Ted Kennedy og bandaríska heilbrigðiskerfið!
4.6.2008 | 07:41
Ted Kennedy er búinn í heilaskurðinum. Hann handpikkaði skurðlækna. Hann valdi sér sjúkrahús. Fyrir nokkrum árum gerði hann það sama þegar dóttir hans fékk krabbamein. Kennedy greiðir starfsfólki spítalanna sem annast hann aukalega. Aðgerðin virðist hafa tekist vel og Kennedy er kominn í geislameðferð. Elskaður og dáður öldungadeildarþingmaður. Einn af þeim allra áhrifamestu. Karismatískur orator og löggjafi.
Á ferli sínum hefur Kennedy barist fyrir endurskipulagi bandaríska heilbrigðiskerfisins og horft til Kanada í því sambandi. Kanadíska kerfið er giska líkt því sem er á Íslandi. Jafn aðgangur, ódýrt, bannað að kaupa sig framfyrir. Fox fréttastöðin sem hefur fjallað mjög virðulega um Kennedy í veikindum hans hefur samt bent á að ef Kennedy hefði náð sínu fram hefði hann líklega ekki getað valið sér skurðlækna eða sjúkrahús hvorki fyrir sig eða dóttur sína. Einn álitsgjafinn, yfirlæknir, gekk svo langt að segja að í kanadíska eða breska kerfinu væri Kennedy kominn á biðlista sem væru að jafnaði sex mánaða langir. Hann bætti því reyndar við að í þessum ríkjum væru áhrifamenn teknir framyfir almenning þó enginn talaði um það. Hvernig skyldi það vera hér?
Hvað sem því líður er hér á ferðinni siðferðlegt pæling. Auðkýfingurinn notfærir sér sín réttindi í kerfi sem hann vill sjálfur afnema vegna skorts á jafnræði. Jafnræðið hefði að öllum líkindum leitt til þess að hann hefði ekki ráðið eins miklu og raunin varð um eigin meðferð. Hefði hann kosið sínar eigin breytingar í ljósi þess að það skerti hans eigin forréttindi? Eða verður bæði sleppt og haldið.
Ekki efast ég um heilindi Kennedys en fell fyrir pælingunni. Vonandi nær Kennedy sér vel og vonandi nær hann fram umbótum á bandaríska heilbrigðiskerfinu þar sem tugmiljónir eru án sjúkratryggingar.
Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeim vanda að við vitum ekki hvers konar umbætur við viljum. Íslenska kerfið hefur misst sjarma sinn en engin eining er um það hvers konar umbætur séu gagnlegar.
Og við eigum engan Ted Kennedy.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kennedy gekk á sveig við eigin hugsjónir af því að hann sjálfur átti í hlut. Menn eru frekir til fjörsins og vilja allt til vinna. En það gera líka þeir sem ekki eiga peninga. Mér finnst fátt vera eins rangt og það að líf og heilsa manna sé metin eftir peningum. Allir eiga að vera jafnir. Annar kostur er sá að þeir fátækustu eigi að vera fyrstir á öllum biðlistum!
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.6.2008 kl. 12:17
Ætli fyrirmenni á Íslandi þurfi nokkuð að gera sér að góðu að liggja á sex manna stofu, já eða jafnvel á göngum spítalanna?
Jóna Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 14:29
Í Danmörku greiðir atvinnurekandi minn sjálfviljugur fyrir auka-sjúkratryggingu sem veitir mér aðgang að einkasjúkrahúsi ef ég veikist alvarlega til að koma að ég drepist á óendanlegum biðlistum þar í landi "ókeypis heilbrigðisþjónustu". Í Kanada eru sjúklingar í auknum mæli sendir til Bandaríkjanna til að þeir eigi möguleika á að lifa af biðlistana þar í landi.
Sinn er siðurinn í hverju landi.
Geir Ágústsson, 4.6.2008 kl. 17:35
Mér var tekið eins og konungi þegar ég þurfti að nota heilbrigðisþjónustuna í Boston enda á rándýrri tryggingu.Konan mín var á miklu ódýrari tryggingu (annar háskóli) og fékk svona la- la þjónustu. Ég man hvað mér þótti furðulegt þá (1990) að hugsa um peninga samhliða læknisþjónustu. Ég skrifaði ritgerð á þessum tíma með þeirri niðurstöðu að íslenska heilbrigðiskerfið myndi ekki ráða við kaupkröfur og tækjakröfur komani tíma. Þakka kommentin. Kv.
Baldur Kristjánsson, 4.6.2008 kl. 17:53
Mér var tekið eins og konungi þegar ég þurfti að nota heilbrigðisþjónustuna í Boston enda á rándýrri tryggingu.Konan mín var á miklu ódýrari tryggingu (annar háskóli) og fékk svona la- la þjónustu. Ég man hvað mér þótti furðulegt þá (1990) að hugsa um peninga samhliða læknisþjónustu. Ég skrifaði ritgerð á þessum tíma með þeirri niðurstöðu að íslenska heilbrigðiskerfið myndi ekki ráða við kaupkröfur og tækjakröfur komani tíma. Kv.
Baldur Kristjánsson, 4.6.2008 kl. 17:55
Góð pæling Baldur, eins og oft áður...
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 4.6.2008 kl. 20:39
Eins og í Animal Farm, þá eru allir jafnir á Íslandi, en sumir eru bara pínulítið jafnari en aðrir. Svoleiðis hefur það alltaf verið og svoleiðis mun það væntanlega alltaf verða, jafnvel þó við kysum yfir okkur stjórn sem segðist ætla að breyta þessu. Hverjum sem segist ætla að breyta þessu, mun mistakast það, þó hann fengi til þess tækifæri og óskorað vald.
Karl Ólafsson, 4.6.2008 kl. 23:41
Aðalvandi okkar er að við höfum sjúkdómakerfi en ekki heilbrigðiskerfi. Peningaflæðið í kerfinu er bundið við fjölda sjúklegra einkenna en ekki eflingu heilbrigðis og því fara stofnanir og fagfólk að skilgreina og meðhöndla sífellt fleiri vandamál. Kerfið fer á endanum að lifa sjálfstæðu lífi, en er ekki í takt við vellíðan okkar eða vanlíðan. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 5.6.2008 kl. 07:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.