Steingrímur -meira en einnar messu virði !

Ég vildi að ég hefði komist til að heiðra Steingrím Hermannsson í gær.  Það var synd að Framsóknarflokkurinn skyldi setja málþingið um hann á messutíma.  Það hefði sá mæti flokkur ekki gert hér á árum áður þegar elítan sótti enn messur enda hefði það varðað við landslög. Eftir á að hyggja hefði ég átt að aflýsa messunni sem ég sjálfur saung því að Steingrímur Hermannson er svo sannarlega meira en einnar messu virði.

Ég kynntist Steingrími aðeins á árum áður. Sá hann á fundum og ráðstefnum eins og gengur og svo hringdi hann stundum í mig á þeim tíma sem ég skrifaði  leiðara og pistla í NT.  Þetta voru reyndar pínu vandræðaleg símtöl því að það áttu ekki að vera tengsl milli NT og Framsóknarfokksins- það var hugmyndafræðin.  En hvað gerir ungur drengur með pennastöng þegar formaður Framsóknarflokksins hringir í hann.  Hann reynir að halda sínu en hann er samt feiminn og kurteis. Steingrímur var einnig mjög kurteis og þetta var ábyggilega hluti af daglegri rútínu stjórnmálaforingjans - að hafa áhrif sem víðast. Og það hafði hann. Hann var í orðræðu maður skynseminnar og hófseminnar og hann vildi einlæglega stuðla að réttlátu og góðu samfélagi. Leiðarar mínir urðu eflaust betri og örugglega eilítið Framsóknarlegri vegna þessara samtala - enda Framsóknaráratugur og landsbyggðin átti ennþá möguleika.

Loksins er fylgi Sjálfstæðisflokksins að minnka á landsbyggðinni.  Kannski er sveitavargurinn að verða skynsamari því að frjálshyggja eða óheftur markaðsbúskapur er sú stjórnmálastefna sem síst er hliðholl dreifðum byggðum. Það er miklu hagkvæmara út af fyrir sig að allir búa á sama blettinum. Landsbyggðarmenn ættu að fylkja sér um Vinstri græna og Framsókn – flokka sem eru vísir til að styrkja landsbyggðina og þeir ættu auðvitað að styðja aðild Íslands að ESB og komast þannig í byggðasjóði Evrópusambandsins.

Það er hins vegar eðlilegt að Sjálfstæðismenn séu sterkir í harðasta þéttbýlinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég man Steingrím þennan fyrst og fremst sem öflugan "forðagæslumann" fyrir Sambandið, Esso og aðra unga þess um allt land, m.a. hér í Þorlákshöfn. Ég held að flestir geri sér ljóst í dag að sú hagsmunafgæsla gerði þjóðinni afar lítið gagn. En þetta á allt eftir að rýna í, þó síðar verði.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 23.6.2008 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband