Fangar þrákálfsins!
22.1.2008 | 10:48
Ég er tilfinningamaður í pólitík og í gær vorkenndi ég til að byrja með Degi B. Eggertssyni og hans liði. Það breyttist þegar ég horfði á blaðamannafundinn, hlýddi á Ólaf F. Magnússon lýsa því að hann væri hið leiðandi afl í borginni og horfði á svipinn á sexmenningunum fyrir aftan hann og Vilhjálm. Það var ekki gleðisvipur svo sem eðlilegt hefði verið í dögun nýs meirihluta heldur ráðvilltur óræður svipur, varla örlaði á brosviprum enda þetta fólk núna fangar Ólafs Magnússonar sem er jú kominn í borgarstjórastólinn til þess að ná fram stefnumálum Sínum og þeirra 6527 sálna sem kusu Frjálslynda flokkinn. Þau eru fangar þrákálfsins Ólafs Magnússonar! Næstu fjórtán mánuðir verða líklega óbærilegir fyrir þau og kæmi mér svo sem ekkert á óvart þó að sexmenningarnir aftoppuðu meirihlutann og mynduðu meirihluta með öllum hinum undir forsæti Dags og Gísla Marteins og Svandísar og Hönnu Birnu. Það er enginn teljandi málefnaágreiningur sem skilur þetta fólk að og það býr, sýnist mér, yfir sveigjanleika sem nauðsynlegur er í samstarfi.
Borgarfulltrúarnir ættu eiginlega að rísa upp úr hefndarskyldunni og fara að vinna saman undir forystu þeirra sem eru best til forystu fallnir. Við Reykvíkingar (einu sinni Reykvíkingur alltaf Reykvíkingur) eigum það ekki skilið að næstu misserin fari í það að rífa Reykjavík afturábak með því að festa flugvallarskrímslið í sessi og tryggja 19. aldar götumynd Laugavegarins svo sem rækilega var lýst yfir að ætti að gera.
Og í næstu kosningum ættu bæði frambjóðendur og kjósendur að skipa sér í tvær stórar fylkingar. Samtíminn sýnir að littlu framboðin bjóða ruglingnum heim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er nú farin að hallast að því að þjóðin sjálf ætti að boða
til fundar á Þingvöllum í sumar og setja ný lög um ´hvernig framkvæma eigi lýðræðið í þessu landi. Hinir kjörnu fulltrúar sitji heima eða skreppi til útlanda á meðan með útrásarliðinu.
María Kristjánsdóttir, 22.1.2008 kl. 11:25
Ég læt það vera hversu mikill þrákálfur Ólafur er, hann er allavega ekki búinn að tryggja baklandið. Mér fannst ótrúlega fyndið að sjá pólítískar viðreynslur F-listaformannsins "after the fact". Dálítill tölvuleikja- eða fyrirsátafílingur af þessu öllu. Ein hugsun er föst í kollinum:
"Málefni schmálefni."
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 12:12
Þetta getur ekki sannara verið Baldur, þetta er galið plan, enda fékk verðandi borgarstjóri "læknisvottorð" sem ósannindamaður og ruglustampur frá Degi lækni og öllum hinum raunar í beinni útsendingu, vitlausara verður það nú varla
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.1.2008 kl. 12:27
Þrákálfur? Viltu ekki leyfa manninum að sýna sig í verki áður en þú ferð að uppnefna hann. Það hefur aldrei þótt mikil kurteisi að nefna menn svona.
Núverandi meirihluti samanstendur af sigurvegurum kosningana vorið 2006. Svona átti þetta að fara í upphafi, fæðingin gekk bara erfiðlega fyrir sig.
Þeir einu sem virðast vera eitthvað í fýlu eru þeir sem hópuðu sig í kringum lýðskrumið í BDSM-listanum!
Magnús V. Skúlason, 22.1.2008 kl. 12:37
Þetta er eins aulalegt og framast getur verið. það fór þvílíkur kjánahrollur um mig þegar blaðamannafundurinn var. Og einmitt,- hvar var gleðin ??
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 22.1.2008 kl. 12:37
skemmtilegur pistill Baldur
Magnús Viðar, ætlarðu að fara á taugum vegna þess að hann var kallaður "þrákálfur" útskýrðu hversvegna það er svona hræðilegt? mér finnst það bara sætt, miklu sætara en þessi siðblindi maður á skilið.
halkatla, 22.1.2008 kl. 13:25
Já Anna Karen! Magnús Viðar mætti þroska máltilfinningu sína. Þrákálfur þýðir þrjóskur maður og er fremur góðlátleg einkun. kv. B
Baldur Kristjánsson, 22.1.2008 kl. 13:35
Alveg laukrétt séra minn, þrákálfur er mjög kurteislega orðað, eins og þín var von og vísa..
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.1.2008 kl. 13:42
Ólafur Magnússon var í hádegisviðtali á Stöð 2 í dag og hann kom vægast sagt illa út. Hvað er eiginlega að gerast spyr maður bara?
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 13:42
Samtíminn sýnir að littlu framboðin bjóða ruglingnum heim.
Þetta eru orð að sönnu séra Baldur, þegar haft er í huga að það var fulltrúi minnsta framboðsins í Reykjavík sem setti hringekjuna af stað, Blingi Hrafnsson!
Kári Sölmundarson, 22.1.2008 kl. 13:59
Skemmtilegt blogg. Ég skynja líka þessa vanlíðan borgarfulltrúa D-listans. Ég held ekki að það sé alls ekki gott fyrir þau sem öll eru alveg ágætis fólk að vera þögul og valdalaus í bakgrunni þar sem leiðtogi þeirra og sá sem talar fyrir er maður sem þau treysta alls ekki (þ.e. Vilhjálmur) og svar Ólafur sem satt að segja er nú ekki alveg á jörðinni. Nú eða í nútímanum. Það er alveg fáránlegt að hafa flugvöll inn í miðri borg, reyndar líka stórhættulegt.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.1.2008 kl. 16:22
Ef til vill má kalla þennan atburð "læknamistök" en ljóst að flokkar þurfa að tala skýrar með hverjum þeir vilja vinna með fyrir kosningar.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 16:32
Sammála þér, þegar þú talar um að smáu framboðin séu ótímabær. Minni aðeins á framboðið Ómars og co. í alþingiskosningunum, sem urðu þess valdandi, hvort sem Ómari líkar betur eða verr, að Sjálfsstæðisflokkurinn hélt velli. Það er ekki spurningin um lýðræði með þessu, heldur hvað fólki er fyrir bestu vegna þess að við sjáum og finnum það dags daglega, hvað þeir sem minnst mega sín eru dregnir á asnaeyrunum af Sjálfsstæðisflokknum.
Þorkell Sigurjónsson, 22.1.2008 kl. 18:04
Athugasemd Maríu Kristjánsdóttur er eins og töluð út úr mínu hjarta. Mætum á Þingvöll og rekum af höndum okkar þennan davíðska óhroða sem er farinn að gegnsýra pólitíkina í þessu landi. Segjum ósvífninni, óskammfeilninni og einkavinavæðingunni stríð á hendur!
Benedikt (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 21:52
Læknamistök já!
Það var ekki verri skýring en margt annað.
Árni Gunnarsson, 22.1.2008 kl. 22:57
Sigmar súperspyrill stóð sig með afbrigðum vel í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hann tók viðtöl við Villa og Dag. Aumingja gamli góði Villi var bara eins og biluð plata en Dagur komst afbragðsvel frá sínu. Öll þessi sápuópera er held ég það aumasta sem maður hefur orðið vitni að í pólitík og er þá mikið sagt.
Þórir Kjartansson, 23.1.2008 kl. 08:49
Eru þessi tíðindi ekki farin að minna óþægilega á skotgrafahernað fyrri heimsstyrjaldarinnar? Mosa sýnist þessi nýi meirihluti vera ákaflega glaðhlakkalegur og vígreifur að sjá en hversu lengi?
Annars virðast gjörðir Sjálfstæðisflokksins ganga út á að ná völdum og ekki skiptir neinu máli hvaða aðferðum sé beitt. Þeir hafa jú tvo aðra möguleika ef Ólafur gengur einhverra hluta úr skaftinu: með Samfylkingu eða VG. En sannast ekki það fornkveðna: allt er betra með forsjá.
Mosi vill benda á, að fulltrúum Reykvíkinga hefur ekki verið fjölgað í heila öld! Þá voru þeir 15 að tölu og enn eru þeir 15. Að vísu var reynt að fjölga þeim 1982 en það hentaði ekki borgarstjóra þeim sem þá hafðist til þeirrar tignar.
Núna eru íbúar Mosfellsbæjar álíka margir og Reykvíkingar fyrir 100 árum. Ef fjölga ætti borgarfulltrúum hlutfallslega jafnmikið og íbúafjölgun heillrar aldar ættu þeir núna að vera um 200 að tölu. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt. En þeim mætti fjölga alla vega í 35.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 23.1.2008 kl. 09:09
Ég finn mig knúinn til að til að nefna að siðblinda er fyrirbrigði sem ég hef vonda reynslu af. Hún er sjúkleg. Það er fullkomlega ómaklegt að kalla Ólaf Magnússon "siðblindan" fyrir það eitt að þiggja það vald sem honum er úthlutað af Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn gerir þetta ekki í neinni neyð, athugið það. Þið sem kjósið þann flokk getið sjálf ykkur um kennt, þeirra dómgreind er verulega ábótavant í þessu ferli öllu saman, allt kjörtímabilið.
Ég er lítið hrifinn af hugmyndum Ólafs um að festa flugvöllinn í sessi, ást hans á kofaskriflum miðborgarinnar og virkjanahatri. Að því frátöldu tel ég manninn ekki þann versta sem sem Reykvíkingar geta fengið yfir sig sem borgarstjóra. Hann er talinn vera hugsjónamaður frekar en sjálfskróksmakari (gott nýyrði!).
Mér finnst raunar undarlegt að fjölmiðlar segi að skv. skoðanakönnunum vantreysti 80% kjósenda honum. Skv. kosningum hefðu 90% átt að vantreysta honum. Hvers konar fréttatúlkun er verið að bjóða fólki upp á?
Reykvíkingar eru bara að fá það sem þeir kusu. Þetta þarf að þola til næstu kosninga.
Haukur Nikulásson, 23.1.2008 kl. 09:46
"að þiggja það vald sem honum er úthlutað af Sjálfstæðisflokknum" það er nú ekki það sem gerðist Haukur.... engan veginn. Hann var sko ekkert fórnarlamb. Ólafur er kannski ekki siðblindur í þrengstu merkingu þess orðs en hann er örugglega siðlaus. Honum tekst að láta marga sjálfstæðismenn líta virkilega vel út. Hinir eru 10% sem styðja hann líka sem borgarstjóra. Ólafur hoppar flokk úr flokk, hugsar greinilega lítið um málefni því hann hefur hingað til ekki gert neitt sem fólk getur bent á og sagt: hey þessu kom Ólafur í kring... það er það sem er svo sorglegt. Annars er rétt hjá Hauk að hvert atkvæði til sjálfstæðisflokks er ávísun á klúður og spillingu. Mikið rétt.
halkatla, 23.1.2008 kl. 11:21
það færi betur á að einhver hinna stærri flokka SF/VG mynduðu traustan meirihluta með sjöllunum. hinsvegar hafa nsjallarnir nú sýnt í tvígang að þeir eru ekki ábyggilegri en fúin spýta. því fer sem fer.
Brjánn Guðjónsson, 23.1.2008 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.