sem aldrei fá leyfi til annars en að klæðast venjulegum borgaralegum fötum.

Svona er nú dekrið mikið við hinn svokallaða almenning í ,,folkekirkjunni" á Íslandi og hefur hún haldið í þessum efnum í humáttina á eftir Norðmönnum og Svíum en Danir vinir okkar hafa verið fastheldnari á gamla og ,,góða" siði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér hefur nú ekki sýnst kirkjan og þessir undarlega klæddu starfsmenn hennar hafi „dekrað“ neitt við okkur almenning. Þvert á móti er kirkjan stöðnuð og þreytt stofnun sem byggir tilvist sína á áskrift að launum sínum hjá ríkinu sem á auðvitað ekki að viðgangast.

Prestarnir virðast margir hverjir vera afar undarlegir og illskiljanlegir þó þeir virðist hafa höndlað lífsskilninginn eina og sanna og æðstu prestarnir eru hreint óskiljanlegir í talsmáta sínum sem sannast kannski best á honum Bjössa alföður í daglegum greinum hans í Mogganum þessa dagana. Mér finnst ekki nóg hjá honum að raða saman orðum í sennilega og fallega runu ef ekkert stendur á bakvið.

Svo hnakkrífast sérarnir opinberlega hver við annan um bók bókanna og uppnefna jafnleg hverjir aðra á þann kristilega máta að þeir ganga alvarlega særðir frá hildi og okkur hinum ofbýður. Og Kirkjuþing fer nú barasta ofan garð eða neðan hjá almenningi eins og ávallt þó þeim leikmönnum fjölgi sem telja andann upphefjast með þátttöku sinni.

Best að hætta núna, Baldur minn, kannski er þegar of mikið sagt. Hins vegar á þessi skoðun mín það sammerkt með kirkjunni að hún kemur trúnni lítið við.

Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 14:02

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Óvígðir kirkjunar menn sem og innvígðir eftir helgisiðum svörtu helgi skruddunar, mega hátta sínum málum eins og þeim sýnist mín vegna. Hvort prestar klæði sig svörtum hempum með hvítum kraga eða dressi sig upp í venjulegum gallabuxum þegar þeir messa boðskap "bábiljunar" yfir mannskapinn varðar mig ekkert um. Ég tel mig ekki á umboðsmanni almættisins að halda, sér í lagi meðan íhaldssöm karlrembu viðhorf eru í hávegum höfð innan kirkjunar. Það skal engan undra að ég láti ekki sjá mig í messum á sunnudögum í framtíðinni frekar en hingað til og tel ég slíkt hið sama eiga um flesta íslendingar. Viðhorfs-gjáin milli kirkju og þjoðar er of mikil til að bókaþýðing geti brúað hana. Samleiðin minkar ár frá ári og margir leita sér huggunar með því að hanna sína trú eftir eigin höfði rétt eins og ég sjálfur.

Þó íslendingar kallist trúaðir er það nú oftast aðeins í hátðartilfellum. Íslendingar eru alflestir fyrir mér "Skynhelgir"  í réttri merkingu orðsins. Unglingarnir ferma sig vegna gjafanna en ekki vegna boðskapsins og flestir gifta sig flottheitanna vegna og til að falla inn í form vanans. Þeir Kveikja á útvarpsmessunni yfir jólasteikinni  og fagna dauða frelsarans með því að skella sér á skíði í Ölpunum. Um hátíðarnar eru allir góðir en þess á milli hegða þeir sér eins og barbarar.

Kirkjan og trúin meira fjarri íslendengum en Síbería. 

Mín skoðun er sú að það ætti að henda þessari skruddu á forngripasafnið og reyna að skrifa nýja eftir þeirri þekkingu sem við búum yfir í dag. Vanda málið er að engum myndi koma saman um eitt né neitt um hvert innihald slíkrar bókar ætti að vera.

Brynjar Jóhannsson, 25.10.2007 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband