Tvíhöfða stjórnmálaflokkar!
7.11.2007 | 08:29
Í Sjálfstæðisflokknum er Davíð Oddson hoppandi uppá dekki svo brakar í parkettinu og yfirskyggir gjörsamlega hinn varfærna háskólakennara Geir Haarde sem álitið var að hefði tekið við af honum sem stefnumótor og hálfguð.
En þetta er svona á öllum bæjum. Framsókn er líka tvíhöfða. Valgerður Sverrisdóttir er ótvírætt andlit flokksins, flóknir atburðir í Orkuveitunni hafa einfaldlega kippt fótunum undan bændahöfðingjanum og þeim suðurlandströllum báðum Guðna og Bjarna Harðarsyni.. Sama er uppá teningnum hjá Vinstri grænum. Það er valdalykt af hinni eldhressu og altvitandi Svandísi Svavarsdóttur og foringjaskiptin aðeins tímaspursmál. Jón Magnusson er hinn ókrýndi leiðtogi Frjálslyndra og hversu bullkennt það kann að hljóma Svandís Samfylkingarinnar heitir Össur Skarphéðinsson mörg hundruð hestafla stjórnmálamaður og hefur séð til þess að þó að Ingibjörg týnist, að hætti utanríkisráðherra, þá týnist ekki Samfylkingin.
Það ástand er sem sagt í stjórnmálaflokkunum öllum fimm að konungurinn er ókrýndur en kóngarnir einangraðir í höllinni og bíða......
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Facebook
Athugasemdir
Ekki gleyma hoppi og skoppi Jóns Baldvins sem er í guðatölu hjá hluta samfylkingarmanna.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 08:44
Þessi kenning - eins ágæt og hún er - hefur þann galla að hún steypir saman tveimur gerðum stjórnmálamanna. Annars vegar eru það ókrýndu leiðtogarnir sem þú nefnir svo, sem byggja styrk sinn á því að margir telja þá rökréttan arftaka missterkra núverandi leiðtoga. (Valgerður, Svandís og Jón geta öll fallið undir þennan flokk.)
Hitt fyrirbærið - fyrrverandi formaðurinn - er annars eðlis. Það er gömul saga og ný að fáir menn geta verið stjórnmálaflokkum erfiðari viðureignar en fyrrverandi formenn, sem eiga erfitt með að sætta sig við að hverfa úr sviðsljósinu og finnst ekkert athugavert við það að koma eftirmanninum í vandræði með hvers kyns upphlaupum og ábyrgðarleysi.
Jón Baldvin Hannibalsson, Steingrímur Hermannsson og Sverrir Hermannsson voru slíkir stjórnmálamenn og raunar væri listinn mikið lengri ef ekki væri hægt að grípa til þess ráðs að gera fv. formenn stjórnmálaflokka óskaðlega með því að senda þá til útlanda í sendiherrastöður.
Þótt gömlu formennirnir geti verið fyrirferðarmiklir og valdið eftirmönnunum vandræðum er hins vegar sá munur á þeim og fyrri hópnum að engum dettur í alvörunni í hug að þeir geti tekið við stjórnartaumunum á nýjan leik.
Sjálfstæðismenn hefðu betur sent Davíð til Kína - og kratarnir búið til kennaradjobb fyrir Össur á Bifröst, sem er hvort sem er hæli fyrir uppgjafarkrata.
Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 09:06
Satt segirðu, Baldur. Raunar tilheyri ég Össurararmi Samfylkingarinnar(enda samstúdent hans úr MR), og kaus hann og vildi hafa hann áfram í sætinu, enda var hann búinn að rífa flokkinn upp í það fylgi að geta hrint Sjálfstæðisflokknum úr efsta sætinu. Raunar virðist nú vera einhver upplausn í gangi í Sjálfstæðisflokknum, eins og sannast á borgarstjórnarflokki hans hér á mölinni. Framsókn greyið er að jafna sig eftir sambýlið við Sjallann, og gengur illa að rífa upp fylgið, enda vantar alveg foringja eins og Steingrím Hermannsson til að koma honum í það, sem hann var. Ég skal viðurkenna, að ég var alls ekkert sátt við þessa ríkisstjórn, og svo er um marga félaga mína í Samfylkingunni, en þetta var víst skársti kosturinn eftir kosningarnar. Helzt af öllu hefði ég viljað, að Samfylkingin væri leiðandi aflið. Maður sér nú svo sem líka, að Sjálfstæðisflokkinn vantar alveg leiðtogann, eins og oft vill verða, eftir að sterkir leiðtogar hafa stjórnað einhverjum flokki, þá verða þeir oftar en ekki svipur hjá sjón, og raunar má segja, að einasti foringinn í dag, sem einhvers má sín sé Steingrímur Jóhann. Geir og Davíð eru sitt hvað. Ég er sammála Stefáni Pálssyni í því, að Davíð væri betur kominn einhvers staðar annars staðar en í Seðlabankanum, því að hann gerir þjóðinni ekkert gagn þar, miklu frekar ógagn ef eitthvað er. Hins vegar endurtek ég það, að Össur hefði átt að fá að vera kyrr í formannssætinu, enda vann hann líka svo mjög að sameiningu vinstri aflanna og vildi vinna til vinstri. Það voru Kvennalistakerlingarnar sem vildu hann út, því miður, og heimtuðu Ingibjörgu. Það voru líka margir, sem óttuðust, að flokkurinn myndi fara lengra til hægri með því, eins og sýndi sig mörgum til armæðu. Annars er það rétt hjá þér, að við erum hálf-klofin, því miður. Svo er um Sjálfstæðisflokkinn líka, og ekki í fyrsta skipti. Sumum finnst nú raunar, að það sé betra að kasta öllu gamla dótinu út, og velja algerlega nýja forystu ungra, vaskra manna, eins og Björgvins Sigurðssonar og fleiri, sem hleypa nýju og ferskari blóði í flokkana. Morgundagurinn og framtíðin er þeirra. Gamla gengið er að ganga úr sér og ætti að setja sér tímamörk og gera sér grein fyrir, að þeir geta ekki verið endalaust í stólunum. Það er bara spurning, hvenær þeir horfast í augu við það. Það verður ábyggilega löng bið á því.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 14:42
rétt athugasemd hjá Stefáni, ég kláraði eiginlega ekki kenninguna. ....og bíða....tveir þeirra bíða þá af sér, þrír pólitískrar aftöku. kv. B
Baldur Kristjánsson, 7.11.2007 kl. 15:02
Furðulegasta fyrirbrigði íslenskra stjórnmála á mínum dögum er Samfylkingin. Þar er mikið mannval glæstra einstaklinga. Þessi flokkur á bara eina hugsjón og hún er að koma okkur sem fyrst í hin evrópsku Ráðstjórnarríki.
Og nú vill Ingibjörg fjölga í sendiráði okkar í Brussel.
"Jæg er sgu ingen helvedes islandsmann" sagði lærifaðir þeirra, Pétur Pálsson þríhross.
Árni Gunnarsson, 7.11.2007 kl. 15:15
Listin er að lofa öllum að eiga skoðun innan Flokksins með stórum staf. Tilvitnunin með vistaverurnar er eins og skrifað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Deildu og drottnaðu er einnig skrifað fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Venstre í DK fyrir rúmum 2000 árum. Þó svo að "gamlir" formenn flokkana séu til vandræða þá skaðar það aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn. Gleymið ekki Þorsteini Pálssyni sem lemur á forystu Sjálfstæðisflokksins nær daglega. Fyrst gamla herraþjóð okkar kom hér til tals....þá dettum engum íhaldsmanni að leggja til að yfirgefa "hin evrósku Ráðstjórnarríki" í kosningabaráttunni. Jón Baldvin frændi laumaði okkur inn í EES af línu án þess að nokkur tæki eftir því. Því skyldi Geir Haarde ekki gera það samtímis Norðmönnum? Það hangir saman.
En ég sé ekki að það sé galli á stjórnmálaflokki að hann sé tví-þríhöfða. Það var í þjóðsögunum erfitt að vinna á slíkum óvættum.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 20:05
Verst er nú þegar stjórnmálaflokkar "tala tungum tveim" - - - - og það á ótvírætt við um Framsókn þar sem "sá gamli bítur í skottið á sér á Brúnastöðum" - og safnstjóri Draugasafnsins klappar - á meðan Valgerður glímir við að taka þátt í um´ræðunni um vaxtamálin og dverghagkerfið - og þorir að ræða um kostina sem eru í efnahagsstjórninni. Um fyrrverandi formenn ætla ég ekki að tjá mig meir en þegar er orðið . . . . .en við Össur kyssumst alltaf núorðið á mannamótum. . .
Benedikt Sigurðarson, 7.11.2007 kl. 21:54
Sjálfsstæðisflokkurinn kemur mér fyrir sjónir sem þurs með mörg höfuð. Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 8.11.2007 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.