Er nýja 24 ára reglan eitthvað betri?
30.1.2008 | 11:21
Á meðan bloggaraskarinn tekst á um það hvaða læknir eigi að vera borgarstjóri falla ýmis þjóðþrifamál í skuggann þ.á.m. útlendingafrumvarp Björns Bjarnasonar. Ekki verður annað séð en að þar sé í meginatriðum hið ágætasta frumvarp. Ágæt breyting er t.d. að 24 ára reglan er lögð af í þeirri mynd sem hún var. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins og Evrópunefnd gegn kynþáttamismunun (ECRI) höfðu m.a. gagnrýnt þessa reglu. Reglan gekk út á það að samvistarmaki fékk ekki sjálfkrafa dvalarleyfi nema hann væri eldri en 24 ára. Gagnrýnin felst í því að þarna séu ekki allir jafnir fyrir lögum og sú mismunun bitni á tilteknum hópi fólks af erlendum uppruna Lögin feli það í sér að tiltekinn hópur fólks séu líklegir lögbrjótar.
Nýja formið á reglunni skv. frumvarpinu er að nú skuli ávallt kannað þegar um er að ræða dvalarleyfi, hvort að maðkur sé í mysunni ef annar makinn er 24 eða yngri. Spurningin er hvort að nýja reglan standist mannréttindastaðla ef svo má segja. Mætti segja í lögum um útlendinga: Það skal ávallt athuga hvort að viðkomandi dvalarleyfisumsækjandi er að plata ef hann er orðinn sextugur. Í þessu fælist sú hugmynd að eldri útlendir karlar væru svikulir. Það myndi sennilega mörgum bregða við slík lög.
Ástæðan fyrir því að mannréttindaverðir skipta sér af þessu er að reglur á borð við þessa ala á fordómum gegn útlendu fólki í þessu tilviki ungu fólki frá löndum utan Evrópska Efnahagssvæðisins. Lög eigi að gilda um alla jafnt en ekki að endurspegla eða ala á fordómum. Fyrirframskoðunin sem þessi regla felur í sér er sú að ungt fólk utan Evrópu noti hjónabandið til þess að komast hingað eða sé þvingað hér inn með þessum hætti. Er það rétt? Þó að tölfræði sýndi það, réttlætir það að setja svona í lög? Fólk á að fá að vera fólk en ekki staðlaðir hópar. Mætti ekki eins setja í lög að ávallt skyldi athuga hvort að ungt fólk sé að gera rétt? Á vallt skuli gera ráð fyrir því að ungir ökumenn aki of hratt? Ávallt skuli athugað hvort að ráðherrar segi satt? Erum við undir þaki þeirra fordóma að setja ákvæði í útlendingalög sem við myndum aldrei setja í lög sem vísuðu til okkar sjálfra?
Nú þykist ég vita að dómsmálaráðherra gangi gott eitt til og þessi regla hefur verið til staðar í Danmörku og hún er betri í komandi mynd en í núverandi mynd. En komandi mynd hennar vekur samt upp ýmsar spurningar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.