Kristinfræði- mannréttindi?

Þá er komin á stilla –eins og ekkert hafi gerst. Samt hafa farið fram með miklum látum bæði jól (næstum liðin) og áramót. Hvort tveggja tilbúin tímamót.(Jesúbarnið fæddist vissulega en ekki endilega í desember) Það eina náttúrulega sem hefur skeð fyrir utan veðrabrigði síðasta hálfa mánuðinn eru vetrarsólstöðurnar.  Dag er farið að lengja. Hver dagur –næstu mánuði – verður örlítið lengri en sá síðasti unz allt springur út í allsherjarbirtu þegar líða tekur á hinn sæla júnímánuð.  Þá verður gaman hjá þeim sem lifa: Bjartar vornætur í röðum, útivera, hestaferðir, golf.

Samt hafa liðnir dagar haft sinn tilgang.  Jólin færa birtu og yl í hugskot margra og svara þörf barna og fullorðinna fyrir hið óræða og áramótin hjálpa til með að skipta lífinu niður í tímabil.  Þannig eigum við auðveldara með að höndla það.  Hvortveggja úthugsað af tímanum sjálfum.

Biskupinn talar um aukna kristinfræðikennslu og meiri trúarbragðafræðikennslu í skólum. Undir það má taka og hefur m.a. verið skrifað um hér.  Hvortveggja er í faglegum ólestri eða faglegri óvissu í skólakerfinu. Hins vegar hefur kröfunni um aukna mannréttindakennslu ekki verið haldið nægilega á lofti.  Vissulega læra krakkar um grundvöll mannréttinda í kristnum fræðum –ef þau eru þannig kennd – en Mannréttindi eiga bæði rót sína í kristni, hjá grikkjum og í brjóstviti kynslóða og hafa þróast gríðarlega frá þessum rótum á eigin forsendum ef svo má segja – á þeim grunni þó sem fyrr er nefndur. Kennsla í mannréttindum er pæling í réttindum fólks –jöfnum rétti allra – og jöfnum skyldum allra – án tillits til uppruna, fæðingarstöðu, tungumáls, trúrabragða, litarháttar, þjóðernis, líkamsbyggingar, kynhneigðar, kyns eða nokkurra slíkra atriða.

Við eigum að leggja metnað okkar í að byggja hér mismununarlaust þjóðfélag – það vantar á það eins og er  - og á rætur sínar í hugarfari.  Sú kynslóð sem nú ræður ríkjum fékk mjög takmarkaða kennslu í mannréttindum.  Við þurfum að efla þennan þátt í skólakerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig minnir að Einar Pálsson (Ísólfssonar) hafi talið að bendingar væru í Biblíunni um það að Jesús væri fæddur í steingeitarmerki, sem er þá um jólaleitið. Hann taldi að það hefðu ekki verið nein fjárhús í Gyðingalandi á þeim tíma. (Veit ekki hvort þar er byggt yfir fé nú á dögum). Skýli fyrir fé hafi verið í hellum og með því að segja hann fæddann í helli, sé einungis verið að gefa til kynna fæðingartíma hans, en tenging hellis við stein og steingeit sé kunn bending. Önnur bending var það að stjarnan sem vitringarnir í austurlöndum sáu var frá þeim séð í suðvestri sem er staður steingeitarmerkis í himinhring.

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 12:20

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

 Sæll Baldur og gleðilegt ár.

Ég vil taka undir með þér að betur hefði mátt halda á lofti kröfunni um aukna kennslu í mannréttindum í skólakerfinu okkar. Virðing fyrir mannréttindum er undirstaða siðmenningar og velferðar samfélagsins.  

Ég tek einnig undir með þeim sem telja mikilvægt að efla trúarbragðafræðslu í skólakerfinu. Slík fræðsla eflir virðingu okkar fyrir þeim er tileinka sér aðrar leiðir til eflingar andans. Að geta fengið sem réttastan skilning á siðum og venjum annarra er mikilvægt skref til friðsamlegra samskipta.

Ég er alinn upp við sterka vitund um kærleika Guðs. Ég hef einnig lesið mikið um lífsgöngu Jesú. Ég er hins vegar ekki sáttur við að þjóðkirkjan okkar taki sér stöðu sem sögumaður í frásögn af lífsgöngu Jesú, í stað þess að stilla sér upp við hlið hans og lærisveina hans og gera það sama og hann, að svo miklu leiti sem slíkt er í mannlegu valdi. Ég teldi kirkjunni mikilvægt, í ljósi vaxandi virðingarleysis fyrir helgum gildum mannlífsins að taka sér stöðu virks boðanda kærleika og annarra kristilegra manngilda, í stað þess að segja sífellt 2000 ára gamla sögu.

Lifðu heill. 

Guðbjörn Jónsson, 2.1.2008 kl. 13:01

3 identicon

Ég ákvað að sleppa þér við að gera margorða aths. hér en ákvað að blogga um málið sjálfur. Ætli það verði ekki erfitt að láta taka sig alvarlega á bloggi, eftir meðferð áramótaskaupsins á þessu fyrirbæri?

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 14:08

4 identicon

Tek heilshugar undir að það vanti stórlega mannréttindakennslu á Íslandi. Ég er sífellt að velta fyrir mér hvers vegna í ósköpunum krökkum er ekki kennt einföldustu grundvallaratriði þess að búa í frjálsu samfélagi (ekki að Ísland sé mjög frjálst samfélag), eins og réttindi sín gagnvart lögreglunni sérstaklega, að fylla út skattskýrslu, og síðast en ekki síst, grundvallaratriði í rökfræði.

Mig langar bara að gera athugasemd við þá algengu fullyrðingu að mannréttindi komi kristni eitthvað við. Kristni á sér enga mannréttindasögu sem ég þekki, og ég hef stúderað fyrirbærið frá barnsaldri, heldur þvert á móti var kristni aðaldrifkrafturinn fyrir alvarlegustu mannréttindabrotum hins vestræna heims alveg þar til að hugtakið fæddist, og fæddist það sökum Upplýsingarinnar, ekki vegna kristninnar. Hvergi í Biblíunni er fjallað um trúfrelsi, tjáningarfrelsi eða einu sinni frelsi gegn þrælahaldi, heldur þvert á móti er sérstaklega tekið fram að maður skuli trúa á þennan eina Guð, maður fari til helvítis ef maður trúi ekki réttum hlutum, og þrælnum er sérstaklega sagt að vera hlýðinn eiganda sínum á sama hátt og maðurinn skal vera hlýðinn Guði. Að elska náungann og að fyrirgefa syndir eru ekki mannréttindi heldur bara almenn skynsemi ef markmiðið er að halda friðinn, og það er allt gott og blessað, en það kemur mannréttindum ekkert við. Mannréttindi eru réttindi sem við ákváðum að allar manneskjur fengju bara fyrir það eitt að vera manneskjur, svosem sanngjörn réttarhöld, og kristnin hafði ekkert um það að segja þar til mannréttindi komust í tísku.

Þetta er bara eitt af þessum hlutum sem fólk gefur sér vegna þess að það upplifir kristni sem lausnina á lífsgátunni, og fólk er jú undantekningalítið hlynnt mannréttindum, þannig að það gefur sér bara að það sé eitthvað samhengi milli kristni og mannréttinda, en það er einfaldlega ekki tilfellið. 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 16:20

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þarna er ég ekki sammála þér Helgi Hrafn. Má segja að áhersla kristindómsins að allir séu skapaðir í Guðs mynd séu ein af grundvallarstoðunum undir mannréttindahugsuns nútímans.  Allir hljóta þar með að vera jafnréttháir jafn mikilsverðir.  Það er svo aftur flókið hvernig okkur hefur tekist að spila úr þessari grundavallarhugsun og hverjir aðrar stoðir eru fyrir utan brjóstvitið auuðvitað.  kv. B

Baldur Kristjánsson, 2.1.2008 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband