Þess vegna er biskupinn ekki kóngur!

Er það ekki býsna notaleg tilhugsun að meðal okkar sé fólk, karlar og konur, sem hafa þann starfa einkum að blessa fólk. Menneskjur sem eru sérstaklega til þess fráteknar að láta Guðs blessun streyma frá sér....þær lyfta höndum og kveða: ,,Drottinn blessi þig og varðveiti þig, drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.”

 Þetta er þeirra hlutverk ásamt því að lesa upp úr hinni helgu bók og setja það sem þar stendur í skynsamlegt samhengi.  Hins vegar er þeim ekkert betur gefið en öðrum að skynja guðsviljann  samkvæmt lútherskri kenningu þeirri sem við höfum búið við síðan 1550.  Þess vegna er biskupinn ekki kóngur.  En honum ber að blessa ótt og títt þá sem fara með hið veraldlega umboð.

 Mér datt þetta í hug með blessunina því að ég get ekki lyft vinstri hendinni fyrir lítt bærilegum verk í vinstri öxlinni og get fyrir því ekki sofið. Því ruglast hinn eðlilegi rythmi sá að vaka á daginn og sofa á nóttunni og úr verður hinn varasami rythmi að vaka á daginn og skrifa á nóttunni.

 Þetta er ekki hjartað fyrst einhver spurði heldur sennilega það að ég lyfti of mikið í gær lóðum, stunda líkamsrækt eins og guðsgjöfin Bubbi og Gunnar Sigurjónsson sem blessar Kópavogsbúa.

 Til allrar Guðs lukku er þetta vinstri öxlin. Ég dett ekki úr funksjón. Það er alveg nóg að lyfta þeirri hægri og blessa. Hefði þetta verið hægri öxlin hefði ég orðið að fara í veikindaleyfi og síðan á Hælið í Hveragerði. Vinstri höndin er nefnilega hendi andskotans samkvæmt fornum bókum. Maður blessar ekki með henni einni saman –þá getur farið illa.

Hvað er  svona vafasamur maður að blessa? Getur nokkuð gott komið frá slíku? Von að spurt sé. Það er séð fyrir því. Lúthersk kenning gerir ráð fyrir því að presturinn sé aðeins farvegur blessunar Guðs. Innræti hans skipti ekki máli.

Það er því óþarfi að flýja af hólmi þó illa innrættur prestur lyfti höndum nema þá að hann lyfti bara vinstri hendinni. Þá myndi ég láta sjá undir iljar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Heill og sæll Baldur 

Er ekki heimilt af kirkjunnar þjónum að halda örmum sínum nær líkamanum þegar þið farið með blessunarorðin? Þá reynir alla vega ekki eins á axlarvöðvana.

Á miðöldum voru allmargir byskupar veraldleg yfirvöld jafnframt að vera fulltrúi páfa og þar með guðs í sínum umdæmum. Þeir voru nefndir kirkjufurstar upp á þýsku (Kirchenfürst) og höfðu stöðu landgreifa. Annars er kannski of snúið að blanda sér í flókna sögu Þjóðverja en hún er auðvitað mjög fróðleg en hrikaleg á köflum.

Á langri sögu verður lútherskirkjan þerna hins veraldlega valds. Er þá ekki tilefnið að staldra við og spyrja hvort blessunarorðin þar sem vikið er að valdsstjórninni sé ekki staðfesting þessa? Með því að biðja guð um að blessa yfirvöldin og jafnvel vaka yfir og halda verndarhendi yfir þeim, þá er lútherskirkjan að játa undirgefni sína og þar með þjónustu við valdið? Annars má ekki gleyma því að Lúther var ágætur diplómat og vildi gjarnan kappkosta að forðast afdrifaríkt uppgjör þó svo að fátt hafi valdið jafnmiklum breytingum í hugarfari og eftir að hann negldi upp yfirlýsingu sína á dómkirkjuhurðina sem frægt varð í sögunni. Með þeim atburði varð ekki aftur snúið. Breytingin sem hann barðist fyrir varð tilefni að veraldlegir furstar sem oft voru illa menntaðir sáu tækifæri að söðla undir sig eignir kirkju og klaustra. Það voru e.t.v. menningarlega séð einhver afdrifaríkustu mistökin sem Lúther átti meginþáttin í. Kannski hann hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir þessu en kaþólska valdið var ekki sérlega skilningsríkt né umburðarlynt á þessum tímum. Kannski ekki sérlega kristilegt miðað við eins og kirkjan er í dag.

Annars er þetta áleitin pæling með blessunarorðin og upphaf þeirra. Ætli þau séu ekki upphaflega eitt það fyrsta sem þróast af serímóníum frumkristninnar? 

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 27.2.2008 kl. 08:43

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Það er ekki ónýtt að fá svona viðbót við næturhraflið sitt. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 27.2.2008 kl. 09:11

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þú ert svo mikill keppnismaður Baldur, að þú verður að gá að þér varðandi lóðin. Man að þú áttir erfitt með að hafa einhvern fyrir framan þig þegar við vorum að skokka saman um árið, (sem væri þarft verk að endurvekja) sem að sjálfsögðu endar með því að maður sprengir sig í upphafi og endar illa.

Hafa bara temmilegt á stöngunum, við erum farnir að eldast líka..í árum allavega

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 27.2.2008 kl. 12:26

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Er það ekki býsna notaleg tilhugsun að meðal okkar sé fólk, karlar og konur, sem hafa þann starfa einkum að blessa fólk.

Mér finnst það ansi nöturleg tilhugsun.  Sérstaklega í ljósi þess að fólk þetta hefur flest að lágmarki hálfa milljón á mánuði í laun frá hinu opinbera á sama tíma og ekki eru til peningar til að greiða sálfræðingum fyrir að meðhöndla fólk sem glímir við vandamál.

Blessararnir fá greitt tvöfalt meira en grunnskólakennarar.

Það er árið 2008 og fullorðið fólk starfar við að blessa og þylja upp galdraþulur.  Hvað er eiginlega í gangi? 

Matthías Ásgeirsson, 27.2.2008 kl. 20:43

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Eru ekki "blessarar" þessir oftar en ekki að leysa svipuð mál og sálfræðingar? Það þykist ég vita og ef þeir virka á annað borð þá eru þeir nú betri en enginn við "sálgæsluna" Matthías, það er okkar reynsla hérna tel ég vera.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 27.2.2008 kl. 21:32

6 identicon

Að einhver hafi starfa af því að blessa fólk, minnir óneitanlega á Nígeríusvindl
Ég gæti aldrei orðið sáttur við mína samvisku í "starfi" sem þessu þar sem ég myndi lofa og blessa þvers og kruss, taka peninga fyrir eitthvað sem er í besta falli misskilningur.
Samviskan myndi plaga mig svo að ég myndi líklega enda með að kála mér eða verða róni.

DoctorE (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 21:57

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hafsteinn, blessararnir eru fúskarar - sálfræðingar eru fagmenn.  Blessarar hafa tekið einn eða tvo kúrsla í kristilegri sálgæslu sem gengur út á bænina skv. biskup.  Sálfræðingar hafa menntað sig í mörg ár til að sinna veraldlegri "sálgæslu" sem unnin er á faglegum forsendum.  Engu máli skiptir hverrar trúar fólk er þegar það leitar aðstoðar sálfræðings.

Ef fólk vill leita aðstoðar er Ríkið (það erum við) búið að greiða laun fúskarans (blessarans) en einstaklingar þurfa sjálfir að borga að lágmarki sjö þúsund krónur á tímann til að fá aðstoð fagmanns.

Svo hafa blessararnir verið að vinna að því að koma sér inn í skólana á kostnað sveitarfélaga, þar sem þeir vilja starfa við hlið kennara með 100% hærri laun. 

Nei Hafsteinn, það er ekki okkar reynsla.  

Matthías Ásgeirsson, 28.2.2008 kl. 09:59

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég er svo þrjóskur, að ég ætla samt að halda því fram að það sé okkar reynsla hér í Þorlákshöfn....enda engir hér sem hægt er að fara til og slaka út 7 þús. kallinum í, þurfum að bæta við það ferð yfir fjallið...

Það er nú sennilega það eina konunglega við hann Gunnar...?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.2.2008 kl. 11:43

9 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Jamm, biskupinn verður að láta sér duga milljón á mánuði og kínverskt postulín merkt biskupsstofu.

Matthías Ásgeirsson, 28.2.2008 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband