Málfrelsi og ofbeldisglæpir!
21.3.2008 | 08:46
,,Margt ungt fólk er meira sjálfmiðjað en eldri kynslóðir voru á þess aldri, hugsar mest um eigið líf. Það hafnar einstökum atriðum í tjáningarfrelsi, telur rétt að setja hömlur á rangar eða vondar skoðanir. Til dæmis útlendinga-, gyðinga- eða arabahatur. Framtíð lýðræðis er því ekki í traustum höndum.
Jónas Kristjánsson er að fjalla um ungt fólk á www.jonas.is Flest siðuð samfélög banna ,,hatursræður. Ekki það að neinum þyki gaman að setja hömlur á málfrelsið heldur hitt að hatursræður gegn útlendingum, gyðingum, aröbum eða hvaða fólki sem er leiða til ofbeldis. Slíkar ýta undir ofbeldi í garð saklauss fólks
.Í Evrópu eru tugir alvarlegra ofbeldisglæpa framdir daglega vegna haturs á útlendingum, gyðingum eða aröbum. Að hvetja til slíks beint eða óbeint á ekki að líðast.
Leið Jónasar er einföld. Málfrelsi án takmarkana. Að mínum dómi verður að setja takmarkanir í opinberri umræðu á þá kunna ekki að takmarka sjálfa sig. Það er líka niðurstaða flestra þeirra Evrópuþjóða sem voru til fyrir 1945.
Það er því alla vega rangt hjá Jónasi að kenna slíkar hömlur við ungt fólk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Facebook
Athugasemdir
Ég er kennari og vinn með þessu unga fólki sem er oft eins og Jónas benti á sjálfmiðað en hvað varðar skoðanir þess á hinu og þessu og t.d. rasista umræðu þá get ég sagt þér það og þori að fullyrða að þetta er lærð hegðun, bergmál að heiman þar sem fullorðna fólkið situr við eldhúsborðið og malar endalaust um það hvað aðrir eru vondir að stela frá því vinnu ofl. Í þeim dúr. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Börn heyra e.t.v. ekki nema hluta samræðna fullorðna fólksins og mynda sér því skoðanir á hluta þeirra samræðna sem þa heyrir og þá oft úr samhengi. Ég tel að fullorðna fólkið / eldra fólkið sé t.d. mun fordómafyllra en unga fólkið, þessi skrif Jónasar um unga fólkið ber t.d. með sér fordóma.Gleðilega páska og eigðu góðan dag í dag.
Ragnhildur L Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 10:35
Annar þáttur er líka ríkur í eðli mannsins, og hann er ekki umhverfismótandi, það er svo grunnt á öfundareðlinu. Líklegast frá hellistímabili mannsins þar sem hver þurfti að berjast fyrir sínu. Þar var utanaðkomandi ógnun. Þetta heitir á fínu máli að það sé grunnt á þjóðerniskenndinni. Gleðilega páska.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 13:15
Hvers vegna telja sumir menn sig svo yfir aðra hafna að þeir geti sett þeim leikreglur eftir eigin gildum? Hver er telur sig svo miklu betri en aðra að hann geti takmarkað tjáningarfrelsi einstaklinga? Hverjum þjónar slík kúgun?
Fordóma er best að tækla með umræðu ekki þöggun. Enginn kúgunarstefna, rasismi eða önnur eins þvæla hefur svo sterkar rætur að ekki meigi reita þær upp með góðri rökræðu og almennri umræðu.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 14:49
Nú er ég ekki sammála þér, Baldur, heldur Jónasi og Vilhjálmi Andra það er ekki hægt að gera neinar málamiðlanir með skoðanafrelsið. Það sem hefur verið að gerast í Bretlandi undir áhrifum fá Bandaríkjunum síðastliðin ár (og dómar undanfarna mánuði í meiðyrðamálum hérlendis) - ætti fremur að hvetja okkur til að standa enn betri vörð um skoðanafrelsið og öll mannréttindi sem hafa áunnist. Það er umræðan sem gildir.
María Kristjánsdóttir, 21.3.2008 kl. 22:36
Í Bandaríkjunum hefur málfrelsið lengst af verið fullkomið. Þar hafa fasistar, nasistar, kommúnistar eða sambærileg öfl aldrei náð völdum. Bandaríkin eiga sér svo sem ekki flekklausan feril í mannréttindamálum, ekkert frekar en önnur ríki, en hingað til hafa allar þær framfarir sem orðið hafa í því landi orðið varanlegar á meðan að afturfarir hafa verið tiltölulega smáar í sniðum og skammlífar (vonum að það haldist).
Í öllu falli held ég að uppgangur fasisma, nasisma og kommúnisma í Evrópu fyrir 1945 verði seint skýrður með því að í álfunni hafi ríkt of mikið málfrelsi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 02:37
Í einu góðu riti segir að ,,tákn algjörs frelsis" sé dýrið. Eitt af því sem gerir manninn ólíkan dýrunum er að hann getur sett sjálfum sér hömlur og er það í rauninni það sem við erum að vinna að alla ævi, þ.e.a.s. að finna meðalveg þess að geta stjórnað hvötum okkar. Mér finnst það undarlegt þegar fólk segist í rauninni vilja hafa frelsið til að tala niður til annarra, sérstaklega þegar litið er á sögulegar afleiðingar þess að láta slíkt viðgangast samanber nasista og Rúanda. Svo er líka alveg ljóst að þegar leyfist að tala niður til eins hóps í samfélaginu þá oft herðast reglurnar um hvað má segja um aðra hópa samanber ríkisstjórnir Hitlers og Stalíns til dæmis.
. (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 23:17
Í öllu falli held ég að uppgangur fasisma, nasisma og kommúnisma í Evrópu fyrir 1945 verði seint skýrður með því að í álfunni hafi ríkt of mikið málfrelsi.
Uppgangur nasista raunverulega byggðist á því að gera gyðinga að blórabögglum þess sem illa hafði farið í landinu og sama er að segja í Rúanda. Í báðum tilvikum voru notaða aðferðir þess að 'dehumanize'a þessa minnihluta hópa með ýmsum uppnefnum og var þetta gert gegnum fjölmiðla landanna, ,,kakkalakkarnir" í Rúanda munu aldrei bíða bætur þess hversu langt málfrelsið fékk að ganga þar.
. (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 23:20
Það er nú þegar bannað að hvetja til afbrota, þetta hatursræðudót er tilganglaust haft á tjáningarfrelsi. Svipað og bannið við að draga dár að trúarskoðunum annarra eða við ærumeiðingum.
Það eru ekki mannréttindi að þurfa ekki að finna til móðgunar.
Ég held ekki að hérna sé verið að ræða um sömu hlutina. Það er enginn að segja að ekki megi gagnrýna en það er reginmunur á því að gagnrýna og raunverulega gera lítið úr einhverju eða einhverjum án nokkurra raka og með þeim tilgangi að vekja hatur með fólki.
. (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.