Orkan úr Þjórsá of dýru verði keypt!

Sennilega er kísilverksmiðja góður kostur fyrir Ölfusinga.  Er ekki komið nóg af álverum? Ef eitthvað er að marka hálkveðnar vísur þeirra í Landsvirkjun ætti slík verksmiðja að borga meira fyrir rafmagnið en álver og veita jafnmörgum eða fleirum vinnu.  Bregðumst við þessu með jákvæðum hætti.

Og auðvitað á að nota orkuna nálægt uppsprettu hennar.  Þetta hefðu reyndar Ölfusingar átt að athuga áður en þeir gáfu virkjunarleyfin á Hellisheiði fyrir nokkrum árum. Þá datt engum í hug að gera þá kröfu, ekki neinu sinni undirrituðum sem þá var í bæjarstjórn. Ef bæjaryfirvöld eru sammála yfirlýsingum sínum nú, gefa þau hins vegar ekki fleiri leyfi nema að orkan verði notuð til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu.


Og auðvitað ætti orkan í kísilinn að koma djúpt úr iðrum jarðar en ekki úr Þjórsá. Orkan úr henni verður of dýru veði keypt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hún er allt of dýru verði keypt Baldur, ég tek undir með þessum pistli þínum, algerlega sammála....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 12.11.2007 kl. 22:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hengils-Hellisheiðarsvæðinu má skipta í sex virkjanasvæði landfræðilega séð: Nesjavelli, Kolviðarhól, vestanverða Hellisheiði, Ölkelduháls, Hverahlíð, nýtt svæði nálægt Þrengslavegi og Grændal-Reykjadal. Þegar er búið að taka þrjú svæði til virkjunar og enn hafa ekki risið deilur um Hverahlíð eða nýja svæðið við Þrengslaveg.

Náttúruverndarfólk hefur hins vegar komið fram með "ósvifið, öfgafullt og hræsnisfullt" andóf gegn virkjunum á tveimur svæðum af sex.

Andófið er kallað ósvífið af því að það kemur svo seint fram. Það er kallað öfgafullt af því að við erum sökuð um að vera á móti öllum virkjunum.

Og það er sagt vera hræsnisfullt vegna þess að vinstri grænir stóðu að virkjunum á þremur svæðum og eru því sjálfum sér ekki samkvæmir.

Sömuleiðis er sagt að við séum hræsnisfull vegna þess að við berjumst bara gegn virkjunum sem eru nógu langt frá okkur.

Niðurstaða: Við megum ekki andæfa vegna þess að við samþykktum fyrri virkjanir og heldur ekki af því að þá erum við á móti öllum virkjunum!

Að lokum þrjár staðreyndir um "hreina og endurnýjanlega, sjálfbæra orkulind:

1. Tvöfalt meira afl á að kreista út úr þessu svæði en það gæti afkastað til langframa. Talið er að orkan verði uppurin og svæðið orðið kalt eftir 40 ár. Þá þurfa afkomendur okkar að finna 600 megavatta orku annars staðar í staðinn. Þetta er ekki sjálfbærni, þetta er rányrkja. 

2. Meiri brennisteinsvetnisútblástur er þegar en af öllum álverksmiðjum landins til samans. Lyktarmengun í Reykjavík fer nú þegar 40 daga á ári fram úr því hámarki sem sett er í Kaliforníu.

3. Aðeins 12% orkunnar nýtist, 88% fara til ónýtis.

Hvernig væri nú að staldra aðeins við og sjá hvort ekki er hægt að nýta orkuna betur á þeim svæðum sem þegar hefur verið virkjað á?

Það er logið að kaupendum orkunnar að hún sé sjálfbær, hrein og endurnýjanleg. Er það kristlegt athæfi? Eða ætti ég kannski að spyrja í takt við tíðarandann: Mun það skapa okkur gróða í formi viðskiptavildar og heiðurs þegar upp kemst að við höfum falið staðreyndir, sem skipta kaupandann miklu máli, þ. e. að hann hafi verið blekktur til að kaupa vöruna með því að leyna upplýsingum um hana?  

Ómar Ragnarsson, 12.11.2007 kl. 23:29

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Já Ómar, það er logið að fólki, það er ekki spurningin,  við þurfum því miður ekki að spyrja að því......spurningin er hinsvegar ....ætlar okkur ekki að takast að útskýra þessa hluti nægjanlega fyrir fólkinu okkar....hvað er í gangi....!!!

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 13.11.2007 kl. 07:26

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bendi á fjölmargar færslur á bloggsíðunni minni um þessi mál:  http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Hvað finnst fólki um svona vinnubrögð og þessa framtíðarsýn?
Er þessi málflutningur ósvífinn og hræsnisfullur?
Hver segir satt og hver segir ekki satt?
Hvað getum við gert?

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.11.2007 kl. 12:00

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvernig væri og hvernig væri?

Hvernig væri nú t.d. að fólkið í þessu landi færi að róa sig niður og hætta þessu ofstækisbulli báðum megin við einhverja andsk. virkjanasamninga?

Okkar vistvæna orka er dýrmæt og verðmæti hennar vex hratt í okkar mengandi heimi. Orkufrekur iðnaður lognast ekki útaf þó við tökum okkur tak og gefum okkur tíma til að setja upp skynsamlega og varkára rammaáætlun um virkjanir, jafnt varma- sem vatnsvirkjanir. Þjóðin er ekki komin á vonarvöl og óþarfi að hamast eins og ætlunin sé að drepa djöfulinn.

Spilling lands er viðkvæmt mál og á ævinlega að vera það. Að setja þessi virkjanamál endalaust í farveg styrjaldar er ekki boðlegt þokkalega menntaðri og upplýstri þjóð.

Nú hefur það komið í ljós sem við verndarsinnar höfum haldið fram í áraraðir að eftirspurn er ekki einvörðungu bundin við álbræðslu á leyndarmálsverði. Það hefðu þótt tíðindi fyrir svona fjórum vikum að Landsvirkjun sliti samningum um orkusölu til álvera. Sú varð þó raunin.

Þessi umræða er satt að segja orðin bjánalegri en deilur fermingarkrakka um það hver eigi að gefa spilin í Kananum.

Fyrir 60 árum hefðu unglingar á bæjum verið flengdir fyrir þrætusýki í þessa veru.

Ég fullyrði það! 

Árni Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband